07.03.1972
Efri deild: 51. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1038 í B-deild Alþingistíðinda. (642)

133. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. meiri hl. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Frv. til I. um tekjustofna sveitarfélaga hefur nú um alllangt skeið verið til athugunar hjá heilbr.- og félmn. hv. þd. og jafnvel svo lengi að sumir hafa talið ámælisvert og til verulegs óhagræðis fyrir sveitarfélög og aðra, sem við skattamál fást, beint eða óbeint. Má sjálfsagt til sanns vegar færa, að hér hefði mátt hafa meiri hraða á afgreiðslu. En rétt er þá líka að hafa í huga, að ekki hefði miklu síður sætt gagnrýni og aðfinnslum, ef svo viðamikil mál hefðu verið afgreidd með óeðlilegum hraða og mönnum ekki gefizt tóm til að gaumgæfa þau. Verulega hefur og hér um valdið, að það frv., sem hér liggur fyrir, er aðeins hluti af heildarbreytingum á öllu skattkerfinu og því útilokað að afgreiða það öðruvísi en með fullri hliðsjón af meðferð frv. um tekju- og eignarskatt, sem lagt var fram hér á hv. Alþ. samtímis og hefur jafnlengi verið til afgreiðslu í hv. fjhn. Nd. En seinlætið í afgreiðslu ætti þó, hvað sem öðru líður, að leiða til þess, að allir, sem hlut eiga að mali, hafi haft ærinn tíma til rannsókna og mats á málinu, og er það vissulega meira en oft hefur verið hægt að segja um afgreiðslu stórmála hér á hv. Alþingi.

Eins og margoft hefur komið fram og augljóst er, er þetta frv. um tekjustofna sveitarfélaga aðeins hluti mikilsverðra breytinga á skattkerfinu í landinu og verður ekki réttilega metið nema í samhengi við þær allar samanlagðar. Jafnframt verður að hafa í huga, að þær breytingar hefur þótt nauðsynlegt að gera, þótt heildarendurskoðun skattalaga sé enn í miðjum klíðum og verði ekki lokið fyrr en í fyrsta lagi á næsta Alþ. Af því leiðir aftur, að ýmis ákvæði, sem nú er lagt til að sett séu, kunna að breytast við frekari athugun og endurskoðun, þótt líklegt megi telja, að í meginatriðum falli breytingarnar nú í sömu átt og hinar endanlegu, þegar heildarendurskoðun þeirri, sem núverandi stjórnarflokkar vinna að, er lokið.

Við myndun núverandi hæstv. ríkisstj. var sú stefnumörkun m.a. mótuð að endurskoða tekjuöflunarleiðir hins opinbera með það fyrir augum, að skattbyrðinni verði dreift réttlátlegar en nú er gert. Slík endurskoðun haldist í hendur við endurskoðun tryggingalöggjafar í því skyni, að öllum þjóðfélagsþegnum verði tryggðar lífvænlegar lágmarkstekjur. Tekjur, sem einungis hrökkva fyrir brýnustu lífsnauðsynjum, verði ekki skattlagðar. Skattaeftirlit verði hert, þannig að réttlát skattframkvæmd verði tryggð betur en nú er gert. Stefnt verði að því, að persónuskattar, eins og til almannatrygginga, verði felldir niður, en teknanna verði aflað með öðrum hætti. Jafnframt verði gerð ítarleg athugun á rekstrarkostnaði ríkissjóðs og ríkisfyrirtækja í þeim tilgangi að gera reksturinn einfaldari og draga úr kostnaði, en svo segir orðrétt í málefnasamningi núverandi ríkisstjórnarflokka frá 14. júlí s.l.

