15.02.1973
Sameinað þing: 45. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1973 í B-deild Alþingistíðinda. (1540)

138. mál, Lífeyrissjóður allra landsmanna

Ingólfur Jónason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í tilefni af því, sem síðasti hv. ræðumaður sagði. Ég er alveg sammála honum um það, að bæði þm. og aðrir ættu að kynna sér þessi mál, sem um er að ræða, lífeyrissjóði almennt og tryggingamálin, skattamálin og fjáröflun til ríkisins og hinna ýmsu sjóða. Ég er alveg sammála hv. þm., að tekjuskatturinn er allt of hár. Og ég er alveg undrandi á því, að hann, svona áhrifamikill stjórnarstuðningsmaður, skuli ekki hafa komið í veg fyrir þá miklu hækkun, sem orðið hefur á tekjuskattinum síðustu árin.

Í fjárl. 1971 er tekjuskatturinn 1342 millj. kr., en í fjárl. þessa árs 4600 millj. kr. Þetta lætur þessi hv. þm. gerast með stuðningi sínum við hæstv. ríkisstj. Það verður að segja og viðurkenna, að það er rétt, að þetta er skattpíning. Og það er ekkert undrunarefni, þótt hv. þm. komi hér upp í ræðustólinn með aðfinnslur við mörgu, sem gerist í stjórnarkerfinu.

Hv. þm. talaði um, að einn starfsmaður í Búnaðarbankanum hefði sagt sér, að bændur væru alltaf að skammast út af lífeyrissjóði hænda. Það er dálítið einkennilegt. Ég held, að bændur séu mjög þakklátir fyrir lífeyrissjóðinn, sem var lögfestur 1970. Í hverri einustu sveit á Íslandi eru bændur farnir að njóta þessara laga, — hverri einustu sveit. En því er nú verr, að bændur eru ekki almennt eins efnaðir og hv. 3. þm. Norðurl. v. Það eru flestir þannig settir fjárhagslega, að þá munar um að fá lífeyrissjóðsbætur, eins og aldraðir bændur eru nú þegar farnir að fá. En bóndinn á Löngumýri er svo efnaður, að þetta eru aurar í hans augum og munar ekkert um það. En því er nú verr, að fjöldi bænda er ekki eins vel stæður efnalega og hann. Bændur eru þakklátir fyrir það, að þessi sjóður var stofnaður. Stjórn Stéttarsambands bænda, Stéttarsambandið, Búnaðarfélagið og þeir, sem vinna fyrir bændur, vita, hvers virði það er fyrir bændur að hafa lífeyrissjóð.

till., sem nú er verið að ræða um, fjallar um það að koma á lífeyrissjóði fyrir alla landsmenn. Ég er samþykkur því. Mér finnst, að um leið og við köllum Ísland velferðarþjóðfélag, þá eigum við að koma í veg fyrir, að fólk þurfi að kvíða ellinni, að það þurfi, ef því hefur ekki auðnazt að safna fé, að kvíða fyrir örbirgð í ellinni. Íslenzka þjóðfélagið á að vera upp úr þessu vaxið, og þess vegna þurfa allir Íslendingar að vera aðilar að lífeyrissjóði, öflugum lífeyrissjóði. En það er svo rétt, sem hér hefur verið sagt, að það er ýmsum vanköntum bundið að koma þessari löggjöf á, þannig að hún sé réttlát og eðlileg í framkvæmd.

Um lífeyrissjóð bænda er það að segja, að hann er byggður upp í meginatriðum eins og aðrir lífeyrissjóðir. Bændur greiða í sjóðinn 4% af tekjum sínum, aðrir greiða á móti 6%. Þannig er það launþeganna, þeir greiða sjálfir 4%, en vinnuveitandinn 6%. Til viðbótar hefur lífeyrissjóður bænda það fram yfir aðra lífeyrissjóði, sem hafa verið stofnaðir, að hann er strax gerður virkur. Hann er gerður virkur strax með því móti, að ríkissjóður greiðir til ársins 1985, á meðan sjóðurinn er að safna fjármagni, 62.5% af þeim bótum, sem sjóðurinn greiðir út, en stofnlánadeild landbúnaðarins 37.5%. hetta eru hlunnindi, sem lífeyrissjóður bænda fær og getur veitt tryggingahöfum langt umfram það, sem aðrir sjóðir geta gert.

