07.03.1972
Efri deild: 51. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1086 í B-deild Alþingistíðinda. (652)

133. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Vegna þess að sitthvað úr minni ræðu hefur komið hér inn í þessar umr„ þá þykir mér rétt að gera hér aðeins stutta aths. Hún er raunar óþörf, ef málið er skoðað nánar, en ég vil undirstrika það, að það hefur alltaf verið skoðun mín, síðan ég fór að fást við sveitarstjórnarmál fyrir nokkuð mörgum árum og síðan ég kom í samtök sveitarfélaga og fór að starfa í þeim samtökum og með stjórnendum þeirra mála, að þar væri réttur vettvangur fyrir bein afskipti af sveitarstjórnarmálum almennt. Þessi skoðun mín hefur ekki breytzt. Hún breyttist ekki, þó að ég tæki sæti í þessari stjórnskipuðu nefnd. Og ég vil undirstrika það, að það var mér mjög mikið fagnaðarefni á fyrsta fundi þessarar nefndar, þegar það lá fyrir, að hæstv. félmrh. hafði gefið nefndinni þau fyrirmæli að hafa bein samskipti við stjórn Sambands ísl. sveitarfelaga um það verkefni, sem nefndinni var falið. Og ég vil undirstrika það, að þessi fyrirmæli hæstv. ráðh. notaði nefndin og gerði það, sem í hennar valdi stóð, til þess að ná sem beztum samskiptum við stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga um meðferð þessara mála í heild. Og út af ræðu hv. 6. þm. Reykv., sem talaði hér áðan og virtist vera með einhverja dagbók um þessi samskipti stjórnar sambandsins við þessa umtöluðu nefnd, þá vil ég einmitt undirstrika það, að þessi samskipti fóru mjög formlega fram og í alla staði í fullri vinsemd frá fyrsta degi til hins síðasta. Og þessu til sönnunar vil ég benda á, að ég hef hér ljósrit af bréfi, sem sambandsstjórn skrifaði nefndinni 5. okt. 1971 og er umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga um hugmyndir og till. um fasteignaskatt o.fl. Þar eru lögð fram mjög greinargóð rök fyrir fasteignasköttuninni og þeim samþykktum, sem gerðar höfðu verið í þessu máli á vegum sveitarfélaga, bæði landsþinga og fulltrúaráðsfunda, og nefndinni gerð alveg hreinskilnislega grein fyrir afstöðu sveitarstjórna í landinu til þessa mikilvæga þáttar þessa máls. Þar eru lagðar fram ákveðnar till., sem eru í samræmi við óskir sveitarstjórna í landinu, og nefndin tók þessar till. fyllilega til greina og raunverulega eru þær kjarni þess, sem nefndin lagði til í sambandi við þáttinn um fasteignaskattinn. Og í lok þessa bréfs stendur orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga mun væntanlega láta endurskoðunarnefndinni í té fyrir 15. þ. m. [þ.e. 15. okt.] tillögur um breytingar á lagaákvæðum um aðra tekjustofna sveitarfélaga en fasteignaskatt.“

Undirritað af formanni sambandsins og framkvæmdastjóra. Þetta sýnir svart á hvítu, að það var ekkert vafamál. að stjórn sambandsins gerði sér fyllilega grein fyrir því, að þessi umtalaða nefnd vildi hafa einlæg og góð samskipti við samtökin um meðferð þessara mála, og þannig var það einmitt til loka þessa verkefnis. Ég ætla ekki að deila um það, hvort það hefði verið heppilegra, að sambandið hefði haft beina aðild að þessari nefnd. Það er ekki mitt verksvið að gera það. Ég vil aðeins undirstrika það hér, til þess að það valdi ekki neinum misskilningi, að sú er ekki mín skoðun á einn eða neinn hátt, að það eigi að draga úr áhrifum samtaka sveitarfélaga í landinu á þennan hátt. En fyrst ég er kominn hér, þá vil ég aðeins undirstrika eitt lítið atriði, sem ég gleymdi í minni tölu hér í kvöld, og það var að lýsa sérstakri ánægju minni yfir því, að það skyldi hafa orðið að veruleika í sambandi við þetta frv., að samtök sveitarfélaga í landinu, landshlutasamtökin, eru með þessu frv. viðurkennd. Enda þótt þau hafi að vísu ekki enn stoð í sveitarstjórnarlögunum formlega, þá eru þau þó viðurkennd sem staðreynd og sem samtök, sem eiga eftir að vinna sameiginlega fyrir sveitarfélög í hverjum landshluta fyrir sig, þar sem í ákvæðum frv. er gert ráð fyrir því, að þau fái fastan ákveðinn tekjustofn, sem er I% af tekjum Jöfnunarsjóðs, sem skiptist jafnt á milli þeirra. Fyrir þetta finnst mér, að sveitasamtökin í landinu og sveitarfélögin í landinu geti lýst mjög mikilli ánægju sinni yfir því, að þetta gerir þeim kleift að vinna meira á þeim vettvangi, sem þau hafa skapað sér með landshlutasamtökunum og mun verða til þess að efla sveitarfélögin í landinu og uppbyggingu þeirra.