14.12.1971
Sameinað þing: 24. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 653 í B-deild Alþingistíðinda. (490)

1. mál, fjárlög 1972

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Hæstv. fjmrh. virðist hafa tekið það illa upp, bæði síðdegis í dag og í kvöld, að ég skyldi hafa talið ástæðuna fyrir þeim seinagangi, sem verið hefur á meðferð fjárlagafrv. og á meðferð fleiri mála, ekki vera þá, að ráðh. sjálfa skorti hvern um sig hæfileika eða þekkingu til þess að fjalla miklu greiðar og öruggar um mál en þeir hafa gert, heldur gat ég þess til, að ástæðan væri sú, að þeim gengi ekki vel að vinna saman innbyrðis og þeim gengi ekki vel að hagnýta sér starfskrafta hins mjög svo hæfa embættismannaliðs, sem íslenzka ríkið hefur á að skipa. Það kom fram í ræðu hans áðan, að hann teldi, að í þessum orðum mínum hefði getað falizt það, að ég væri að gera því skóna, að embættismennirnir vildu ekki vinna fyrir hæstv. ráðh. Auðvitað hafa allir, sem orð mín hafa heyrt, skilið, að þetta var auðvitað ekki það, sem ég átti við. Það hefur aldrei hvarflað að mér, að þeir ágætu embættismenn, sem eru í þjónustu ríkisstj., séu ekki fúsir til þess að vinna fyrir sína yfirmenn, ráðherrana. Það hefur aldrei hvarflað að mér. Það, sem ég átti auðvitað við, og sem kom beint fram í orðum mínum og er alveg ástæðulaust að misskilja, er það, að ég óttaðist, að ein skýring á seinaganginum væri sú, að hæstv. ráðh. notuðu ekki hæfileika embættismannanna í nægilega ríkum mæli. Ég vildi aðeins láta þetta koma alveg skýrt fram, að sú merking, sem hæstv. ráðh. vildi leggja í orð mín, var auðvitað víðs fjarri raunverulegri merkingu orðanna, hvað þá meiningu minni.

Af því að hæstv. ráðh. vefengdi ekki þær tölur, sem ég fór með, — ef hann gerir það, þá gerir hann það væntanlega við 3. umr. og þá verður okkur báðum ánægja að því að ræða þær nánar, — en bara til að fyrirbyggja frekari misskilning um þetta af hálfu hans eða hálfu einstakra þm., þá þykist ég alveg sjá í hendi minni, við hvað hæstv. fjmrh. á, þegar hann bendir á það, að t.d. sú staðreynd að afnema á almannatryggingagjaldið, sem nemur um 655 millj. kr., og finna annan tekjustofn í stað þess, sagði hann, þá hækkar þetta ekki niðurstöðutölur fjárlaga. Þetta út af fyrir sig er auðvitað algerlega rétt og stendur í sambandi við þá nýju gerð fjárlaga, sem nú hefur verið tekin upp.

Eins og allir vita, eru t.d. lífeyristryggingarnar fjármagnaðar með þrennum hætti: Sumpart með almannatryggingagjaldi, sem einstaklingar borga, sumpart með lífeyristryggingagjaldi atvinnurekenda og sumpart með framlagi úr ríkissjóði. Samkv. eldri gerð fjárlaga var eingöngu framlagið úr ríkissjóði meðal ríkisgjaldanna. Samkv. hinni nýju gerð fjárlaga eru öll heildargjöld lífeyristrygginganna færð gjaldamegin og teknamegin, þá auðvitað framlag ríkisins, almannatryggingagjald einstaklinganna og lífeyristryggingagjald atvinnurekenda. Hér á bls. 7 í 3. gr. fjárlaga er tilgreint í ákveðnum lið almannatryggingagjald 654 millj. 900 þús. kr. Á bls. 102 gjaldamegin er auðvitað sama upphæð, af því að þetta gengur inn í heildarráðstöfunarfé lífeyristrygginganna. Það, sem nú gerist, er eftirfarandi, ef tekjuöflunarfrv. ná fram að ganga, að liðurinn almannatryggingagjald 655 millj. kr. hverfur teknamegin, en útgjöldin haldast óbreytt. Ef t.d. meiningin er að afla allra teknanna með tekjuskatti, þá verður tekjuskattsliðurinn neðar á bls. 7 í sömu grein, liðurinn tekjuskattur að hækka um 655 millj. kr. vegna þess arna, en samkvæmt færslureglum fjárlaga mundi gjaldamegin hverfa sá liður, sem svarar til 655 millj. kr. almannatryggingagjaldateknanna, og ríkisframlagið til lífeyristrygginganna hækka um 655 millj. kr. Þannig efast ég ekki um, að embættismenn fjmrn. muni stilla fjárlögunum upp, næsta fjárlagafrv. og fjárlögum upp, þegar þau verða gerð upp, ef þessi tekjuöflunarfrv. ná fram að ganga. M.ö.o., framlag ríkisins til lífeyristrygginga mun gjaldamegin hækka um 655 millj. kr. og tekjuskattur koma í staðinn fyrir almannatryggingagjald teknamegin. Ríkisframlag hækkar þannig um 655 millj. kr. af þessum sökum. Þetta vona ég, að öllum þm. sé algerlega ljóst, og ég tek þetta aðeins sem eitt dæmi um það, að mínir útreikningar að þessu leyti hafi verið algjörlega réttir. Það, sem ég var að sýna fram á með þeim tölum, sem ég greindi frá áðan, var einfaldlega það, — ég var ekki að tala um niðurstöðutölur fjárlaga, því að auðvitað veit hæstv. fjmrh., að þessi brúttó niðurstöðutala breytist ekki við þennan tilflutning — það, sem ég var að leiða rök að, var það, hver þyrfti að vera heildarupphæð þeirra tekjuöflunarfrv., sem nauðsynleg væru vegna þeirra auknu útgjalda ríkissjóðs, sem ókomin eru inn í fjárlagafrv„ og þá er auðvitað t.d. almannatryggingagjaldið, 655 millj., einn af þeim liðum. M.ö.o., summan 3 750 millj. kr., sem ég komst að, m.a. með þessum hætti, hún sýnir það, að það þarf að afla nýrra ríkistekna til viðbótar þeim tekjum, sem ríkið hefur nú samkvæmt fjárlagafrv., að upphæð 3 750 millj. kr. Þetta er í „prinsippinu“ alveg óumdeilanlegt. Ég hef enn sama fyrirvara með það, að einstakar tölur í þessum talnalið, sem ég las áðan, séu kannske ekki hárréttar. Það getur vel verið að dálitlu skakki, ég hef ekki aðstöðu til þess að reikna það nákvæmlega rétt upp á tug millj„ það getur skakkað einhverjum tugum millj. Ég hafði fullan fyrirvara um það, en í grundvallaratriðum er þetta rétt hugsað og rétt fram sett, það vona ég, að hæstv. fjmrh. dragi ekki í efa, þegar hann athugar málið milli 2. og 3. umr.