22.02.1973
Sameinað þing: 48. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2081 í B-deild Alþingistíðinda. (1634)

166. mál, skipulag innflutningsverslunar

Flm. (Sigurður Magnússon) :

Herra forseti. Á þskj. 307 höfum við Jónas Árnason flutt þáltill., er gerir ráð fyrir því, að ríkisstj. skipi n. til að kanna skipulag innflutningsverzlunar og skyldur innflytjenda við vörukaupendur, og vil ég fylgja henni úr hlaði með nokkrum orðum.

Það vekur furðu, á sama tíma og miklar umr. eru um einföldun og skipulagningu ýmissa atvinnugreina, einkum í iðnaði og í útflutningsatvinnugreinum, hve hljótt hefur verið um innflutningsverzlunina og fyrirkomulag hennar. Þetta skýtur nokkuð skökku við, því að ef það er ástæða til að samstilla krafta og koma á hagkvæmni í rekstri í framleiðslu- og útflutningsgreinum, þá er engu að síður ástæða til þess í innflutningsverzluninni. Hvort tveggja hefur að endingu hliðstæð áhrif á útkomu þjóðarbúsins. Ein skýring finnst mér nærtækust um þessa þögn í innflutningsverzluninni, og hún er sú staðreynd, að erfitt er um nokkrar umbætur á sviði atvinnumála, eins og háttað er til hér á landi, nema með nokkurri þátttöku þeirra, sem ráðin hafa í hinum einstöku atvinnugreinum, og ég hygg, að íslenzkir atvinnurekendur í iðnaði og þeir, er fást við útflutningsverzlun, sjái, að margar þær umbætur, sem rætt er um, séu þeim sjálfum hagsbætur engu síður en samfélagsheildinni. Þetta verður hins vegar ekki sagt um innflytjendur og heildsala. Þeir vita, að þær breytingar, sem almenningur kallar á í innflutningsverzluninni, eru spónn úr þeirra aski. Umbætur, sem kalla á sparnað og einföldun, eru þeim því ekki að skapi.

Kjörnir fulltrúar fólksins í landinu, eins og alþm., geta þó ekki látið slík sjónarmið fárra koma í veg fyrir breytingar, sem auka hag fjöldans. Og þeir þm., sem hæst og mest tala um sparnað ríkisútgjalda, sem ætluð eru til félagslegra eða annarra samfélagslegra framkvæmda, ættu að beina sjónum sínum að þeirri ofboðslegu óþarfaeyðslu, sem almenningur jafnt og fyrirtæki og framkvæmdaaðilar þurfa að leggja í vegna þess óskapnaðar, sem íslenzk innflutningsverzlun er. En hve stór þáttur er innflutningsverzlunin í íslenzkum þjóðarbúskap? Lítum aðeins á tölur í því sambandi.

Gerð hefur verið spá um innflutning til landsins á þessu ári. Á verðlagi þessa árs er gert ráð fyrir, að hann nemi samtals um 23.5 milljörðum kr. Ef frá er dreginn innflutningur skipa og flugvéla, innflutningur vegna Búrfells og Sigöldu, vegna álversins og varnarliðsins, þá er spáð, að almennur vöruinnflutningur nemi tæpum 19 milljörðum. Ekki má gera ráð fyrir, að allur þessi vöruinnflutningur fari út í viðskiptalífið eða til endursölu innanlands, þar sem fullvíst má telja, að ýmis fyrirtæki og aðilar á vegum ríkis og sveitarfélaga flytji inn vörur beint til eigin þarfa. Engar tölur hef ég um þessa skiptingu. Þær liggja ekki á lausu, ekki frekar en svo margt annað, er snertir innflutningsverzlunina. En ef ég áætla, að um það bil 4 milljarðar af verðmæti hins almenna vöruinnflutnings komi til landsins beinlínis á vegum ýmissa opinberra aðila, þá standa eftir, miðað við áætlaðan vöruinnflutning þessa árs, um 15 milljarðar, sem falla í hlut hinna venjulegu heildsölufyrirtækja. Sé gert ráð fyrir því, að heildsöluálagning á þetta innflutningsverðmæti nemi að meðaltali um 15–20%, má gera ráð fyrir, að þjóðin borgi á yfirstandandi ári í heildsöluskatt 2000–3000 millj. kr. Séu þessar tölur eitthvað nærri lagi, þarf enginn að undrast þá útþenslu, sem orðið hefur hin síðari ár í flestum greinum innflutningsverzlunar, né þær viðskiptahallir úr gleri og eðalmálmi, sem risið hafa eins og gorkúlur á haug hvarvetna í Reykjavík. Slík peningamusteri bera gleggstan vott um þá auðsöfnun, sem einstakir innflytjendur hafa stundað í skjóli eftirlitsleysis og með stuðningi valdamanna.