Ég hygg, að ekki fari milli mála, að með þeim breytingum á lögum um almannatryggingar, sem samþykktar voru hér á Alþ. nú fyrir hátíðir, með fyrirhugaðri löggjöf um tekju- og eignarskatt og með ákvæðum þessa frv. sé stigið verulegt spor í þá átt, sem stjórnarsáttmálinn gaf fyrirheit um. og er þó fjarri mér að halda því fram að hann sé með þessum aðgerðum fullefndur, svo að ekki þurfi til frekari breytinga að koma. Tryggingakerfið þarf enn að bæta, þótt vel hafi þegar verið að því unnið. Lágar þurftartekjur og jafnvel lægri eru enn skattlagðar samkv. framlögðum frv., þótt í stórfellt minni mæli sé en áður, og frv. fela ekki í sér teljandi breytingar á skatteftirliti eða því tengdum aðgerðum og engin gagngerð endurskoðun hefur enn farið fram á útgjöldum hins opinhera í þá átt að einfalda og spara, en útgjöldin eru að sjálfsögðu mikilvægasti þátturinn, sem stýrir tekjuöfluninni. En eins og ég sagði, engu að síður eru nú stór skref stigin í rétta átt og þá alveg sérstaklega þá að létta skattbyrði hinna tekjulægstu. Vegur þar mest sú grundvallarbreyting, að nefskattar til lífeyristrygginga og sjúkrasamlaga eru með öllu niður felldir. en öllum er tvímælalaust ljóst, að slík skattheimta er öllum öðrum hugsanlegum aðferðum óhagstæðari þeim. sem búa við lágar tekjur eða eru jafnvel alveg tekjulausir. Slík skattheimta tekur ekkert tillit til efnahags eða tekna og bitnar því harkalegast á þeim. sem minnst mega sin. Svo stórfelld sem þessi skattheimta hefur verið og hefði þó enn frekar orðið eftir þær breytingar, sem gerðar hafa verið til hækkunar á bótum almannatrygginga, er hér því um mjög stórfellt hagsmunamál lágtekjufólks að ræða og baráttumál, sem nú er farsællega til lykta leitt. Hitt er svo engu síður ljóst, að afla þarf þess fjár, sem hér um ræðir, með öðrum hætti, fyrst og fremst með stighækkandi tekjuskatti til ríkisins og e.t.v. að einhverju gegnum óheina skatta. En alla vega verður slíkt stórum léttbærara fyrir þá tekjulágu.

Í þessu sambandi vil ég líkja vekja athygli á því, að núv. stjórnarflokkar eða ríkisstj. hefur aldrei gefið nein fyrirheit um það að heildarskattbyrðar yrðu léttar, allra sízt í bráð, heldur aðeins að byrðunum yrði jafnað niður á annan og réttlátari veg en áður, og raunar er auðsætt. að endurbætur tryggingakerfisins og framfara- og framkvæmdastefna á ýmsum öðrum sviðum mun ekki leiða til minnkaðrar heildarskattheimtu til ríkisþarfa og hins opinbera almennt, heldur fremur til nokkurrar aukningar. Núv. stjórnarflokkar kunna ekki til þess ráð, enda munu þau torfundin, að gera hvort tveggja í senn, að bæta um almannatryggingar í þeim mæli að nemi yfir í milljarði í ársútgjöldum þeirra og auka framlag til margvíslegra þjóðþrifamála á fjárlögum og standa einnig við gamlar og nýjar skuldbindingar hins opinbera nm útgjöld og létta jafnframt heildarskattbyrði skattborgaranna.

Hér er auðvitað um að ræða einn höfuðvanda hverrar ríkisstj. og þeirra flokka, sem ríkisstj. styðja, að samræma þá félagslegu og þjóðfélagslegu vinninga, sem sótzt er eftir að ná með auknum útgjöldum samfara aukinni skattheimtu, og hins vegar gjaldgetu skattþegnanna og þá nauðsyn að ofgera þeim ekki. Það mat, sem hér um ræðir, er sjálfsagt alltaf harla umdeilanlegt, en menn verða þá líka að vita, hverju þeir vilja sleppa af ávinningnum um leið og þeir snúast öndverðir gegn þeirri nauðsyn tekjuöflunar, sem af þeim leiðir. En á þetta vill stundum skorta, þegar bíræfnir stjórnarandstæðingar leita hvers færis til að rífa niður það, sem unnt er að byggja upp af þeim, sem ábyrgðina bera, og höfum við ekki farið varhluta af þessu í umr. um þessi mál að undanförnu.

