25.10.1972
Neðri deild: 6. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í B-deild Alþingistíðinda. (130)

25. mál, dvalarheimili aldraðra

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Frv. þetta var samið af velferðarnefnd aldraðra, samkv. minni ósk, og ég lagði það fram á siðasta þingi til kynningar, og nú legg ég það fram öðru sinni til meðferðar og væntanlega til afgreiðslu á skömmum tíma. Þar sem málið var lagt fram á seinasta þingi, hygg ég, að ekki sé nauðsynlegt, að ég fari að rekja efnisatriði grg. mjög nákvæmlega. Ég geri ráð fyrir, að þm. hafi í meginatriðum áttað sig á þessu máli.

Í 1. gr. er gerð grein fyrir því, hvað átt er við með dvalarheimili aldraðra, en það eru stofnanir, sem eru ætlaðar öldruðu fólki, sem ekki þarfnast vistunar á sjúkrahúsi, og þau geta jöfnum höndum verið ætluð til dagvistunar sem fullrar vistunar. Gert er ráð fyrir því, að íbúðir fyrir aldraða geti einnig verið hluti af dvalarheimili. Í 2., 3., 4. og 5. gr. eru ákvæði um eftirlit stjórnvalda, þ.e.a.s. heilbrn., með slíkum stofnunum til þess að tryggja það, að þær fari í einu og öllu eftir nútímahugmyndum og nútímakröfum um starfrækslu slíkra stofnana. Í 6. gr. eru ákvæði um stjórn dvalarheimila, en þar er sagt, að þau skuli lúta stjórn þriggja eða fimm manna og skulu þeir tilnefndir af hlutaðeigandi sveitarstjórn eða eigendum til fjögurra ára í senn. Vistmönnum skal heimilt að tilnefna einn mann af sinni hálfu til setu á fundum stjórnarinnar, og hefur hann þar málfrelsi og tillögurétt. Í sambandi við þetta vil ég láta þess getið, að ef hv. alþm. eru þeirrar skoðunar, að fulltrúi vistmanna ætti að hafa fulla setu í stjórn slíkrar stofnunar með fullum réttindum, þá mundi ég vera mjög fús til þess að fallast á slíka breytingu.

Í 7. gr. eru þau ákvæði, sem ég geri ráð fyrir, að menn veiti mesta athygli, þ.e.a.s. ákvæðin um framlög ríkisins til slíkra stofnana. Þar er gert ráð fyrir því, að ríkissjóður skuli greiða 1/3 hluta kostnaðar af byggingum og kaup á nauðsynlegum tækjum og búnaði, ef sveitarfélag byggir dvalarheimili eða hefur rekstur þess með höndum. En ef aðrir aðilar en sveitarfélög byggja eða hefja rekstur dvalarheimilis, þá er ríkissjóði heimilt að greiða hliðstæða upphæð. Nú geri ég ráð fyrir því, að slík fyrirgreiðsla yrði í verki tryggð báðum þessum aðilum, því að á þessu sviði hafa einkaaðilar og samtök áhugafólks unnið mjög merkilegt starf, og ég geri mér vonir um, að sú starfsemi haldi áfram.

Í 8. gr. eru ákvæði um það, að daggjaldanefnd ákveði upphæð vistgjalda og sé ég svo ekki ástæðu til að rekja hér ákvæði fleiri gr. En í sambandi við flutning þessa frv. gerði ég ráðstafanir til þess að kanna, hvernig nú væri ástatt í landinu að því er varðaði elli- og dvalarheimíli, og ég hef hér undir höndum skýrslu um það, hvernig þau mál stóðu miðað við 18. okt. s.l. Ég tel rétt að greina hv. alþm. frá því, hvernig því er nú háttað með vístmenn á elli- og dvalarheimilum.

