20.12.1972
Efri deild: 39. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1634 í B-deild Alþingistíðinda. (1219)

121. mál, launaskattur

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður, eins og aðrir, sem hér hafa talað. En ég vil lýsa því yfir, að ég mun ekki greiða þessu frv. atkv. Það er ýmislegt, sem má færa hæstv. ríkisstj. til ámælis, og ég ætla ekki að fara að rifja það hér upp. En eitt er það, sem hún við ýmis tækifæri temur sér. Það er að leitast við að framlengja og gera varanlegt sumt af því, sem fyrrv. ríkisstj., viðreisnarstjórnin, gerði til bráðabirgða, og svo hins vegar að brjóta niður eða gera tímabundið það, sem fyrrv. ríkisstj., viðreisnarstjórnin, vildi hafa varanlegt. Það er nú svo, að í þessu frv. kemur hæstv. ríkisstj. fram í sinni lökustu mynd að þessu leyti, því að um leið og hún er að framlengja enn einu sinni ráðstafanir, sem viðreisnarstjórnin gerði tímabundnar, þ.e.a.s. 11/2% launaskattinn, þá er hún að brjóta niður og gera tímabundið það, sem viðreisnarstjórnin vildi hafa viðvarandi, þ.e.a.s. 1% launaskattinn til byggingarsjóðs ríkisins. Ég held, að 11/2% launaskatturinn á atvinnuvegina hafi verið algerlegt neyðarúrræði og hafi ekki átt rétt á sér nema um takmarkaðan tíma, þar sem um bráðabirgðaráðstafanir var að ræða. Nú er hins vegar svo ástatt, að hæstv. ríkisstj. lýsir því yfir og segir, að hún sé að gera varanlegar ráðstafanir í efnahagsmálunum, og þá á ekki jafnframt að gera ráðstafanir, sem í eðli sínu eru bráðabirgðaráðstafanir. En látum þetta vera, og ég mundi ekki hafa greitt atkv. á móti þessu frv. af þessum ástæðum einum. En ég get ekki annað en greitt atkv. á móti frv. eins og það er, ef það þýðir, að varanlega er breytt frá því ástandi, sem áður var, að byggingarsjóður ríkisins hafði fastan tekjustofn, þar sem var launaskatturinn. Að mínu viti má ekki veikja eða gera óöruggan á neinn hátt þennan tekjustofn byggingarsjóðs ríkisins, vegna þess að þetta er mikilvægasti tekjustofn hans og hefur verið um mörg ár.

Það hefði verið næst mínu skapi að bera fram brtt. við þetta frv, á þá leið, freista þess að koma því til leiðar, að ákvæðið um byggingarsjóð ríkisins verði varanlegt, eins og hefur verið, en ákvæðið um 11/2% skattinn í ríkissjóð verði tímabundið. Skil ég hér á milli. En með því að við erum nú á síðustu klukkutímum þingsins, tel ég, að við það sé ekki rétt að grípa til þess ráðs að bera nú fram brtt, þessa eðlis. En mér mundi þykja það nokkur bragarbót í þessu efni, ef hæstv. fjmrh. vildi lýsa því yfir hér, að hann muni beita sér fyrir því, að þessi mikilvægi tekjustofn byggingarsjóðs ríkisins verði ekki í neinu skertur eða veiktur eða gerður óviss og lagaákvæði um hann verði sett í sama form og verið hefur, þ.e.a.s. að þessi tekjustofn byggingarsjóðs ríkisins verði ekki tímabundinn. Ef hæstv. ráðh. sér sér fært að gefa slíka yfirlýsingu, mun ég láta ógert að greiða atkv. gegn frv.