Ef við nú í bili a.m.k. gefum okkur hins vegar þá forsendu, að menn væru í aðalatriðum sammála um tekjuþarfir hins opinbera, kemur næst til álita, hvernig þeim skuli fullnægt, hvernig byrðunum sé niður jafnað. Er þá ekki óeðlilegt, að leitað sé samanhurðar í þeim efnum annars vegar á því skattkerfi, sem við hefðum búið við að óbreyttum lögum, og hins vegar því, sem nú eru uppi ætlanir um að lögfesta. Slíkur samanburður liggur nú fyrir, svo að tæpast verður umdeildur, a.m.k. hvað meginatriðin snertir. Kemur þar í ljós, að ekki er um umtalsverðan mun hvað heildarbyrðarnar snertir, ef borin eru saman gildandi lög og reglur og hins vegar framlögð frv. Berast þó mjög böndin að því, að heildarskattbyrði beinna skatta, bæði á einstaklingum og fyrirtækjum. sé ívið léttbærari samkv. hinu nýja kerfi heldur en því, sem gilt hefur, og á hinn bóginn, að bæði kerfin hefðu leitt til nokkurrar þyngingar heildarbyrði milli ára. Í þriðja lagi sýnir samanburðurinn, að skattbyrðar léttast á einstaklingum með tekjur að vissum mörkum, en þyngjast hins vegar á þeim. sem fara yfir viss tekjumörk.

Þessi samanburður sýnir að mínu víti fyrst og fremst þrennt: Í fyrsta lagi, að núv. stjórnarflokkum var það engin nauðsyn að gera neina skattkerfisbreytingu til þess að fjárþörf ríkisins yrði fullnægt. Það kerfi hefði fært a.m.k. jafnmiklar tekjur og frv., eins og þau voru upphaflega fram lögð, mundu hafa gert. Í öðru lagi, að með fyrirhuguðum breytingum á frv. verður heildarskattbyrði beinna skatta verulega minni en verið hefði eftir eldra kerfi. Og í þriðja lagi verður hún því léttari miðað við eldra kerfi sem tekjurnar eru lægri.

Vil ég nú víkja nokkru nánar að þessum atriðum og þá fyrst að heildarskattbyrðinni samkv. eldra og nýju kerfl. Ég hef hér fyrir framan mig yfirlit yfir áætlaðar innheimtutölur 1972 samkv. eldra skattkerfi og nýju og er það gert af hagrannsóknadeild Framkvæmdastofnunarinnar eða öllu heldur af hagrannsóknastjóra. Niðurstöður yfirlitsins eru þær, að heildarskattar, þ.e. beinir skattar einstaklinga, hefðu orðið á bilinu frá 5 milljörðum 915 millj. kr. til 5 milljarða 993 millj. kr. samkv. eldra kerfinu, en yrðu 5 milljarðar 827 millj. til 5 milljarða 876 millj. kr. samkv. framlögðum frv., þ.e. ívið minna eftir nýja kerfinu. En bilið, sem hér kemur fram, stafar hins vegar af ofurlitið breytilegum forsendum um beitingu ákvæða laganna. Um þennan samanburð segir síðan í athugasemd hagrannsóknastjóra, að meginniðurstaðan virðist vera sú, að í heild sé ekki um neina umtalsverða breytingu skattbyrðar að ræða með hinu nýja kerfi. Í þessum samanburði er ekki tekið tillit til endurdreifingar skattbyrðar innan hóps einstaklinga og breyttrar tekjuskiptingar milli ríkis og sveitarfélaga, sem frv. fela í sér. Einnig er gert ráð fyrir, að skattalækkun samkv. lögum frá s.l. vori hefði ekki komið til framkvæmda eða að nýir skattar hefðu þurft að koma í staðinn fyrir þær breytingar.