Á elli- og hjúkrunarheimilinu Grund í Reykjavík er tala rúma 374. Vistmenn eru þar 120, en hjúkrunarsjúklingar 224. Á biðlista eru um 80 manns. Elliheimilin Ás og Ásbyrgi í Hveragerði hafa 141 rúm, Það eru allt saman vistmenn í íbúðum, en á biðlista eru um 10 manns. Í Ási í Hveragerði voru tekin í notkun í sumar 4 ný hús með 8 íbúðum, en í hverri íbúð þar eru 2–4 menn. Hrafnista, dvalarheimili aldraðra sjómanna í Reykjavík hefur 453 rúm. Þar eru vistmenn 286, en hjúkrunarsjúklingar 131. Vistmenn í íbúðum eru 36 og á biðlista eru um 300 manns. Á Hrafnistu var ein deild gerð að sjúkradeild á þessu ári. 1. jan. 1971 voru 88 sjúklingar á Hrafnistu, en nú eru þeir 131. Elliheimilið Akranesi hefur 15 rúm, og þar eru 14 vistmenn. Dvalarheimilið Fellsendi í Dalasýslu hefur 15 rúm og þar eru 15 vístmenn. Elliheimilið Ísafirði hefur 21 rúm og þar er 21 vistmaður. Elliheimili Akureyrar, Akureyri, hefur 72 rúm og 72 vistmenn, en á biðlista eru um 90 manns. Á Elliheimili Akureyrar eru um 10 manns, eða 1/7 vistmanna, yfir 90 ára að aldri. Elli- og dvalarheimilið í Skjaldarvík við Akureyri hefur 85 rúm og 85 vistmenn og þar eru á biðlista um 20 manns. Dvalarheimili aldraðra í Borgarnesi hefur 30 rúm og 29 vistmenn og þar eru á biðlista um 16 manns. Meðalaldur vistmanna á Dvalarheimilinu í Borgarnesi er 90 ár. Elliheimilið Skálholt í Vestmannaeyjum hefur 24 rúm og 24 vistmenn. Elliheimilið Hlévangur í Keflavík hefur 19 rúm og 20 vistmenn. Elli- og hjúkrunarheimlið Sólvangur í Hafnarfirði hefur 110 rúm og 110 hjúkrunarsjúklinga og þar er fjöldi á biðlista.

Þá koma íbúðir aldraðra í Reykjavík. Við Norðurbrún eru 60 íbúðir, 8 fyrir hjón og 52 fyrir einstaklinga. Þar er tala rúma 68 og 68 vistmenn, sem búa í íbúðum og þar er fjöldi manna á biðlista. Við Austurbrún 6 eru 35 íbúðir og um 15 þeirra eru tvímenningsíbúðir. Þar er tala rúma 50 og 50 búa í íbúðum og á biðlista eru upp undir 200 manns. Á héraðshæli Austur-Húnvetninga, Blönduósi, er tala rúma 27 og vistmenn 27. Á sjúkrahúsi Siglufjarðar, Siglufirði, þ.e.a.s. ellideild þess, eru 13 rúm og 13 vistmenn. Og á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað, ellideild, eru 10 rúm og 10 vistmenn.

Samtals er tala rúma þannig 1527. Vistmenn eru 736, hjúkrunarsjúklingar eru 459 og vistmenn í íbúðum eru 295. Um 700 manns eru skráðir á biðlista í þessum stofnunum, en vitað er um mikinn fjölda manna, sem er óskráður.

Eins og sjá má af þessum tölum er nú um þriðjungur þeirra, sem dveljast á elli- og dvalarheimilum hjúkrunarsjúklingar, oftast langlegusjúklingar. Þeir vistmenn ættu að búa á öðrum stofnunum, sem væru sérstaklega miðaðar við þarfir þeirra. Því má segja, að fjöldi venjulegra vistmanna sé rúmlega 1000, en það er um 8% þeirra, sem nú eru yfir sjötugsaldur á Íslandi. Til samanburðar vil ég geta þess, að í Svíþjóð dveljast um 50% fleiri hlutfallslega af þessum aldursflokki á elli- og dvalarheimilum. Með þessu er sagan þó engan veginn fullsögð. Alkunnugt er, að hluti þeirra elliheimila, sem nú eru í landinu, fullnægir engan veginn nútímakröfum um húsnæði og aðbúnað. Því er mikil nauðsyn, að gert verði myndarlegt átak á þessu sviði, og frv., sem hér liggur fyrir til umr., er ætlað að stuðla að því.

