18.12.1972
Neðri deild: 27. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1356 í B-deild Alþingistíðinda. (1002)

133. mál, ráðstafanir vegna nýs gengis íslenskrar krónu

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Það er vissulega þörf að óska þess, að almenningur í landinu hafi samúð með hæstv. forsrh. Annars kemur mér ákaflega á óvart þessi ræða hæstv. forsrh. Hann hefur samband við formenn stjórnarandstöðunnar og biður þá um skjóta afgreiðslu á þessu frv., sem hér er á dagskrá, og jafnvel helzt að það fari ekki einu sinni í n. Svo kemur hæstv. forsrh. hér sjálfur og heldur ræðu, sem stendur á aðra klst., um gengisbreytinguna og efnahagsmálin almennt, byrjaði þó að tala um það, að hann gerði ráð fyrir því, að stjórnarandstæðingar þyrftu sinn tíma til þess að ræða málin almennt á breiðum grundvelli, og þess vegna var hann að óska eftir því, að afgreiðsla þessa frv. gæti gengið fljótt. Það er vissulega þörf á því, og við munum ekki sitja okkur úr færi um það að ræða efnahagsmálin, fjármál ríkisins og úrræði ríkisstj. almennt á breiðum grundvelli. En það var auðveldara fyrir forsrh., sérstaklega þegar hann með þessum hætti, má segja, fer hálfpartinn aftan að stjórnarandstöðunni, að halda langa ræðu um gengisbreytinguna, þar sem hæstv. forsrh. las að verulegu leyti bls. eftir bls. upp úr nál. valkostanefndarinnar. Þess vegna var það svo, að stundum brá manni, þegar hæstv. ráðh. var að lýsa viðhorfum sínum í efnahagsmálunum, því að hér var kominn alveg spánnýr maður og allt annar en við höfum þekkt hér í þingsölunum eða þjóðin þekkir varðandi viðhorf til gengislækkunar og annarra aðgerða í efnahagsmálunum.

Neyðin kennir naktri konu að spinna, sagði hæstv. forsrh. og það má sannarlega segja það, að neyðin hafi kennt þessum hæstv. forsrh. að spinna. Það vill svo vel til, að hann er sjálfur fyrir 3–4 dögum búinn að slá því föstu hér í þingsölunum, að þegar hann tók við forustu ríkisstj., var ekki við þann vanda að glíma í þjóðfélaginu, að þyrfti gengisfellingu, sem hann segir, að hljóti auðvitað alltaf að vera neyðarúrræði. Hvers vegna þarf nú að grípa til neyðarúrræðis, eftir að hæstv. forsrh, er búinn að vera 3 missiri stjórnarformaður í vinstri stjórn? Þá er svo komið, að þarf að grípa til neyðarúrræða, — neyðarúrræða eins og gengisbreyting réttilega er. En þegar hún er neyðarúrræði, eins og hún hefur áður verið, þá er það vegna áfalla, eins og þeirra, sem við höfum þurft að þola í þjóðfélaginu 1967 og 1968, þegar útflutningsverðmæti okkar féllu um allt að því 50% á tveimur árum. En hvaða áföll hafa orðið nú? Jú, hæstv. forsrh. las úr reifastranganum frá Seðlabankanum. Hann er áður búinn að láta reifastranga fylgja gengislækkun ríkisstj. um s.l. áramót. Og það felst í því fullkomin blekking við þjóðina að lýsa hlutunum eins og þar er gert. Það er sagt og lesið í útvarpinu, og hæstv. forsrh. endurtekur það hér, að það sé svo mikil óvissa og miklir erfiðleikar í þjóðfélaginu, mikil óvissa og miklir erfiðleikar og mikill aflabrestur, að það þurfi að grípa til gengisbreytingar. En af því að hæstv. forsrh. las upp úr mörgum skjölum, þá stangaðist dálítið á, það sem hann sagði hér og hvar. Þegar hann las aftur síðar upp úr nál. sérfræðingan., þá sagði hann, að ráð væri gert fyrir 15–20% aukningu verðmæta sjávarafurðanna á næsta ári, — 15–20% verðmætisaukningu, — og líka væri gert ráð fyrir magnaukningu í sjávarafurðunum. Við höfum líka séð það, sem höfum lesið þetta nál., að það byggist á því, að fiskifræðingarnir séu orðnir alvitringar. Það byggist á því, að loðnan veiðist í ríkara mæli en nokkru sinni áður. Á þessu eru m.a. byggðar margar þær ráðstafanir, sem ríkisstj. er að gera. Ég held, að hún ætti að setja loðnuna í skjaldarmerkið sitt. En það er ekki hægt að segja í sömu andránni, að óvissan sé mikil í þjóðfélaginu og erfiðleikarnir séu miklir, og segja svo, að útflutningsverðmætin muni aukast um 15–20% eftir spá sérfræðinganna. Þetta fær ekki staðizt.