Fyrirhugaðar breytingar á framlögðum frv. á skattþrepum svo og aukning á sjómannafrádrætti munu leiða til lækkunar á beinni heildarskattbyrði um nálægt 270 millj. kr. a.m.k., en til frádráttar kemur þar hækkun eignarskatta, þannig að heildarlækkun verður rösklega 200 millj. kr., miðað við þær breytingar, sem nú eru fyrirhugaðar. Þessar breytingar ásamt þeim, sem gert er ráð fyrir á því frv., sem hér er til umr., munu og hafa yfirleitt mjög verulegar breytingar til lækkunar á gjöldum lágra og miðlungstekna. Nefni ég sérstaklega, að samkv. öruggum útreikningum mundu frv., eins og þau eru, þyngja samanlögð tekjuútsvör og tekjuskatta fólks á tekjubilinu frá 200 til 600 þús. kr. um að meðaltali nálægt 10 þús. kr. á framteljanda á móti niðurfellingu persónuiðgjalda, en þyngingin fyrir þessi tekjubil mundi hins vegar að meðaltali aðeins nema 2 500 kr., ef miðað er við þessar brtt., sem nú liggja fyrir. Er því vinningur þeirra, sem búa við slíkar tekjur, alveg ótvíræður miðað við fyrri skipan. En hafa verður í huga, að hér er um meðaltölu að ræða, og þýðir þetta þess vegna ekki, að þau tekjumörk, sem skipta sköpum um hækkun eða lækkun skattbyrði, séu hin sömu í hverju einasta tilviki. En meðaltölin segja hér þó skýra sögu um meginatriði samanburðarins, þ.e.a.s. þá, að þegar á heildina er litið er hér um að ræða mjög verulega lækkun skatta á lágar og miðlungstekjur frá því, sem orðið hefði samkv. eldra kerfi.

Með því frv., sem hér er til umr., er verulegt spor stigið í þá átt að einfalda samskipti ríkis og sveitarfélaga, með því að ríkið tekur nú að mestu að sér hina félagslegu þætti skattlagningar. Framlög sveitarfélaga til almannatrygginga falla niður með öllu og til sjúkratrygginga að hálfu, enn fremur allur löggæzlukostnaður. Tekjuþarfir sveitarfélaganna minnka að sjálfsögðu að sama skapi. Þá eru sveitarfélögunum tryggðir tekjustofnar, sem í miklu minni mæli en áður eru háðir hagsveiflum og eru því jafntryggari en þeir, sem áður giltu. Ríkið tekur og í sínar hendur alla stighækkandi skatta eftir tekjum og fer því eitt og alfarið með þann þátt skattamálanna, sem að því lýtur að beita sköttum sem auð- og tekjujöfnunartækjum. Þetta er tvímælalaust rétt stefna, a.m.k. að mínu viti, þar sem sú pólitíska ábyrgð, sem þessu fylgir, er fyrst og fremst ríkisstjórnar og löggjafarvalds.