En þegar rætt er um aldrað fólk, koma til fleiri vandamál en þeirra, sem búa á dvalarheimilum. Í sambandi við þetta frv. vil ég geta þess, að ég mun á næstunni setja reglugerð um félagsmála- og upplýsingadeild Tryggingastofnunar ríkisins samkv. heimild í 79. gr. l. nr. 67 frá 1971 og á deildin að annast velferðarmál aldraðra og annarra bótaþega almannatrygginga og sjá um kynningar- og upplýsingastarfsemi. Drög að þessari reglugerð hafa verið samin, og eru þau nú til umsagnar hjá tryggingaráði. Af minni hálfu er fyrirhugað, að verkefni deildarinnar verði þessi:

1. Að standa fyrir rannsóknum á þeim vandamálum, sem aldraðir og öryrkjar hafa sérstaklega við að stríða, svo sem fjárhagsafkomu þeirra, atvinnumálum, húsnæðismálum og vistunarmálum yfirleitt, hvort heldur er á sjúkrahúsum, hjúkrunarheimilum eða dvalarheimilum.

2. Að gera till. um lausn þeirra vandamála, er í ljós koma við athuganir deildarinnar, til Tryggingastofnunar ríkisins, viðkomandi rn., sveitarfélaga og annarra aðila, sem talið er, að gætu unnið að lausn þeirra.

3. Að örva og styðja þess konar félagsstarfsemi fyrir aldraða og öryrkja og hafa að þessu leyti samvinnu við stofnanir sveitarfélaga eða félagssamtaka, sem að þessum málum vinna.

4. Að fylgjast með þróun og nútímaviðhorfum í vandamálum aldraðra og öryrkja í nágrannalöndum og kynna þau mál heima fyrir.

5. Að annast upplýsingastarfsemi og útgáfu leiðbeiningarita fyrir bótaþega Tryggingastofnunar ríkisins og aðra um bótakerfi Tryggingastofnunarinnar og rétt einstaklinganna í kerfinu.

6. Að vinna með öðrum tiltækum ráðum að lausn þeirra vandamála, sem aldraðir og öryrkjar hafa við að stríða.

Þær ráðstafanir, sem felast í frv. því, sem hér er til umr., og í þeirri nýju starfsemi, sem fyrirhuguð er á vegum Tryggingastofnunar ríkisins, eru mjög mikilvægar, en að minni hyggju þó aðeins upphaf á verkefni, sem á næstu árum hlýtur að verða æ umfangsmeira, en það er að tryggja öldruðu fólki eðlileg lífsskilyrði í þjóðfélagi okkar tíma. Í því sambandi er ástæða til að minnast þess, að öldruðu fólki fjölgar í sífellu hér á landi, ekki aðeins að tölu, heldur einnig hlutfallslega. Mig langar til að nefna nokkrar tölur um þessa þróun, en þær eru miðaðar við fjölda fólks yfir 65 ára aldri.

Árið 1950 var fjöldi fólks yfir 65 ára aldri 10 865 eða 7.8% af íbúatölunni. Árið 1960 var þessi tala 14 380 eða 8.2%. Árið 1970 var hún 18 199 eða 8.9%. Spá fyrir árið 1980 gerðir ráð fyrir tölunni 22 300 eða 9.5% og spá fyrir árið 1990 gerir ráð fyrir 28 500 eða 10%, og árið 2000 á þessi tala að vera komin upp í 30 600 samkv. spánni eða upp í 10.5%. Þannig er því spáð, að fjöldi fólks yfir 65 ára aldri þrefaldist á hálfri öld, en hlutfall þessa aldurshóps aukist úr 7.6% í 10.5%. Þetta hlutfall er og verður fram yfir næstu aldamót allmiklu lægra hér en í nálægum löndum. Við erum enn og verðum um skeið með hærra hlutfall af ungu fólki en flest þjóðfélög í þessum heimshluta. Engu að síður verða þau viðfangsefni, sem tengd eru öldruðu fólki, æ víðtækari og áleitnari hér ekki síður en annars staðar.