Hæstv. forsrh. hefur geð í sér til þess að halda því hér fram, að viðhorf manna til beitingar gengisbreytingar sem hagstjórnartækis hafi breytzt mjög mikið nú upp á síðkastið. Hvaða manna? Jú, það er greinilegt, að viðhorf hæstv. forsrh. og meðstjórnenda hans í ríkisstj. gagnvart gengisbreytingu sem hagstjórnartæki hefur breytzt mjög. Það var alveg rétt, sem einn stjórnarsinni sagði hér í upphafi utan dagskrár, að hann og aðrir stjórnarsinnar væru búnir að fordæma gengisbreytingar áratugum saman, þ. á m. hæstv. forsrh. Hann sagði einnig, að staðfestingu á þessari fordæmingu væri að finna í stjórnarsáttmálanum. Þeir skyldu þó aldrei hafa skrifað undir stjórnarsáttmálann og skilið hann með ýmsum hætti, ýmsir stjórnarsinnarnir. Þessi hv. þm., hv. 3. landsk., sem sagði sig úr þingflokki frjálslyndra nú fyrir nokkru, lagði einnig áherzlu á það, að verðmæti sjávarafurða væru í hámarki, og þetta gerði hann réttilega. Af þeim sökum er ekki hægt að nota það sem ástæðu fyrir neyðarúrræðum. Það er eitthvað annað, sem hefur komið af stað því ástandi eða orðið valdandi að því ástandi í þjóðfélaginu nú, sem var ekki fyrir hendi, þegar hæstv. ríkisstj. tók við völdum, að til gengisbreytingar þurfi að grípa sem neyðarúrræðis.

Við þurfum að sjálfsögðu, stjórnarandstæðingar, að fá tóm til þess að ræða þessi mál á breiðum grundvelli, eins og hæstv. forsrh. sagði, og á slíkum vettvangi eins og þessum er ekki nema af handahófi, sem ég get gripið niður í málinu. Hvað ætlar ríkisstj. að gera samhliða þessari gengislækkun, sem hún hefur ákveðið, því að Seðlabankinn er bara verkfæri í höndum ríkisstj. í þessu sambandi? Hvaða ráðstafanir ætlar hún að gera aðrar? Hvað er fyrirhugað í fjármálum ríkisins? Bæði hækkun skatta og gjalda og lækkun útgjalda? Hvað er fyrirhugað í þessu sambandi? Hvað er fyrirhugað um fyrirkomulag á vísitölunni, og ég spyr sérstaklega, m.a. þeim 2.5 vísitölustigum, sem frestað var í sumar til áramóta? Hvað er fyrirhugað í því sambandi? Hvað er fyrirhugað í því sambandi, að bændur voru látnir fresta endurskoðun á verðlagsgrundvellinum í sumar, og átti sú frestun að gilda til áramóta? Hvað er fyrirhugað í þessu sambandi? Allt þetta verður að liggja fyrir og því verður að svara, þegar slík mál eru lögð fyrir eins og þegar ákvarðanir eru gerðar um gengisbreytingu, því að væntanlega ætlar ríkisstj. ekki að fara að huga að þessu eftir á.

Það verður þess vegna að vera hægt að meta heildaráhrif þessarar ráðstöfunar, sem hér er um að ræða, bæði á ríkisfjármál og viðskiptajöfnuð okkar og annað út á við. Og nú spyr ég: Var bankaráði Seðlabankans gerð grein fyrir þessum ráðstöfunum, fyrirhuguðum hliðarráðstöfunum ríkisstj. og áhrifum fyrirhugaðrar gengisbreytingar á viðskiptajöfnuð og ríkisfjármál og annað? Voru gerðar fyrirspurnir í bankaráði Seðlabankans af bankaráðsmönnum, sem ekki var svarað, látnar standa opnar í báða enda? Var bankaráðið látið fallast á þetta með athugasemdum einmitt um það, að því væri ekki gefinn kostur á því að meta réttmæti þessarar gengisbreytingar, hvað svo sem bankastjórarnir hafa sagt í sinni tilkynningu, sem birtist þjóðinni í ríkisútvarpinu?

