20.12.1971
Sameinað þing: 27. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 674 í B-deild Alþingistíðinda. (501)

1. mál, fjárlög 1972

Frsm. 1. minni hl. (Jón Árnason):

Herra forseti. Eins og hv. frsm. meiri hl. fjvn. hefur nú gert grein fyrir, þá hefur nú verið gengið, — og hér liggur fyrir þskj., — frá áætluðum tekjum samkv. þeim gjalda- eða tekjustofnum, sem nú liggja fyrir Alþ. til afgreiðslu. Samkv. þessu þskj. kemur í ljós, að gert er ráð fyrir, að fjárlög hækki milli ára um meira en 5 milljarða kr. eða rúmlega 5 300 millj. kr. Þetta er, eins og kom hér fram við 2. umr. málsins, miklu meiri hækkun en dæmi eru til um nokkurn tíma áður. Hv. fyrrv. stjórnarandstæðingar hafa nú oft lýst því, hvaða áhrif slík þensla í fjárlagagerðinni hafi og hvílík spegilmynd fjárlögin séu hverju sinni af efnahagsástandinu í landinu. Það segir sig sjálft, að þessi geysilega hækkun, sem hér á sér stað, á eftir að hafa mjög mikil áhrif á efnahagslíf þjóðarinnar. Þeir mættu hjá fjvn. milli umr., fulltrúar frá Efnahagsstofnuninni, og gerðu nm. grein fyrir tekjuliðunum, hvernig þeir væru byggðir upp. Það kom greinilega fram í þeim upplýsingum, sem n. fékk frá þessum mönnum, — það var sérstaklega Jón Sigurðsson frá Efnahagsstofnuninni, sem hafði þar orð, - að þær áætlanir, sem Efnahagsstofnunin leggur hér fyrir Alþ., eða þær upplýsingar og till., sem koma frá henni varðandi byggingu tekjuhliðar fjárlaga fyrir árið 1972, er að þeirra dómi algerlega í lágmarki. Mér skildist, og ég gat ekki fengið annað út úr þeim upplýsingum, sem komu, að það mætti miklu frekar búast við, að tekjurnar yrðu mun meiri en eru hér í till. meiri hl. fjvn. Og þetta byggðu þeir á því, að áhrifin af kauphækkuninni og einnig áhrifin, sem hljóta að verða af svona geysilegri hækkun fjárlaga, mundu segja til sín, þegar kemur fram á árið 1972. Það er því augljóst mál, að með þessum fjárlögum er stefnt inn í meiri óðaverðbólgu en átt hefur sér stað um langan tíma.

Það kom líka fram í upplýsingum frá Efnahagsstofnuninni, að þeir reiknuðu með því, að það ástand, sem skapaðist nú í efnahagsmálum, mundi leiða til þess, að mjög gengi á okkar gjaldeyrisvarasjóð allt næsta ár og hann mundi fara minnkandi eftir því, sem kæmi fram á árið, nema einhverjar alveg sérstakar ráðstafanir væru gerðar til þess að gripa inn í þá þróun.

En allt þetta bendir til þess, að við Íslendingar séum nú staddir í meiri vanda í sambandi við efnahagsmál þjóðarinnar en um langan tíma hefur átt sér stað. Sú aðvörun er því fullkomlega á rökum reist, sem kom hér frá stjórnarandstæðingum, frá minni hl. fjvn. við 2. umr. málsins, að hyggilegra hefði verið að kanna betur þau mál. sem hér liggja fyrir nú og eru svo til ekkert rannsökuð í þn., áður en endanlega væri gengið frá afgreiðslu fjárlagafrv. Ef það er rétt, sem fulltrúi Efnahagsstofnunarinnar vildi halda fram, að það mætti e.t.v. gera ráð fyrir því, að tekjur ríkissjóðs yrðu miklu meiri samkv. þessum tekjustofnum, sem gert er ráð fyrir, að Alþ. samþykki að loknu þinghléi nú eftir hátíðarnar, þá segir það sig sjálft, að þetta getur haft í för með sér enn þá meira öngþveiti í efnahagsmálum en frv., sem nú liggur fyrir og gert er ráð fyrir að samþykkja, gefur tilefni til. Og þetta er það, sem ég álít, að sé eitt það alvarlegasta í þessum málum, og að full ástæða hefði verið til þess að gera sér betur grein fyrir tekjustofnunum, hverju þeir raunverulega muni skila í ríkissjóð, áður en því er slegið föstu, að þeir skuli vera nákvæmlega eins og gengið er út frá í dag og fjárlögin verði afgreidd samkv. slíkum áætlunum, sem samkv. upplýsingum færustu manna eru í algeru lágmarki miðað við það, sem vænta megi í þessum efnum á næsta ári. Ég álít, að þessar niðurstöður séu svo alvarlegar og eigi eftir að hafa svo stórkostleg áhrif á efnahagsmál þjóðarinnar á næsta ári, að full ástæða hefði vissulega verið til að fresta afgreiðslu fjárlagafrv., á meðan kannaðir væru betur þessir tekjustofnar, sem nú liggja fyrir til afgreiðslu hér í hv. Alþ.

