13.03.1972
Neðri deild: 50. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1142 í B-deild Alþingistíðinda. (675)

133. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þessar umr. með því að endurtaka þá gagnrýni, sem fram hefur komið á þetta frv. eða skattamálastefnu þessarar ríkisstj., að þessu sinni. En ég hef kvatt mér hljóðs til að vekja athygli á og gera að umtalsefni eitt atriði í þessu frv., sem mér finnst nokkuð á skorta að hafi verið fjallað um hér, en þar á ég við fasteignaskatta.

Þess var getið hér fyrr í þessari umr., að hæstv. félmrh. hefði, þegar frv. var upphaflega kynnt, lagt á það áherzlu, að ein helzta stefnubreytingin, sem í þessum frv. fælist, væri sú, að nú væri gert ráð fyrir því, að fasteignaskattar væru stærri og veigameiri tekjustofn hjá sveitarfélögum en verið hefði áður. Ég tel eðlilegt, þegar svo stór ákvörðun er tekin og svo afgerandi stefnubreyting hvað snertir fasteignaskatta, þá tel ég eðlilegt, að menn átti sig betur á, hvaða ákvörðun er raunverulega verið að taka og hvaða stefnu er verið að marka. Í því sambandi vildi ég leyfa mér að minna á það, að hæstv. félmrh. ásamt ýmsum öðrum ágætum þm. gaf ágæta, skelegga yfirlýsingu um það hér í þinginu af öðru tilefni fyrir nokkrum vikum síðan, yfirlýsingu þess efnis, að efla bæri séreignarrétt einstaklinga og að því bæri að stefna með ótviræðum hætti, að hver einstaklingur gæti komið sér upp sinni eigin íbúð. Þessum yfirlýsingum fagnaði ég að sjálfsögðu, ég tel þetta vera rétta stefnu og rétta skoðun og tel enga ástæðu til að rengja þessi ummæli eða efast um, að þau séu mælt af heilum hug. En því undarlegra er, að á sama tíma og slíkar yfirlýsingar eru gefnar eru lögð fram frv. hér í þinginu, sem stefna í þveröfuga átt.

Það sjá allir, að það er ekki til að stuðla að því eða hvetja fólk til að koma sér upp eigin íbúðum, þegar eru lagðar fram till. um stórkostlega hækkaða fasteignaskatta, sem veikja möguleika fólks til að geta staðið undir þeim byrðum, sem fylgja slíkum eignum. Nú hefur því verið haldið fram og fullyrt hér í umr. á Alþ., að fasteignaskattar eða þessi frv. ættu að þrefalda eða jafnvel fjórfalda fasteignaskatta frá því sem nú er eða núgildandi lög gera ráð fyrir, og með álagsheimildum er ætlazt til, að fasteignaskattar hækki 41/2-falt og hvað atvinnuhúsnæði snertir sexfalt. Þarna er náttúrlega um gríðarlega miklar hækkanir á skattbyrði og mikla hækkun á tekjuöflun sveitarfélaga að ræða. Í sjálfu sér skiptir ekki máli, hvort þessar tekjur renna í sjóð sveitarfélaga eða ríkissjóð, það, sem skiptir máli, er, hvað snýr að almenningi, eigendum fasteignanna. Það liggur ljóst fyrir, að þarna er gert ráð fyrir því, að fasteignaskattar hækki mjög verulega. Þetta er gert á sama tíma sem aðstöðugjöld eru að verulegum hluta lögð til hliðar sem afgerandi tekjustofn fyrir sveitarfélögin, og a.m.k. upphaflega var gert ráð fyrir því, að aðstöðugjöldin væru lögð niður og því lýst yfir, að fasteignaskattar ættu að verulegum hluta að hæta upp þann tekjumissi, sem hlytist af niðurfellingu aðstöðugjaldanna. Út af fyrir sig er það athyglisvert, að þessi ríkisstj. skuli með þessum hætti leggja til að lögð séu niður gjöld á atvinnurekstri og setja þessi gjöld yfir á bak hins almenna borgara, því að vitaskuld er það rétt, að fasteignaeigendur á Íslandi eru hinn almenni borgari, allur almenningur, og er þar ekki um að ræða, eins og kannske viða erlendis, einhverja sérstaka stétt auðmanna eða eignarmanna. Hér á Íslandi er það óvenjulega, og ég vildi segja ánægjulega ástand, að hér er allur almenningur eigandi að fasteignum og því lendir þessi skattbyrði með auknum þunga á öllum almenningi.