Afstaðan til aldraðs fólks hefur verið einkennilega tvíbent á undanförnum áratugum, ekki sízt í þeim þjóðfélögum, sem kenna sig við velferð. Lögð hefur verið áherzla á að efla heilbrigðisþjónustu og bæta lífsskilyrði fólks í þeim tilgangi, að það nái sem hæstum aldri. Á því sviði hefur mikill árangur náðst í sæmilega efnuðum þjóðfélögum. Hér á landi er meðalaldur karla t.a.m. kominn yfir 70 ár og meðalaldur kvenna yfir 75 ár, og það verður æ algengara, að fólk nái 80 eða 90 ára aldri. Jafnframt hafa verið gerðar ráðstafanir til þess, að fólk á þessum aldri búi við batnandi kjör. Það hefur verið gert með lífeyrisgreiðslum almannatrygginga, en við höfum á einu ári framkvæmt mjög stórfellda hækkun á þeim greiðslum til fólks, sem ekki hefur aðrar tekjur. Þá hafa lífeyrissjóðir sívaxandi hlutverki að gegna og sumir þeirra eru þess nú þegar megnugir að tryggja hópum af öldruðu fólki næsta háar árstekjur. Vafalaust renna lífeyrisgreiðslur almannatrygginga og lífeyrissjóðirnir á sínum tíma saman í eina heild, og vonandi sem fyrst, og tryggja öllu öldruðu fólki sómasamlega afkomu.

En á sama tíma og þannig er unnið að því að lengja líf manna, tryggja þeim sem bezta heilsu og sæmileg lífskjör, hefur verið lögð áherzla á það, að aldrað fólk hafi engu hlutverki að gegna í nútímaþjóðfélagi. Reglur eru um það, að opinberir starfsmenn geti hætt störfum 67 ára hér á landi og verði að hætta störfum sjötugir, og á svokölluðum frjálsum vinnumarkaði hefur verið sívaxandi áherzla lögð á það að bægja mönnum frá störfum, þegar þeir eru orðnir sjötugir. Jafnhliða þessu hafa á síðustu áratugum orðið miklar breytingar á gerð fjölskyldna. Áður var það almenn regla, að þrír eða fjórir ættliðir byggju saman á heimili, en nú verða fjölskyldurnar æ smærri, venjulega tveir ættliðir, meðan börnin eru ung, en síðan aðeins einn. Afleiðingin er sú, að aldrað fólk býr í sívaxandi mæli á heimilum eitt út af fyrir sig. Því hefur verið bægt af vinnustöðum sínum og það tekur æ minni þátt í almennum athöfnum samfélagsins. Það er áhorfendur, en ekki þátttakendur, eins konar utangarðsfólk. Og það er almennt viðhorf, að þetta sé eðlilegt og óhjákvæmilegt. Sem dæmi um það get ég nefnt viðhorf okkar stjórnmálamannanna. Það er mjög algengt fyrir kosningar, að flokkar hælist um yfir því, að þeir hafi svo og svo marga unga menn í kjöri, og telji það líklegt til kjörfylgis. Ég minnist þess hins vegar ekki að hafa séð stjórnmálaflokka hælast um yfir því, að þeir hafi í kjöri fulltrúa hinna öldruðu, og eru þeir þó nú þegar hátt í 20% kjósendahópsins og það hlutfall fer vaxandi.

