30.01.1973
Sameinað þing: 38. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1759 í B-deild Alþingistíðinda. (1360)

128. mál, vistheimilið í Breiðuvík

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Mér er ánægja að því, að við hv. fyrirspyrjandi skulum vera sammála um tvö meginatriði þessa máls, að þrátt fyrir margs konar byrjunarörðugleika og ýmis vandkvæði hefur mikið gott hlotizt af starfi Breiðuvíkurheimilisins, og það er óviðunandi, að það ófremdarástand ríki til frambúðar, sem þar hefur skapazt vegna mismunandi stefnu stjórnvalda, sem um það fjalla, sitt af hvorum enda, ef svo má segja. En fyrst og fremst kvaddi ég mér hljóðs á ný til að benda á það, sem ég hýst reyndar við, að hv. fyrirspyrjanda sé ljóst, að Breiðuvíkurheimilið í sjálfu sér, tilvera þess og rúm þar í húsum er ekki lausn á því vandamáli, hvar á að vista unglinga, sem komast í kast við lögreglu og umhverfi sitt, einmitt fyrstu dagana eða vikurnar eftir að þeir hafa gerzt brotlegir. Þá þarf að rannsaka mál þeirra frá lagasjónarmiði, og það þarf einnig að rannsaka einstaklinginn, sem í hlut á, og það verður ekki gert annars staðar en á vettvangi. Viss skammtímavistun, meðan slík málsrannsókn og einstaklingsbundin rannsókn fer fram, verður að vera hér í þéttbýlinu, og til þess þarf sérstaka aðstöðu. Að því er unnið af kappi, að hún verði fengin til frambúðar, og sú bráðabirgðaaðstaða, sem lengi hefur verið í Síðumúla, verður ekki notuð degi lengur en óhjákvæmilegt er.