Um framangreinda meginstefnu frv. eru þó tæpast mjög miklar deilur og þess vegna ekki ástæða til þess að fjölyrða um hana að sinni. Á hinn bóginn hefur verið mjög haldið uppi gagnrýni á frv., ekki vegna meginstefnumörkunar, sem það felur í sér, eins og hér kom fram m.a. við I. umr. frv., heldur fyrir það, að tekjuöflunarmöguleikum sveitarfélaganna sé þar allt of þröngur stakkur skorinn í ýmsum tilvikum miðað við framkvæmdaþarfir þeirra, og er því jafnvel haldið fram, að ríkið sé að bæta sér upp sinn hlut á kostnað sveitarfélaganna, en því fer mjög fjarri, eins og ég hef reyndar áður að nokkru leyti rakið. Hið rétta er, að við undirbúning frv. var gengið út frá því sem meginforsendu, að sveitarfélögin í heild næðu samsvarandi tekjum og samkv. eldra kerfi, miðað við þær útgjaldalækkanir, sem ríkið tryggir þeim nú. Þessi heildarupphæð, sem gengið var út fra, mun hafa numið hátt í 3 milljarða króna. Til að ná þessari heildarupphæð var ekki gert ráð fyrir neins konar beitingu heimildarákvæða, svo sem varðandi fasteignaskatt, né heldur var gert ráð fyrir álagi á skráð fasteignamat, eins og ráð er fyrir gert í lögum og mun hækka tekjur af honum allverulega frá því, sem áætlanir hafa verið gerðar um, og skapar þetta að sjálfsögðu nokkurt svigrúm. En þótt unnt sé að ná heildarupphæðinni sjálfri, er það rétt, að þar með er ekki fyllilega sannað, að endar nái viðunanlega saman hjá hverju einasta sveitarfélagi eða með sama hætti og samkv. gildandi lögum. Þetta á auðvitað sérstaklega og raunar eingöngu við þau sveitarfélög, sem höfðu áður mikla sérstöðu um mikla tekjuöflun. — sérstöðu sem oft og tíðum mótaðist af sérstökum ölduföldum hagstæðs árferðis, sérstaklega til sjávarins, — tekjur, sem mjög eru misjafnar frá ári til árs og þess vegna í fæstum tilvikum mögulegt að reikna með sem föstum og öruggum. Að einhverju leyti á þetta einnig við um höfuðborgina, sem telja verður að hafi sérstaklega hagstæðar aðstæður til tekjuöflunar af augljósum og alkunnum ástæðum.

Í grg. frv. og ákvæðum í því til bráðabirgða er sú staðreynd, að nokkur, en tiltölulega mjög fá, sveitarfélög kunna að standa höllum fæti við hina nýju skipan. Er því gert ráð fyrir þeim möguleika, að þeim verði bættur halli af þessu tagi, ef brýna nauðsyn ber til, enda hafi þau áður notað hækkunarheimildir sínar á fasteignaskatti. Með brtt. frá heilbr.- og félmn. er verulega komið til móts við sjónarmið Sambands ísl. sveitarfélaga hvað svigrúm til tekjuöflunar áhrærir, en þar er gert ráð fyrir, að auk heimildar til hækkunar fasteignagjalda komi heimild til hækkunar útsvara um allt að 10%, ef álögð útsvör samkv. aðalreglu hrökkva ekki fyrir útgjöldum. En til slíks álags þarf þó samþykki ráðh. Þessi ákvæði felast í brtt. frá heilbr.- og félmn. við 25. gr. frv.

Með brtt. heilbr.- og félmn. við 28. gr. er lögð til mjög mikilsverð breyting frá frv. Það er, að í stað lækkunar á útsvörum þeirra, sem hafa lægri tekjur en 450 þús., um 0.2% fyrir hvern tug þúsunda sem tekjurnar eru fyrir neðan þau mörk, skuli koma sérstakur frádráttur á sjálft útsvarið, persónufrádráttur 7000 kr. fyrir hjón, 5 000 kr. fyrir einstakling og 1 000 kr. fyrir hvert barn. Að athuguðu máli hefur þetta þótt heppilegri skipan en sú, sem lögð er til í frv., en hún hafði vafalausa ókosti, m.a. þann. að sömu tekjubil hjá hinum ýmsu útsvarsgreiðendum gátu verið skattlögð með misjöfnum hætti og á vissum tekjubilum gat verið um að ræða óeðlilega mikla skattlagningu.

Kostur ákvæða frv. var hins vegar sá, að tekjulágt fólk kom tiltölulega vel út úr þessu fyrirkomulagi og raunar svo vel, að sú skipan, sem hér er lögð til, jafnar ekki að fullu og öllu metin í hverju einasta tilfelli, sérstaklega hjá einhleypum og barnlausum hjónum á vissu tekjubili, og verður ívið meiri í stöku tilfellum með þessum nýja hætti. En fram hjá þessum annmarka varð ekki komizt nema hafa persónufrádráttinn það háan, að tekjuöfluninni varð talsverð hætta búin, eða með beinni hækkun á aðalálagningarreglunni, 10 af 100, en það taldist heldur óæskilegt, nema þá að brýna nauðsyn bæri til.

