25.11.1971
Sameinað þing: 17. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1139 í D-deild Alþingistíðinda. (4804)

910. mál, vísitölubinding húsnæðislána

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Það er rétt, sem hér var sagt áðan af fyrirspyrjanda, að s.l. vor skömmu fyrir þingslit komu fram upplýsingar um það, að í mikið óefni mundi stefna með húsnæðismálalán þau, sem væru bundin vísitölukvöð. Þá þegar bar ég og nokkrir aðrir þm. fram þáltill. um það, að könnun færi fram á því, hvort þessar niðurstöður væru réttar. En svo skammt var til þingslita, að þáv. ríkisstj. gat ekki orðið við þeirri ósk minni og meðflm. minna, að þáltill. kæmi til umr. eða afgreiðslu. Hins vegar lofaði forsrh. því, að málið skyldi tekið til könnunar, og það var gert. Fráfarandi ríkisstj. sneri sér til Seðlabankans og Alþýðusambandsins með ósk um að láta könnunina fara fram. Ég leit ekki þannig á, að það væri svo komið, að vextirnir af þessum lánum væru orðnir það, sem kalla mætti okurvexti, en það þótti mér sýnt af niðurstöðum Þóris Bergssonar tryggingastærðfræðings, að um það er lánstíma lyki, þá yrðu þetta okurlán og illt við að búa, þegar aðrir byggju ekki við sams konar kjör, eins og upplýst var hér áðan, að yrði lagt á öll langtímalán, þegar þessi kvöð var sett á af ríkisstj., þegar við sömdum um húsnæðismálin 1963 eða 1964.

Það er nú gleðilegt og ánægjulegt, og ég leyfi mér að lýsa yfir fögnuði mínum yfir því, að stjórnarandstaðan er svo áköf í að minna ríkisstj. á loforð sín í stjórnarsáttmálanum, að það má nánast segja, að stjórnarandstaðan sé okkar vakandi samvizka um það að svíkjast ekki undan þeim loforðum, sem við höfum gefið. Fyrir það er ég þakklátur. Hin vakandi samvizka á að vera sífellt til þess að minna menn á það, sem þeir gera ekki nógu vel, og þetta er gott. Ég þakka fyrir þetta. Það eru nú bara liðnir þrír eða fjórir mánuðir síðan við settumst í stjórnarstólana, og þess er ekki að vænta, að við séum búnir að standa við öll loforð fjögurra ára tímabils, en samt sem áður, það er gott að minna á sem flest, og ég vona, að það verði ekkert lát á því, þá svíkjum við minna. Að því er þetta varðar, þá þarf enginn að efast um það, að vísitölukvöð á húsnæðislánum verður afnumin, úr því að ekki var staðið við það, sem var forsenda þess, að slík kvöð yrði sett á öll langtímalán. Húsbyggjendur og húsnæðiskaupendur verða ekki einir látnir búa við þessi kjör. Það kemur strax í ljós af svari Seðlabankans, sem ég skal nú verða við ósk um að lesa, að enn sem komið er er ekki komið í óefni. Enn sem komið er eru lánakjörin ekki óhagstæðari en á öðrum lánum húsnæðismálastjórnar, en það er játað af Seðlabankanum, að þegar fram í sæki og um það leyti, þegar lánstíma ljúki, þá verði þessi kjör ósambærileg, þ.e. óhagstæðari en önnur lánakjör húsnæðismálastjórnar.

Niðurstöður Seðlabankans og ályktanir þær, sem þeir draga af sínum útreikningum, eru á þessa leið: Hingað til, þegar liðin eru sjö ár af lánstímanum, eru lánskjörin enn ekki óhagstæð, en það er játað í svarinu, að þegar á lánstímann liði, þá standist þau ekki samjöfnuð við önnur lánskjör. Ég tek þá þetta úr svörum seðlabankafulltrúanna, sem könnuðu málið. Þeir segja í fyrsta lagi:

„Greinilegt er, að greiðslubyrðir lántaka vegna lána húsnæðismálastjórnar hafa létzt við þær breytingar á lánakjörum, sem framkvæmdar voru 1964, og enn frekar við breytingarnar frá 1968. Þetta er um liðna tímann. En sé litið á allt lánstímabilið og ekki aðeins fyrstu sjö árin, sbr. 1. lið að ofan, þá kemur í ljós, að lánskjör nr. 1, þ.e. þau lánskjör, sem giltu fram á árið 1964, munu reynast lántaka hagstæðari en kjör þeirra þriggja lánaforma, sem reynd hafa verið frá þeim tíma. Samkv. lánskjörum nr. 1 bera um 4/5 lánsupphæðarinnar 81/4% nafnvexti án allrar vísitölutengingar. Tenging 1/5 hluta láns við breytingar á framfærsluvísitölu að fullu ásamt 51/4,% nafnvöxtum megnar hins vegar ekki að hækka meðalvexti samkvæmt þessum lánskjörum upp fyrir meðalvaxtakjör annarra lánsforma húsnæðismálastjórnar, hvort sem þau hafa verið tengd vísitölum að fullu eða hálfu leyti. Í þriðja lagi. Á þeim tímamótum, þegar vaxandi vísitöluáhrifa fer að gæta og raunverulegar vaxtagreiðslur nálgast eða fara upp fyrir vaxtagreiðslur, sem miðast við nafnvexti eina, t.d. 81/4%, eykst óánægja lántakenda, sem við slík lánskjör búa. Samanburðurinn við aðra lántakendur verður óhagstæður, og vill þá einnig oft fyrnast yfir, að vaxtabyrðin var hlutfallslega hagstæðari framan af lánstímanum, sem í byrjun lánstímans var talinn mikill kostur.