Að vísu er gert ráð fyrir því í þessum frv., að hægt sé að veita undanþágur hvað snertir fólk, sem hefur ellieða örorkustyrki, svo og annað efnalítið fólk. En þarna er eingöngu um heimildarákvæði að ræða, sem ólíklegt er að hægt sé að beita í ríkum mæli, og vitaskuld er sömuleiðis nm mjög takmarkaðan hóp fólks að ræða, sem fellur undir slík heimildarákvæði. Enn fremur er það takmarkað ákvæði, sem veitir heimildir til að undanþiggja nýjar íbúðir og íbúðarhús fasteignaskatti í allt að tvö ár eftir að afnot hefjast. Þó að þetta sé í rétta átt, þá er það mjög óverulegt ákvæði og hefur lítið að segja, þegar maður hefur yfirsýn yfir alla myndina og gerir sér grein fyrir því, að þessi skattbyrði leggst með auknum þunga á allan þorra landsmanna.

Ég hef reyndar ekki orðið var við það, að í útreikningum þeim, sem fram hafa komið af hálfu ríkisstj., og reyndar ekki af hálfu stjórnarandstæðinga heldur, sé yfirleitt ekki gert ráð fyrir fasteignasköttum, en ég vildi meina, að það væri a.m.k. um verulega blekkingu að ræða, þegar menn eru að reyna að gera sér grein fyrir skattbyrði fólks og hvort skattar hafa hækkað eða lækkað, ef sleppt er úr svo veigamiklum pósti eins og fasteignasköttunum, sér í lagi þegar gert er ráð fyrir því, að þeir hækki, eins og ég sagði áðan, fjórfaldast eða sexfaldast. Og ég vil beinlínis spyrja hæstv. ráðh. að því, hvort það sé ekki rétt ályktað hjá mér og rétt niðurstaða hjá mér, að í útreikningum ríkisstj., þegar hún er að sýna fram á skattbyrði og skattaálagninguna, sé ekki gert ráð fyrir fasteignasköttum og þessari hækkun, sem hér er um að ræða.

Nú er því haldið fram með nokkuð gildum rökum, að mjög sé skert svigrúm sveitarfélaga og reyndar tekjustofnar sveitarfélaga á þann veg, að jafnvel fari svo, að það geti ekki mætt fjárþörf sveitarfélaganna strax á yfirstandandi ári, hvað þá þegar lengra liður og reikna má með að aðstöðugjöld verði lögð niður. Þá er reyndar búið að viðurkenna þann möguleika, að sveitarfélögin verði í erfiðleikum að afla tekna og láta enda ná saman. Það er reyndar búið að viðurkenna þennan möguleika í frv. sjálfu, þar sem sagt er í ákvæði til bráðabirgða, ef ég skil það rétt, að á árinu 1972 er félmrn. heimilt að veita sveitarfélögum sérstakt framlag, ef í ljós kemur, að ákvæði laga þessara reynast þeim óhagstæðari en lög nr. 51/1964. slíkt framlag skal þó aðeins veita, ef hlutaðeigandi sveitarfélag innheimtir fasteignaskatt með fullu álagi samkv. 3. mgr. 3. gr., leggi útsvar á án afsláttar samkv. 26. gr. og fullt aðstöðugjald samkv. ákvæðum 36. gr.

Um leið og þetta er viðurkennt, að sveitarfélögin geti lent í erfiðleikum með að láta enda ná saman, þá er þarna um að ræða heimildarákvæði um að veita sveitarfélögunum sérstakt aukaframlag, en þó því aðeins, að þau séu búin að notfæra sér þá hækkunarheimild, sem felst í 3. mgr. 3. gr., þ.e. um 50% aukaálag á fasteignaskatta. Þetta þýðir raunverulega það, ef að líkum lætur, að á mjög mörgum stöðum á landinu má búast við því, að sveitarfélögin neyðist til að notfæra sér ekki eingöngu fasteignaskattana að fullu, heldur líka heimildarákvæðið um 50% álag, sbr. 3. mgr. 3. gr. Og þá er enn spurt: Hvaða áhrif hefur þetta á skattbyrðina? Hvaða áhrif hefur þetta til hækkunar fyrir sveitarfélögin í þeirra tekjuöflun? Ég vil leyfa mér að efast um, að þetta dæmi hafi raunverulega verið hugsað til enda, og menn hafi ekki áttað sig á því, hversu geysilega mikla hækkun er um að ræða á nýjum vettvangi skattinnheimtu. Þegar fasteignaskattar eru orðnir svona verulegir póstar eða verulegur tekjuliður, þá er að sjálfsögðu nauðsynlegt; að það sé kannað, hver sé álagsstofninn og hvort hann sé þá fyrir hendi í fyrsta lagi, og í öðru lagi, hvort hægt sé að nýta hann.