Eins og gefur að skilja, kemur persónufrádráttur öllum útsvarsgreiðendum til góða og lækkar hina raunverulegu prósentálagningu þeirra, hvaða tekjur sem þeir hafa, mest hinna tekjulægstu, en minnkandi eftir tekjuhæð. Heildarálagning allra sveitarfélaganna lækkar vegna breytinganna um eitthvað nálægt 190 millj. kr. við brtt., ef reiknað er með 10% álagningarreglunni. Á móti þessari lækkun kemur að verulegu leyti til jöfnunar sú hækkun á aðstöðugjöldum, sem lögð er til með brtt. meiri hl. heilbr.- og félmn. við ákvæði til bráðabirgða og við 1. gr. frv., þ.e.a.s. að leyfð álagning þeirra verði 65% af álagningu fyrra árs í stað 50%, sem frv. gerir ráð fyrir. Tekjuhækkun samkv. þessari till. gæti orðið nálægt 100 millj. kr., ef heimildin yrði almennt notuð, svo sem gera verður ráð fyrir.

Fjárhagsleg afleiðing fyrir sveitarfélögin af þessum tveim breytingum, að persónufrádráttur í útsvari er tekinn upp og aðstöðugjöld hækkuð, er því sú, að tekjurnar verða um það bil 90 millj. kr. minni í heild, ef ekki er um notkun hækkunarheimildar á útsvarinu sjálfu að ræða. En þessi tekjurýrnun svarar til innan við 1/3,% í álagningu útsvars. Á móti þessari lækkun, ef miðað er við 10% regluna, kemur svo að auki svigrúm, eins og áður hefur verið minnzt á, samkv. heimildunum í allt að 1% til viðbótar því, sem áður fólst í frv., og að sjálfsögðu allt að 50% hækkun fasteignagjaldanna. Enn fremur tel ég, að taka megi inn í þetta dæmi þá tekjuaukningu, sem vafalaust verður vegna álags á fasteignamatið, sem ég hef áður minnzt á, þó að ekki sé enn með vissu vitað, hversu mikil sú upphæð verður, en trúlegt þætti mér, að þar væri um að ræða hækkun á fasteignamati einhvers staðar á milli 10 og 20%, og verð ég að segja, að um minna dregur upp í þann áhalla, sem þarna verður á. Enn er svo þess að gæta, að nýjustu athuganir á tekjuaukningu á milli áranna 1970 og 1971 virðast benda til þess, að hún verði allmiklu meiri en það 21%, sem hefur verið gert ráð fyrir í öllum áætlunum, og er ekki fjarri að álykta, að þar geti verið um að ræða 2% eða jafnvel meira en 2% mun, sem kæmi þá einnig sveitarfélögunum til góða. Ef þetta hvort tveggja er tekið með inn í dæmið, þá ætti útkoman að verða mjög svipuð og upphaflega var gert ráð fyrir. Mér sýnist, að t.d. 2% tekjuaukning umfram það, sem gert er ráð fyrir, mundi þýða fyrir öll sveitarfélögin milli 60 og 70 millj. kr. og 10% aukning á fasteignaskattinum yrði milli 30 og 40 millj. kr., þannig að þar er komin hærri upphæð en það, sem út af stendur vegna þeirra breytinga, sem ég hef áður gert grein fyrir.

Þegar á þetta er litið og einnig til ákvæða til bráðabirgða um sérstök aukaframlög til þeirra sveitarfélaga, þar sem svo stendur á, að akvæði þessara laga reynast þeim óhagstæðari en fyrri lög um tekjustofna sveitarfélaga, verður ekki betur séð en fyllilega forsvaranlega sé séð fyrir tekjuþörfum sveitarfélaganna samanborið við fyrri skipan og í þeim efnum ekki í neina tvísýnu teflt. Skal þó sízt úr því dregið, að framkvæmdaþarfirnar eru miklar og hraðari framkvæmdir væru undir ýmsum kringumstæðum æskilegar, en í þessu efni sem öðrum hlýtur þó að vera fulls aðhalds þörf og raunsætt mat að ráða ferðinni.