Ég hef komizt að því, að bændur eru þakklátir fyrir, að það tókst að koma þessum lögum á og ekki sízt þessu ákvæði. Og ég verð að segja það, að það er í hverjum hreppi einn eða fleiri, sem eru farnir að njóta þessara laga. Og þannig verður það á næstu árum. Ég hef séð fyrir mér marga aldraða menn með krepptar hendur og bogna í baki, sem hafa verið þakklátir fyrir að fá þá tugi þús., sem þeir fá á ári úr þessum sjóði, en þeir hefðu ekki fengið annars. En þótt einstöku menn séu svo vel stæðir fjárhagslega, að þeir þurfi þessa ekki með, þá verðum við að gæta þess, að allur fjöldinn er þannig settur, að hann þarf á þessu að halda.

Ég ætla svo ekki að orðlengja þetta meira. Bóndinn á Löngumýri, hv. 3. þm. Norðurl, v., sem ég met mikils, varð til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, vegna þess að hann segir, að bændur skammist út af þessari löggjöf. Ég veit ekki, hvaða bændur hann hefur talað við, sem finna að þessu og löggjöfinni. Ég tek ekki mark á því, þótt hv. þm. hafi sannfært einhverja menn hér í Reykjavík um, að það sé ósanngjarnt, að bændur greiði 4% af launum sínum í sjóðinn. Ég held, að bændur geri sér fulla grein fyrir því, að þeir geta ekki fengið réttindin nema leggja eitthvað fram og kaupa sér réttindi, eins og aðrir verða að gera, sem í lífeyrissjóði eru.

Hv. þm. talaði um, að krónan væri alltaf að minnka. Þetta er alveg rétt, og þetta hefur hv. 3. þm. Norðurl. v. látið gerast. Hann hefur stutt hæstv. ríkisstj., þótt hún hafi fellt krónuna. En það er rétt að vera sanngjarn, þegar rætt er um þetta, og segja, að sumt af þessu hafi verið ósjálfrátt og ekki á valdi ríkisstj. En mig undrar ekki, að maður eins og hv. 3. þm. Norðurl. v., sem hefur gott skyn á fjármálum, sé gramur, þegar hann hugsar til þess, að íslenzka krónan hefur fallið á valdatímabili þessarar ríkisstj. um 30% miðað við Evrópugjaldeyri, annan en sterlingspund. Krónan hefur fallið um 16–17% miðað við sterlingspund, af því að það hefur fallið líka á þessum tíma. Og íslenzka krónan hefur fallið miðað við dollar um 12%. En þegar ég segi 30%, þá miða ég við það, að krónan verði látin fylgja dollarnum og verði lækkuð um ca. 10%.

Dýrtíðin hefur vaxið. En ég held, að það sé á móti lögmáli hagfræðinnar að halda því fram, að það sé verðbólguaukandi að safna sjóðum. Ég held, að það ætti að geta verið einn þáttur í því að draga úr verðbólgu að mynda sjóði og greiða í lífeyrissjóði þúsundir milljóna, eins og hv. þm. orðaði það. Og víst er, að oft hefur verið gripið til þess ráðs að binda fé og festa fé til þess að draga úr verðbólgu. Iðgjöldin, sem eru greidd í lífeyrissjóðina, eru vissulega til þess að draga frá og minnka kaupgetu manna og hindra verðbólgumyndun, nema þetta fé verði allt lánað út og sett út í kerfið. En það var ekki ætlun mín að fara að ræða þessi atriði, þótt ég stæði hér upp af gefnu tilefni. Það verður gert síðar.