Ég ætla ekki að fara að endurtaka ýmislegt frá síðustu umr., sem þó hefði verið tilefni til að gera við þessa umr., vegna þess að það var rætt um ýmislegt, sem ekki lá fyllilega ljóst fyrir, en ef við lítum bara á þessa einstöku þætti, sem nú liggja fyrir till. um frá meiri hl. um tekjustofnana, þá sjáum víð, að gert er ráð fyrir, að tekjuskattur einstaklinga og félaga verði nú 3 127 millj. kr. í stað þess, að í yfirstandandi fjárlögum er aðeins um að ræða 963 millj. kr. Það er því um þreföldun að ræða á þessum lið frá því sem er í yfirstandandi fjárlögum fyrir árið 1971. Það má öllum ljóst vera, hvað hér er um gagngera byltingu að ræða í þessum efnum, að ætla sér að þrefalda á einu einasta ári tekjur í ríkissjóð af tekjusköttum einstaklinga og félaga. Af einstaklingum er gert ráð fyrir að taka 2 677 millj. og af félögum 450 millj., eða samtals 3 127 millj. í stað 963 millj. samkv. gildandi fjárlögum. Hér er því, eins og ég segi, um byltingu að ræða í þessum efnum, og það hlýtur að segja til sín hjá gjaldendunum. Þeir finna fyrir því, þegar til þess kemur, að gengið verður frá álagningu á komandi vori. Og ef það skyldi svo reynast rétt, sem mér skildist á Jóni Sigurðssyni frá Efnahagsstofnuninni, að þessir tekjustofnar í frv. væru í algeru lágmarki, við skyldum segja, að það ætti eftir að koma í ljós, að þarna ættu kannske að koma til viðbótar allt að 1 000 millj. kr., — um það getur maður ekkert sagt í dag, þáð hefur engin nákvæm könnun átt sér stað varðandi tekjuöflunarfrv., sem hér liggja fyrir Alþ., — þá sjáum við öll, um hvaða byltingu hér væri að ræða í þessum málum, ef það væri kannske um fjórföldun að ræða á tekjuskatti af einstaklingum og félögum á einu einasta ári. Þá er það augljóst mál, að með þessu frv. er siglt út í slíka óðaverðbólgu, að ekki verður séð fyrir endann á því, hvernig á að tryggja áframhaldandi gang atvinnutækjanna í landinu. Það segir sig sjálft, hvað sem út úr hinni nýju gengisskráningu kemur. — Það veltur auðvitað á miklu, hver afstaða verður tekin til atvinnuveganna við skráningu íslenzku krónunnar miðað við það, sem nú er að gerast í þeim efnum, — en ef verðbólgan veltur áfram með jafnmiklum þunga og allt virðist benda til með slíkri fjárlagagerð, sem hér á sér stað, þá segir það sig sjálft, að það verður ekki langt komið fram á árið 1972, þegar fer að þyngjast róðurinn hjá atvinnuvegum þjóðarinnar. Þetta er það, sem ég tel fullvíst, að það verði ekki liðið langt fram á árið 1972, þegar þetta fer að koma í ljós.

Það er gert ráð fyrir því, að söluskatturinn hækki, þó að þar sé ekki um neinar lagabreytingar að ræða, um rúmlega í 100 millj. kr. frá því, sem var gert ráð fyrir í yfirstandandi fjárlögum, og svipaða upphæð er um að ræða varðandi aðflutningsgjöldin, en þar nemur hækkunin í 114 millj. kr. Allt eru þetta tölur, sem benda á nýja útþenslu í efnahagslífi okkar. Og það er vissulega full ástæða til þess fyrir Alþ. að gera sér grein fyrir því, hvaða stefnu verið er að marka í efnahagsmálum þjóðarinnar, ef fjárlög fyrir árið 1972 verða afgreidd samkv. þeim till., sem nú liggja fyrir frá meiri hl. fjvn.