Með þessum breytingum og raunar öðrum, sem í till. meiri hl. felast, verður að telja, að verulega sé komið til móts við sjónarmið Sambands ísl. sveitarfélaga í álitsgerð þess um frv., og er þá sitthvað ótalið í þeim efnum hvað smærri atriði áhrærir, og vil ég nú víkja örlítið að þeim.

Við 5. gr. frv. er brtt. á þá lund, að niður er felld sú regla, að efna- eða tekjulitlir lífeyrisþegar þurfi að sækja sérstaklega um lækkun eða niðurfellingu fasteignaskatta, en sveitarstjórn hins vegar veitt heimild til að ákveða lækkunina eða niðurfellinguna, án þess að um slíkt sé sótt. Er þessi breyting í samræmi við óskir Sambands ísl. sveitarfélaga og virðist enda eðlileg og sjálfsögð.

Með brtt. við f-lið 8. gr. er orðið við óskum Sambands ísl. sveitarfélaga um skiptingu þeirra 2%, sem sveitarstjórnarsamtökunum er ætlað að fá af tekjum Jöfnunarsjóðs, þ.e. að 1% renni til sambandsins og 1% til landshlutasamtaka þeirra.

Á 23. gr. frv. er lagt til að gerðar verði tvær breytingar. Hin fyrri er aðeins orðalagsbreyting, en sú síðari er veruleg efnisbreyting, þar sem niður er fellt það ákvæði, sem mjög hefur verið umdeilt, að skattstofn sem brúttótekjur þeirra, sem vinna við eigin atvinnurekstur, skuli aldrei ákveðinn lægri en ætla mætti að hann hefði orðið, ef þessir aðilar hefðu unnið störf sín í annarra þágu, þ.e. þetta ákvæði er fellt niður, en þó haldið eftir sem heimild til sveitarstjórnar, ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi, eins og segir í brtt., að áætla tekjur slíkra aðila með sama hætti og gert er ráð fyrir í frv. Við nánari athugun hefur ekki þótt rétt eða sanngjarnt eða eðlilegt, að hér væri um almenna reglu að ræða, og hefði sá háttur vafalaust komið óréttilega niður á ýmsa einyrkja, t.d. bændur og smáútvegsmenn. En á hitt er líka að líta, að sumar greinar einyrkjarekstrar eru þess eðlis, að þeir hafa nánast að mestu í sjálfsvaldi, hvaða tekjur þeir telja fram, og verður þar óvefengjanlegri rannsókn naumast við komið. Þess vegna hefur þótt rétt að setja hér inn heimildarákvæði til nokkurs aðhalds fyrir slíka framteljendur sem hér um ræðir.

Með brtt. við 24. gr. er samkv. óskum sveitarstjórnarmanna aftur horfið að þeirri fyrri skipan, að sveitarstjórnir geta, ef þær óska, annazt sjálfar álagningu eða falið hana sérstakri nefnd, en í frv. er gert ráð fyrir því, að skattstjórar annist álagninguna án undantekninga.

Brtt. við 27. gr. eru leiðréttingar, en ekki efnisbreytingar.

Brtt. við 2. mgr. 28. gr. leiðir beint af því, að ráð er fyrir gert, að óbreytt haldist sú skipan, sem verið hefur, að skattstjórar annist álagningu, en sveitarstjórn geti ákveðið að annast hana sjálf.