Aldrað fólk hefur tekið þessari þróun af miklu langlundargeði og látið það yfir sig ganga að verða smátt og smátt að eins konar utangarðsfólki í þjóðfélaginu. Stundum er auðmýkt aldraða fólksins með hreinum ólíkindum. Ég rak mig m.a. á það í vor eftir þinglokin. Ég mætti þá á nokkrum fundum á Austfjörðum og Norðurlandi og ég hafði það fyrir reglu að spyrjast fyrir um það, hvar sem ég kom, hvort aldrað fólk og öryrkjar, sem rétt átti, væri búið að fá þá tekjutryggingu, sem kom til framkvæmda um síðustu áramót. Það kom í ljós, að ekki einn einasti maður á þessum svæðum hafði fengið þessar greiðslur og fjöldamargir höfðu enga hugmynd um, að þeir ættu rétt á þeim. Hér var að sjálfsögðu um að ræða ósæmilega og óafsakanlega vanrækslu hjá þeim embættismönnum, sem áttu að koma greiðslunum til skila. En það vakti ekki síður athygli mína, að ekki einn einasti maður hafði kvartað undan því að hafa ekki fengið lögákveðnar greiðslur, hvað þá gert ráðstafanir til þess að innheimta þær.

Mér er sem ég sjái okkur hin, hvernig við hefðum brugðizt við, ef við hefðum ekki fengið kaupið okkar greitt á réttum tíma. En aldrað fólk og öryrkjar, sem ekki hafði aðrar tekjur, það fólk, sem bjó við erfiðust kjör í þjóðfélaginu, sætti sig við það að vera dregið á kaupinu sínu mánuðum saman. Og ég veit ekki til þess, að neinn hafi borið fram þá eðlilegu kröfu að fá vexti af fé sínu þann tíma, sem embættismenn héldu því. Enn er það sjónarmið ríkjandi hér á landi, að lífeyrisgreiðslur af þessu tagi séu ekki réttur, heldur náð og miskunn og jafnvel góðgerðarstarfsemi einstakra stjórnmálamanna. Er raunar ekki laust við það, að a.m.k. einn stjórnmálaflokkur hér á landi hafi mjög reynt að halda þeim sjónarmiðum að fólki.

Ég minnist á þetta vegna þess, að ég tel slík viðhorf og slík vinnubrögð fráleit með öllu, en einnig vegna þess að ég er sannfærður um það, að þetta viðhorf á eftir að breytast mjög ört á næstunni, sem betur fer. Ég minntist á það áðan, að efnahagur aldraðs fólks mundi fara batnandi á næstunni, þegar lífeyrisgreiðslur almannatrygginga og greiðslur úr lífeyrissjóðum fara að falla saman í einn farveg. Og jafnhliða er ég sannfærður um það, að aldrað fólk gerir kröfur til aukins jafnréttis og aukinna áhrifa í þjóðfélaginu.

Við lifum á tímum, þegar kröfur um aukið lýðræði, jafnrétti og þátttöku í ákvörðunum, t.a.m. á vinnustöðum, fara sívaxandi. Æ fleiri hópar bera fram slíkar réttlætiskröfur. Við þekkjum til að mynda baráttu ungs fólks fyrir jafnrétti til menntunar, baráttu kvenna fyrir raunverulegu jafnrétti þegnanna án tillits til kynferðis, og ég er sannfærður um það, að við eigum eftir að kynnast hliðstæðri baráttu aldraðs fólks fyrir réttindum sínum. Við eigum eftir að sjá aldrað fólk mynda hagsmunasamtök, fara í kröfugöngur og mæta hér á þingpöllunum til þess að knýja alþm. til þess að veita vandamálum þess athygli og ljá kröfum þess eyra. Þess vegna held ég, að það sé mjög brýnt, að menn fari að gera sér skýrari grein en verið hefur fyrir vandamálum aldraðra og stöðu þeirra í nútímaþjóðfélögum. Í því sambandi langar mig að minnast á nokkrar grundvallarreglur, sem víða eru nú til umr. og ég tel, að taka verði mið af, þegar fjallað er um þessi mál.

