11.04.1972
Sameinað þing: 55. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1265 í D-deild Alþingistíðinda. (5056)

186. mál, almannavarnir

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Fsp. þær, sem hér eru til umr., voru fram bornar af hv. 1. varamanni landsk. þm. SF, Halldóri S. Magnússyni, er hann sat hér á þingi fyrr í vetur. Fsp. eru til hæstv. dómsmrh. á þskj. 353, og eru þær svo hljóðandi:

„1. Á hvaða stöðum hafa verið stofnaðar almannavarnanefndir samkv. 8. gr. laga nr. 94/1962, um almannavarnir?

2. Eru til á einum stað upplýsingar um starfsemi almannavarnanefnda og yfirlit yfir þær ráðstafanir, sem þær hafa gert samkv. 9. gr. laga nr. 94/1962, um almannavarnir?

3. Eru uppi af hendi dómsmrn. einhver áform um að efla almannavarnir?

4. Er sú skipan heppileg til frambúðar, að starfi forstöðumanns almannavarna sé gegnt af embættismanni í fullu starfi við önnur verkefni?“

Ástæður fyrir því, að þessar fsp. eru hér fram bornar, eru fyrst og fremst þær, að ýmislegt hefur verið rætt og ritað á þessum vetri, sem gefur tilefni til þess að álíta, að starfsemi almannavarna sé ekki sinnt sem skyldi. Sem dæmi vil ég leyfa mér að nefna skýrslu Hjálparsveitar skáta í Reykjavík um starfsemi sveitarinnar árið 1971, þar sem rakin eru samskipti sveitarinnar við almannavarnir. Í þessari skýrslu segir svo m.a., með leyfi forseta:

„Það blandast fáum hugur um það, að ef virkilega kæmi til kasta almannavarnanna, þá yrðu allar aðgerðir óskipulagðar og handahófskenndar, ef þær yrðu þá nokkrar. Hér á þessu þingi hefur verið dreift skýrslu, sem samin var af Bandaríkjamanni, sem Perry nefnist, en hann dvaldi hér á landi um fimm mánaða skeið á fyrri hluta s.l. árs á vegum Sameinuðu þjóðanna til þess að aðstoða við að byggja upp almannavarnakerfi. Sú skýrsla gefur vissulega tilefni til íhugunar um það, hvernig staðið er að almannavörnum hér á landi.“

Fsp. þessar eru fram bornar til hæstv. dómsmrh., og það er von mín, að fsp. og svör við þeim veki hv. alþm. til umhugsunar um þennan þátt öryggismála íslenzku þjóðarinnar.