Á brtt. við ákvæði til bráðabirgða hef ég áður minnzt, að aðstöðugjöld megi leggja á sem nemi 65% af álögðu gjaldi fyrra árs. Sveitarstjórnarmenn hafa nokkuð gagnrýnt það, að hér er aðeins um bráðabirgðaákvæði að ræða, og hafa talið nokkra hættu á því, að tekjuöflun samkv. öðrum álagningarheimildum mundi ekki duga þeim. sérstaklega þegar aðstöðugjaldið félli niður að árinu liðnu samkv. frv. Með brtt. meiri hl. heilbr.- og félmn. varðandi aðstöðugjöldin, að ákvæðin um þau séu numin úr ákvæðum til bráðabirgða og sett inn í sérstaka grein, er komið til móts við þessar skoðanir sveitarstjórnarmanna. Eðli þeirra breytinga tel ég fyrst og fremst það, að um sé að ræða tryggingu fyrir því, að við framhaldsendurskoðun skattamálanna í heild verði rækilega skoðað hvort eða hverjar nýjar tekjuöflunarleiðir þurfi til að koma, fari svo, að aðstöðugjöldin verði með öllu niður felld, eins og mótuð var stefna um með framlagningu þessa frv. Ég tel þess vegna ekki, að í þessari breytingu sé um að ræða neitt fráhvarf frá þeirri stefnu, sem í þessu efni var mótuð við upphaflega samningu og framlagningu frv., heldur tel sjálfsagt að áfram verði unnið að því að fella þessi gjöld niður, þegar sæmileg lausn finnst á því. hvar annars staðar þarf að bæta um í tekjuöfluninni í staðinn. Á yfirstandandi ári fæst líka reynsla af hinni nýju skipan í heild sinni, og standa menn þá að sjálfsögðu á raunhæfari grunni en nú að meta, hvort hér er um verulegt vandamál að ræða og hverjar lausnir þar koma þá helzt til greina.

Um aðrar brtt. meiri hl. heilbr.- og félmn. tel ég ekki ástæðu til að fjölyrða. Þær eru þess eðlis, að þær eru öllum auðskildar, sem lesa þær, og þó að sumar þeirra séu allveigamiklar, þá geri ég þær ekki að sérstöku umtalsefni að sinni.

En varðandi brtt. meiri hl. n. er því svo við að bæta, að n. hafa borizt umsagnir um frv. frá allmörgum aðilum, — umsagnir, sem fela í sér ýmislegar ábendingar og kröfur. Ýmsar þeirra eru allrar athygli verðar að mínum dómi, þótt ekki hafi að þessu sinni reynzt unnt að leggja til, að þær yrðu lögfestar nema að litlu leyti. Vel má þó vera, að þar sé um sitthvað að ræða, sem að hæfilegri athugun lokinni yrði tekið til greina og eftirbreytni. Enn er þess svo að geta, að við gerð brtt. meiri hl. heilbr.- og félmn. hefur verið höfð hliðsjón af fyrirhuguðum breytingum á frv. um tekju- og eignarskatt, sem samtímis hefur verið til afgreiðslu og athugunar í fjhn. beggja þingdeilda.

Í heild eru þær breytingar, sem fyrirhugaðar eru á þessum tveim frv., talsvert veigamiklar, eins og ég hef áður sagt, og miða þær, auk smærri leiðréttinga, fyrst og fremst að því að létta enn frekar en frv. gerir ráð fyrir, skattbyrði þeirra, sem búa við lágar tekjur og miðlungstekjur. Eftir breytingarnar hafa mörkin milli þeirrar tekjuhæðar gjaldenda, sem fá byrðar sínar lækkaðar, og hinna, sem á þyngist í heild, færzt verulega upp á við, svo að nú verður naumast lengur um það deilt, að mjög umtalsverðar lækkanir verða að breytingunum gerðum. ekki aðeins á lágum tekjum, heldur og á miðlungstekjum eða jafnvel ríflega það, frá því, sem orðið hefði samkv. eldri löggjöf. Þeirri meginstefnu frv. að jafna byrðunum réttlátlegar en áður var er því í aðalatriðum fylgt enn fastar eftir með þeim brtt., sem lagt er til að gerðar verði, en áður var.

Ég þarf naumast fram að taka, að meiri hl. heilbr.- og félmn. leggur eindregið til, að frv. verði samþykkt með þeim breytingum, sem hann flytur á sérstöku þingskjali.