Það er auðvitað aðalatriðið í þessu sambandi, að gengislækkun sé því aðeins réttlætanleg, að jafnframt sé búið þannig um hnútana, að til nýrrar gengislækkunar þurfi ekki að koma von bráðar, og að almenningur sannfærist um, að þannig sé um hnútana búið. En því fer víðs fjarri nú. Það er vitað, að í ríkisstj. voru af hálfu eins stjórnarflokksins uppi tillögur um allt aðra gengisfellingu en hér er ákveðin. Það er einnig vitað, að þessi gengisfelling, sem nú er ákveðin, byggist ekki á mati ríkisstj. á því, hvað sé rétt í þessu sambandi og hvað ekki eða hvaða hliðarráðstafanir þurfi að gera. Það gerir hún ekki. Niðurstaðan er lokaþátturinn í valdataflinu innan ríkisstj., milli þriggja flokka. Og ég óska hæstv. félmrh. til hamingju með sigurinn í þeirri glímu, því að það var hann, sem svínbeygði hæstv. forsrh. og kommúnistana í ríkisstj. í þessu máli og Björn Jónsson ekki síður, forseta Alþýðusambands Íslands. Og það verður ekki þeirra sök, þó að það sé kannske ekki þannig um hnútana búið í gengisfellingunni, að almenningur fái nægjanlegt traust á henni sem varanlegu úrræði. Og verst af öllum er sú gengisfelling, sem er þannig til komin, eins og þessi gengisfelling, að fólk hefur ekki traust á henni, hefur ekki traust á, að hún skapi jafnvægi og ró í efnahagslífinu. Það verður almannarómur. Ef þessir menn halda áfram stjórnartaumunum, sem nú eru í stjórnarráðinu, verður það almannarómur, að krónan haldi áfram að lækka. Þessir menn, sem eru búnir að fordæma gengisfellingar í áratugi, eins og hv. 3. landsk. sagði, eru nú búnir að opna kokið svo mikið, að þeir eru búnir að gleypa öll stóru orðin. Þeir munu ekki eiga erfitt með að opna kokið svolítið betur til þess að bæta við gengislækkun til viðbótar, þegar þeim þykir þörf á, ef það þýðir það og er skilyrði til þess, að þeir geti lafað áfram í valdastólunum, í ráðherrastólunum. Og gengislækkun, sem ákveðin er á grundvelli þess að geta lafað áfram í ríkisstjórn, hún er þess eðlis, að hún er ekki líkleg til að skapa traust.

Það getur vel verið, að okkur í stjórnarandstöðunni geti veitzt möguleiki til þess að veita þessari ríkisstj. það aðhald frammi fyrir allri þjóðinni að knýja hana til sæmilegra aðgerða í sambandi við gengislækkunina, en þá verður að hafa skapleg vinnubrögð í sambandi við afgreiðslu fjárlaganna. Það er frumskilyrði. En það er ætlazt til þess, að án nokkurs tíma séu afgreidd fjárlög við 3. umr., og þau eru í raun og veru að mestu leyti í sömu sporum og þau voru, þegar fjárlagafrv. var lagt fram í októbermánuði. Það hlýtur því að verða krafa okkar, að fjvn.- mönnum og fyrst og fremst fulltrúum okkar sjálfstæðismanna og þá væntanlega einnig hins stjórnarandstöðuflokksins verði gerð nákvæm grein fyrir því, hvaða hliðarráðstafanir stjórnin hefur í huga og hvernig hún ætlar að skera niður þau útgjöld, sem í ríkum mæli eru talin forsendan fyrir því, að gengislækkunin geti blessazt, eins og kemur fram í sérfræðingaálitinu. Nú vitum við, að fjárlagafrv. hefur ekki verið skorið niður, heldur hefur það verið hækkað við 2, umr. um nokkur hundruð millj. kr. En sérfræðingarnir sögðu m.a., að það væri forsenda að draga úr útgjöldum fjárlaganna, að draga úr lánveitingum fjárfestingarsjóðanna og að einnig væri það forsenda að binda kaupgjaldsvísitöluna, sem hæstv. forsrh. lýsti nú yfir, að ekki mundi gerast. Þetta var þeirra mat.