Í fjórða lagi. Til þess að koma í veg fyrir slíkan samanburð virðast a.m.k. tvær leiðir koma til greina, sem hefðu þann tilgang að jafna lánskjör á íhúðalánamarkaðinum í heild:

a) Annars vegar kemur til greina, að vísitölutenging yrði almennt tekin upp gagnvart slíkum lánum. Felur sú leið í sér, að lífeyrissjóðir og aðrar þær lánastofnanir, sem slík lán veita, byðu upp á sömu lánskjör og húsnæðismálastjórnin. Þetta er fyrri kosturinn.

b) Hins vegar gæti húsnæðismálastjórn afnumið alla vísitölutengingu lána og tekið upp nafnvexti eina, eins og lífeyrissjóðir og aðrar íbúðarlánastofnanir gera í dag. Ef þessi leið væri farin, yrði einnig að telja eðlilegt, að nafnvextir húsnæðismálastjórnarlána mundu ákvarðast af og verða þeir sömu og hjá öðrum lánastofnunum, eins og þeir eru á hverjum tíma, en af fyrsta flokks verðbréfum fara vextir allt upp í 91/2% í dag. Væru nafnvextir húsnæðismálastjórnarlána lægri en hinir almennu markaðsvextir, mundi það að sjálfsögðu hafa sín áhrif á útlánagetu Byggingarsjóðs ríkisins í framtiðinni. Á árinu 1970 námu vaxtatekjur sjóðsins 317.3 millj. kr. eða 26.3% af heildarráðstöfunarfé hans á því ári.“

Þetta er úr svari fulltrúa Seðlabankans, sem könnuðu málið frá þeirri hlið. Eins og ég sagði áðan, þá er skýrslan frá fulltrúum Alþýðusambandsins aðeins komin fyrir örfáum dögum og er mikið plagg og í mörgum tölum og töflum, og á þá skýrslu verður litið næstu daga. Síðan verður gerður samanburður á þessum niðurstöðum og leitað samræmingar. Nú, það er vitanlegt, að þarna er ekki í alveg auðan sjó að sigla. Það kemur til mála, sem sé síðari leiðin, að afnema vísitölukröfuna, og á hana verður sérstaklega litið af mér a.m.k., en þá er eftir að ákveða vaxtafótinn á lánunum, og þar blasir náttúrlega við rýrnun á tekjum Byggingarsjóðs ríkisins, ef vaxtafóturinn verður settur mjög lágur, en vextirnir nema nú 1/4 af tekjunum, eins og þarna er upplýst. Menn geta haft það í huga að reyna að gera það að áróðursmáli, að athugun á því taki sinn tíma, en sem betur fer sýnir skýrsla Seðlabankans, að það er ekki neinn bráður voði, sem blasir við enn þá, og ég trúi því, að það sé rétt niðurstaða, að enn þá, þegar sjö ár eru liðin af lánstímanum, séu lánskjörin ekki óhagstæðari en önnur húsnæðismálalán. En maður horfist hins vegar í augu við það, og það játa seðlabankafulltrúarnir, að þegar líður á lánstímann verða þessi lánskjör miklu óhagstæðari.

Sagt var hér áðan, að það væri óafsakanlegt af Alþýðusambandi Íslands að láta svör sín dragast svona. Mér er kunnugt um, að það var rekið mjög á eftir því af Alþýðusambandinu. Hins vegar hafði félmrn. bæði rekið á eftir því að fá skýrslu frá Seðlabankanum og Alþýðusambandinu, en málið var í höndum þeirra fulltrúa, sem Alþýðusambandið hafði tilnefnt, og skýrsla þeirra kom ekki fyrr en nú fyrir fáum dögum, þrátt fyrir allan eftirrekstur. Hins vegar kom skýrsla Seðlabankans ekki mjög fljótt heldur. Hún kom ekki fyrr en í lok septembermánaðar, og hafði þeim þó verið falið verkefnið 28. maí. Ég hugsa, að málið sé nokkuð flókið, og ég trúi því, að þegar menn bera saman niðurstöður beggja aðilanna, Alþýðusambandsins og Seðlabankans, þá verði hægt að sjá það fljótlega, hvað sé hið rétta í málinu, og þá fyrst er hægt að komast að skynsamlegri niðurstöðu um, hvaða tökum málið skuli tekið og hvaða ráðstafanir gerðar. En mér sýnist einsætt af síðari hlutanum í svari seðlabankamannanna, að vísitölukvöðin geri þessi lán þegar á líður lánstímann mjög óhagkvæm lántakendum.