Fyrsta meginreglan er réttur hvers einstaklings til að lifa eðlilegu lífi. Í því felst það, að hver einstaklingur verði að fá aðstöðu til að lifa og athafna sig í eins eðlilegu umhverfi og við eins eðlileg lífsskilyrði og kostur er á, þótt til þurfi að koma aðstoð í mynd heimilisþjónustu og annarrar umönnunar.

Önnur meginreglan er réttur hvers einstaklings til sjálfsákvörðunar. Rétturinn til að taka sjálfur ákvarðanir um eigin hagi er hverjum einstaklingi lífsnauðsyn. Sé gengið of nálægt þeim rétti, er hætta á, að einstaklingurinn glati sérkennum sínum og sjálfsvirðingu. Það verður að koma til móts við þarfir aldraðs fólks um öryggi og eðlilegt líf, án þess að gengið sé um of á sjálfstæði einstaklingsins og rétt hans til þess að taka ákvarðanir um eigin hagi. Það er ævinlega hætta á því, að ekki sé tekið tillit til þessara grundvallarréttinda manna á opinberum stofnunum. Einmitt þess vegna finnst mörgum heimilisaðstoð geðfelldari og réttari.

Þriðja meginreglan er réttur hvers einstaklings til áhrifa og þátttöku. Aldrað fólk hefur eins og allir aðrir þörf á og vilja til að hafa áhrif á umhverfi sitt og þjóðfélagið í heild. Þetta er ein af grundvallarþörfum manna, löngunin til þátttöku og ábyrgðar. Í þessu sambandi ber að minnast þess, að aldrað fólk er sá þjóðfélagshópur, sem hefur persónulega raunhæfa reynslu af því, hvernig það er að eldast í þjóðfélagi okkar. Þetta er eini þjóðfélagshópurinn, sem hefur þessa reynslu. Aðrir hafa hana ekki, en mega flestir eiga von á henni síðar. Þessi reynsla er dýrmæt og hún hefur almennt gildi fyrir þjóðina alla, ekki sízt þegar þess er gætt, að aldrað fólk verður senn 1/10 hluti af íbúatölunni hér á Íslandi, eins og ég gat um áðan. Af þessum ástæðum tel ég það miklu máli skipta, ekki aðeins fyrir aldrað fólk, heldur einnig fyrir þjóðfélagið, að þessi þjóðfélagshópur bindist samtökum og beiti áhrifum sínum.

Fjórða atriðið, sem mig langar til að minnast á, er, að komið sé til móts við athafnaþrá aldraðs fólks. Við vitum það af reynslunni, að eigi einstaklingur að halda lífsþrótti sínum, þurfa þeir að geta fullnægt athafnaþrá sinni í eðlilegu, félagslegu umhverfi. Ég tel, að það sé allt of einhliða og neikvæð aðstaða, að fólk verði að hætta störfum, þegar það hefur náð vissum aldri. Jafnhliða slíkri reglu verður að opna möguleika á því, að aldrað fólk geti fengið nýjan starfsvettvang, ef það hefur þrek og löngun til þess. Hér held ég, að sé um stórmál að ræða, sem gefa verði sívaxandi gaum ef við viljum tryggja þegnum þjóðfélagsins eðlilegt líf allt frá vöggu til grafar.

Ég hef minnzt á þessi almennu atriði hér, vegna þess að ég tel þau vera mjög veigamikil og eins til þess að setja þetta frv. um dvalarheimili aldraðra í rétt samhengi. Þótt ég telji ákvæði þessa frv. mjög til bóta, ef að lögum verða, vil ég um leið leggja áherzlu á hitt, að þau leysa aðeins lítinn hluta af vanda, sem verður æ stórfelldari og brýnni á ókomnum árum. Þótt við samþykkjum þetta frv., sem ég vona, að gerist á skömmum tíma, fáum við ekkert tilefni til sjálfsánægju, heldur þyrfti það að vera okkur hvatning til mun röggsamlegri athafna.

Ég legg svo til. herra forseti, að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og til heilbr: og trn.