Það verður að leggja á borðið öll plögg í sambandi við þessa ákvörðun. Skemmtilegt væri nú að hafa á hljóðbandi öll viðtöl, sem fram hafa farið á milli ráðherranna um þessa gengislækkun í stjórnarráðinu. En eitthvað hefur nú verið skráð, og þar á meðal hefur verið skráð bréf frá Alþb. til hæstv. forsrh. Mér er sagt, að hann sé búinn að taka það upp úr vasanum og hafi sýnt öðrum meðráðherrum sínum það, þó að það hafi dregizt nokkuð hjá honum. Nú bið ég hæstv. forsrh. að lesa fyrir þingheim þetta bréf, ef hann vildi gera svo vel, svo að við mættum fá að heyra, hvað Alþb.- mennirnir, postularnir á móti gengislækkun hvar og hvenær sem er, hafa sagt í þessu bréfi. Þá sjáum við m.a. að minni hyggju, hvort er verið að meta gengislækkunina sem efnahagsráðstöfun, sem hagstjórnarkerfi, eða hvort hún er liður í pólitísku valdatafli. Ég býst við því, að forsrh. verði við þessari ósk minni, að birta þingheimi þetta bréf.

Ég vil svo segja í sambandi við frv., sem hér liggur fyrir, að við sjálfstæðismenn munum greiða fyrir framgangi þess með skjótum hætti, eins og hæstv. forsrh. fór fram á, að svo miklu leyti sem við teljum, að ráðstafanirnar, sem í frv. eru, séu nauðsynlegar, að það sé nauðsynlegt að afgreiða þær í þinginu í dag eða á morgun. En í 3. gr. er ákvæði, sem enga nauðsyn ber til að afgreiða í dag eða á morgun, en það er breyting á seðlabankal., að frávikið frá stofngengi verði meira en 1%, eins og í þeim l, er tilskilið, og fari allt upp í 2.25%. Ég ætla ekki nú að leggja neinn dóm á það, hvort þetta þyki eðlileg breyting á seðlabankal. En það á þá að gera þá breytingu á seðlabankal., og það liggur ekkert á. Sú ríkisstj., sem hefur lækkað gengið í dag um nær 11%, þarf ekki til viðbótar að fá 2.25% til að leika sér að á bak við tjöldin til frekari gengislækkunar. Ég skora þess vegna á hæstv. forsrh. að fallast á það að fella þessa grein úr frv., og síðan er hægurinn hjá fyrir ríkisstj., ef hún heldur áfram að vera sama sinnis, að koma þessari breytingu á eftir áramótin í sambandi við breyt. á l. um Seðlabankann. í aths. við 3. gr. segir, að ákvæði hetta sé tekið upp að beiðni bankastjórnar Seðlabankans til breytingar á l. um bankann. Þá er bezt að breyta l. um bankann réttilega, þar sem það á við, sjálfum seðlabankal. Það er alveg nauðsynlegt, að seðlabankastjórnin geri þn, grein fyrir því, hvaða nauðsyn knýr á að gera þetta. Og það er ekki nokkur nauðsyn, sem rekur til að gera þetta í dag eða á morgun. Jafnvel þó að seðlabankastjórarnir séu snjallir, þá geta þeir ekki sannfært neinn mann um það. Og ég held, að það sé einnig nauðsynlegt, að fram komi viðhorf þau, sem fram munu hafa komið hjá bankaráðsmönnum Seðlabankans.

Ég vil svo að lokum segja það, að þegar gripið er til gengisbreytingar sem hagstjórnartækis, þá verður almenningur í landinu að hafa það á tilfinningunni, að þetta sé af tiltekinni nauðsyn og betra en aðrir kostir, sem um er að ræða, og að þeim mönnum, sem um stjórnvölinn halda, sé treystandi til þess að framkvæma slíka breytingu, þeim sé treystandi til þess að nota gengisbreytingu sem hagstjórnartæki, hún sé ekki aðeins notuð sem þáttur í valdabaráttu þeirra innbyrðis og aðeins til að forða viðkomandi ríkisstj. frá því að biðjast lausnar. Við sjálfstæðismenn treystum ekki núverandi ríkisstj. til þess að framkvæma þá gengisbreytingu, sem hér er um að ræða, eða gera aðrar hliðarráðstafanir, sem nauðsynlegar eru til þess að skapa festu og öryggi íslenzks gjaldmiðils. Þeir eru þegar búnir að skapa mikið vantraust á ísl. krónunni, og fjármálastjórn þeirra er með þeim endemum, að almenningur mun í vaxandi mæli hafa vantrú og ótrú á því, að þessir menn geti beitt þeirri festu og gætni, sem hæstv. ráðh. talaði um, að nauðsynlegt væri við meðferð slíkra mála. Af þessum sökum, — og við teljum, að það sé í samræmi við skoðanir þorra almennings í þessu landi, — hefur þingflokkur sjálfstæðismanna ákveðið á fundum sínum í morgun að lýsa vantrausti á hæstv. ríkisstj. og krefjast þess, að Alþingi verði rofið og kosningar fari fram.