29.02.1972
Sameinað þing: 43. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1214 í D-deild Alþingistíðinda. (4936)

173. mál, virkjun Jökulsár á Fjöllum

Fyrirspyrjandi (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Í hinum takmarkaða ræðutíma er auðvitað ekki ráðrúm til að ræða um Dettifossvirkjun almennt, en ég vil leyfa mér að þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans og þær upplýsingar, sem hann hefur veitt. Ég leyfi mér að skilja svar hans svo, að hann geri ráð fyrir, að unnið verði að undirbúningi áætlunar að Dettifossvirkjun á næsta sumri og að henni muni verða lokið eftir tvö ár, þannig að þá muni liggja fyrir fullnaðaráætlun um virkjunina, ef ekki kemur eitthvað sérstakt fyrir, sem valdi því, að erfiðara verði að gera þá áætlun en gert hafði verið ráð fyrir og erfiðara en gert var ráð fyrir fyrir 9–10 árum, þegar gerð var áætlun um þessa virkjun, því að þá voru ekki nefndar þær hindranir, sem hæstv. ráðh. gat um áðan í sambandi við jarðhreyfingar. Það hefði nú verið fróðlegt í þessu sambandi að fá upplýsingar um það, hvort ekki hafi verið rannsökuð í sambandi við aðrar virkjanir hér á landi slík fyrirbrigði sem þessi og hvort það er e.t.v. ekki svo, að rannsóknirnar við Dettifoss hafi verið látnar fram fara, vegna þess að menn hafi haft grun um slíkar jarðhræringar á öðrum stöðum.

Ég vil einnig mega skilja svar hæstv. ráðh. á þá leið, að það verði lögð sérstök áherzla á þetta verk, þ.e. að koma í framkvæmd fullnaðaráætlun um Dettifossvirkjun. Eins og hv. þm. er kunnugt, er rannsóknarmáttur ríkisins, ef svo mætti að orði komast, takmarkaður, bæði vegna þess að fjármunir eru takmarkaðir og einnig sá vinnukraftur, sem hægt er að verja til rannsókna. Ég vil leyfa mér að vænta þess, að þetta verkefni verði á næstu tveimur árum látið sitja í fyrirrúmi fyrir verkefnum, sem fremur geta beðið en þetta, og ég á þar m.a. við ýmsar rannsóknir, sem byrjað hefur verið á undanfarin sumur, eins og t.d. rannsókn á möguleikum til að veita Skaftá vestur í Þjórsá, rannsókn á möguleikum til að veita Héraðsvötnum suður í Þjórsá og Skjálfandafljóti suður í Þjórsá og Skjálfandafljóti austur í Laxá eða að veita vatni úr Jökulsá á Fjöllum og Jökulsá á Brú austur í Fljótsdal. Allt þetta hefur verið í umr., og ég veit ekki betur en á vegum hins opinbera og fyrir almannafé hafi verið nokkuð fengizt við þessar rannsóknir. A.m.k. varð ég þess var, að sérfræðingar voru að vinna að rannsókn á möguleikum til vatnaflutninganna á Austurlandi s.l. sumar. Ég vildi mega vænta þess, að slík verkefni, sem að sjálfsögðu eru ekki mjög aðkallandi, þó að þau séu vísindalega áhugaverð, verði ekki látin sitja í fyrirrúmi fyrir aðkallandi verkefnum eins og fullnaðaráætlun um Dettifossvirkjun.