Nú er það svo, að nýlega er lokið nýju fasteignamati, svo kölluðu aðalmati, sem reyndar hófst fyrir rétt tæpum áratug og tók gildi 1. jan. 1970. Þetta fasteignamat hefur legið niðri að meira eða minna leyti óhreyft siðan, rúmlega tvö ár, og gefur það auga leið, að mjög hefur það gengið úr sér hvað snertir verðiag. Það er reyndar líka viðurkennt með nýju heimildarákvæði, sem sett er hér inn til bráðabirgða, þar sem fjmrh. er heimilt að ákveða breytingu á hinu nýja fasteignamati til samræmis við verðlag í árslok 1971. Í því sambandi vildi ég leyfa mér að spyrja, hvað slík breyting mundi hafa í för með sér til hækkunar í fasteignasköttum, vegna þess að ég tel engan vafa á því, að verðlag hafi í útreikningum hækkað mjög verulega frá 1. jan. 1970 og til ársloka 1971, og þarna kemur enn mjög veruleg upphæð inn til hækkunar, sem áreiðanlega hefur ekki verið gert ráð fyrir í öllum þeim útreikningum, sem fram hafa farið að undanförnu. Og ég vil sem sagt beina þessari spurningu til hæstv. félmrh. eða hæstv. fjmrh., hvort þeir hafi útreikninga um það, hvað þessi breyting mundi hafa mikla hækkun í för með sér.

Þá hefur verið vakin athygli á því í umr. hér á þingi, að þetta fasteignamat er gengið úr sér að ýmsum öðrum hætti, er beinlínis að verða aftur úr öllu verðlagi, og ég hef leyft mér að leggja fram þáltill. hér á hinu háa Alþ., þar sem skorað er á ríkisstj. að leggja fram nú þegar nýtt frv. til l. um fasteignamat og fasteignaskráningu og mun ég þá væntanlega fá betra tækifæri til þess að útskýra tilefni þess frv., en ég tel þó fyllilega ástæðu til þess að vekja athygli á því hér, þar sem við erum að ræða fasteignaskatta og skattafrv., vegna þess að þetta fléttast svo mjög inn í það og er að mínu mati um algjört neyðarástand að ræða.

Þannig er mál með vexti, eins og ég hef getið um, að ýmsar eignir eru teknar til mats strax á árinu 1965. Síðan hafa orðið miklar breytingar, þótt ég noti ekki ártalið 1965, en eingöngu ártalið 1970, þegar matið gekk í gildi, þó að allir hljóti að sjá, að þegar mat er tekið í gildi, þá er löngu búið að meta upp eignirnar og nokkur tími liðinn þar á milli. Frá því að þessi möt fara fram, þá er að sjálfsögðu bæði um verulegar breytingar,á ýmsum fasteignum að ræða, viðbótarbyggingar, endurbyggingar og endurbætur, og enn fremur hefur að sjálfsögðu mikill hluti fasteigna risið og verið byggður á þessu tímabili. Fasteignamat hefur að vísu ekki alveg legið niðri frá því í jan. 1970, en allar eignir hafa verið metnar með allt öðrum hætti á þessum tíma, þessum rúmlega tveim árum, og allt önnur viðmiðun, þ.e.a.s. gömul viðmiðun notuð og að nokkru leyti úrelt, sem leiðir það af sér, að þau hús, sem hafa verið metin á þessum s.l. tveim árum, eru metin mun lægra heldur en meginþorri allra fasteigna. Þetta misræmi er svo augljóst, í fyrsta lagi, að það skuli vera mismunandi mat á fasteignum og enn fremur það, að mörg hundruð og þúsundir íbúða og fasteigna í landinu skuli vera vanmetnar eða ekki metnar. Því vildi ég leyfa mér að benda á það og leyfa mér að efast um, að þessi álagningarstofn komi að nægilegum notum, ef þarna á að nota fasteignaskatt sem verulegan tekjustofn, og ég vil líka leyfa mér að halda því fram, að þetta særi svo mjög réttarvitund alls almennings, að ekki verði við það unað eða á því stætt um langan tíma.

Jafnhliða þessum frv. og algjörlega án tillits til þess, hvort maður geti tekið undir þessar till., sem felast í þessum frv., þá er þarna um mjög brýnt mál að ræða, sem algjörlega hefur verið vanrækt að taka föstum tökum og lendir í hreinu óefni, ef ekki er þegar gripið til róttækra aðgerða. Ég vildi því beina þeim fyrirspurnum til ráðh. í þessari umr., hvort hæstv. ríkisstj. hafi hugleitt þetta vandamál, hvort hún hafi nú þegar haft uppi einhverjar ráðagerðir um að breyta lögum um fasteignamat og fasteignaskráningu og færa þau til betri vegar.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta mál frekar, en leyfi mér að bíða eftir svörum og vænti svara við þessum fsp., sem ég hef borið hér fram.