19.12.1972
Neðri deild: 30. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1476 í B-deild Alþingistíðinda. (1066)

132. mál, siglingalög

(Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þetta frv. til breyt. á siglingal. er flutt til samræmis við breytingu, sem gerð er till. um í sambandi við tryggingalöggjöfina. Tilefni þessa er það, að á síðasta þingi var samþ. breyting á siglingal. þess efnis, að ábyrgð útgerðarmanna á skipverjum var gerð hlutlæg, en samkv. þeirri breytingu þykir nokkur vafi leika á því, hvort ábyrgðin taki ekki til allra í þjónustu viðkomandi útgerðarmanns. Fyrir liggur, eins og ég sagði áðan, breyting við l. um almannatryggingar, og er þar lagt til, að útgerðarmönnum verði gert skylt að kaupa tryggingu í stað samningsbundinna trygginga, þar sem bótaupphæðir eru hækkaðar verulega. Því þykir rétt að setja ákvæði í siglingal., sem segi að bætur vegna þeirra trygginga séu fullnaðarbætur, enda er óhjákvæmilegt, að samræmi sé milli siglingal. og tryggingal. um þessi efni, og er það í raun og veru megintilgangur þessa frv. Enn fremur þykir ástæða til að taka skýrar fram, við hverja í þjónustu útgerðarmanns hin hlutlæga ábyrgð getur átt, þ.e. tryggingin á að ná til þeirra manna einna, sem ráðnir eru í skiprúm hjá útgerðarmanni, en ekki til allra starfsmanna í þjónustu útgerðarinnar.

Efni frv. er í 1. gr. og orðað á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Ákvæði um takmarkaða ábyrgð gilda ekki um kröfur vegna lífs- eða líkamstjóns þeirra, sem ráðnir eru í skiprúm hjá útgerðarmanni, enda hafi slys borið að höndum, er hlutaðeigandi var staddur á skipi, vann eða var í ferð í þess þágu. Útgerðarmaður ber ábyrgð á kröfum þessum, enda þótt slysið eða tjónið verði ekki rakið til bilunar á tækjum eða ónógra öryggisráðstafana né heldur vanrækslu eða yfirsjónar þeirra, sem starfa í þágu skips. Lækka má fébætur eða láta þær niður falla, ef sá, sem fyrir slysi eða tjóni varð, hefur með framkomu sinni sýnt vítavert gáleysi, sem leitt hefur til slyssins eða tjónsins.

Verði tjónið ekki rakið til atvika, sem útgerðarmaður ber ábyrgð á samkv. almennum skaðahótareglum, skal ábyrgð hans samt takmarkast við fjárhæðir þær, sem greindar eru í 1. og 2. tölul. 1. mgr. 75. gr. 1. um almannatryggingar, enda hafi viðkomandi útgerðarmaður keypt tryggingu samkv. þeirri gr.

Með þessu held ég, að efni þessa frv. sé fullskýrt, en það byggist sem sé á því, að sú breyting, sem ég áðan nefndi, á l. um almannatryggingar verði samþykkt á þinginu, og við þá breytingu, sem hér er formuð í frv., yrði þá samræmi milli almannatryggingal. og siglingalaganna. En það atriði, sem vafi lék á um, hversu víðtæk skylda útgerðarmannsins væri varðandi tryggingar, verður skýrt og ákveðið með samþykkt þessa frv. og fullkomið samræmi þá á milli ákvæða tryggingal. og siglingal. um þau atriði, sem frv. fjallar um.

Ég legg til, herra forseti, að þetta frv. fari til hv. samgn. Siglingal. hafa alltaf verið þar, og er æskilegt, að n. hraði störfum og skili áliti svo fljótt sem verða má.