Á sama tíma eiga ýmsar greinar framleiðsluatvinnuveganna við veruleg fjárhagsvandamál að stríða, eftir því sem sagt er, en vitaskuld er innflutningsbákn þetta þeim byrði ekki síður en öllum almenningi. En hver er þá fjöldi þeirra fyrirtækja, sem fást við innflutningsverzlun? Til að fá þeirri spurningu svarað, hef ég farið í fyrirtækjaskrá þá, er Hagstofa Íslands lét gefa út árið 1969. Það verður þó að viðurkenna, að ekki er auðhlaupið að fá í henni nákvæmar tölur yfir þessa aðila vegna þess, hvernig skráningu þeirra er háttað. Þó er ljóst samkv. henni, að 552 heildsölu- eða umboðsfyrirtæki eru skráð 1969, sem áreiðanlega má ætla, að öll fáist meira og minna við innflutning. Inn í þessa tölu vantar marga aðila, svo sem ýmsa þá, sem fást við innflutning á benzíni og brennsluolíum, byggingarefni, bílum og bílavarahlutum, en þessir aðilar eru undir sérstakri upptalningu í skránni og skipta vafalaust nokkrum tugum. En það er ekki einungis hinn mikli fjöldi heildsölufyrirtækja, sem vekur athygli, heldur ekki síður staðsetning þeirra, en af þeim 552 aðilum, sem fyrr var að vikið, eru 505 með aðsetur í Reykjavík og allur þorri þeirra skráður sem einkafyrirtæki eða hlutafélög, einungis 13 sem samvinnufélög. Við þessa upptalningu má svo bæta þeim fyrirtækjum, sem stofnuð hafa verið og skráð, eftir að fyrirtækjaskráin var gefin út 1969, en ég hef fengið þær upplýsingar hjá borgarfógetaembættinu í Reykjavík, að það eitt hafi gefið út um það bil 99 heildsöluleyfi frá árinu 1970. Af þessum tölum má sjá, að fyrirtæki, sem fást við innflutningsverzlun, skipta hundruðum, og má með nokkurri nákvæmni ætla, að þau séu um það bil 700 talsins. Engar upplýsingar hef ég hins vegar fengið um stærð þeirra og umsvif né um það fjármagn, sem liggur í þessari umsýslu allri.

Úr því að ég minnist á fjármagn, er rétt að minna á, að það væri verðugt rannsóknarefni að komast að því, hver hlutur erlendra umboðsaðila er í íslenzkri innflutningsverzlun og hvaða áhrif slíkt erlent fjármagnsstreymi hefur á verðlags- og efnahagsþróun innanlands. Á sama hátt væri gaman að fá vitneskju um það huldufé, sem sagt er, að innflutningsaðilar fái á reikninga sína erlendis og aldrei kemur fram í bókhaldi þeirra. En þetta er kapítuli út af fyrir sig, sem ég fer ekki frekar inn á að þessu sinni.

En víkjum þá að skyldum innflytjenda við vörukaupendur. Þáltill. gerir ráð fyrir því, að nefnd geri till. um breytingar í því efni. Mér er ekki kunnugt um, að í íslenzkum lögum sé að finna nein sérstök ákvæði um skyldur innflytjenda af þessu tagi, svo sem eðlilegt væri. Í lögum um verzlunaratvinnu frá 19. apríl 1968 er hins vegar að finna nokkur skilyrði fyrir veitingu verzlunarleyfa, en með orðunum „verzlun“ í þeim lögum er m. a. átt við heildverzlun. Skilyrði þau, sem þarna er að finna, eru í 4. gr. nefndra laga, og fjalla þau um ríkisfang og aðsetur, fjárráð og menntun. Að auki eru svo heimildarákvæði um að setja frekari ákvæði í reglugerð, en því ákvæði hefur aldrei verið beitt, þar sem engin reglugerð hefur verið sett um lög þessi. Í þessum lögum er því ekki að finna nein ákvæði um ábyrgðarskyldur innflytjenda á vörum, sem þeir flytja inn til landsins, né að þeir séu skyldugir til að tryggja nauðsynlega varahluta- og viðhaldsþjónustu. Nú kunna einhverjir að segja, að slíkt sé óþarft, hinir erlendur framleiðendur eða umboðsaðilar séu innflytjendum nægilegt aðhald í þessu efni. En svo er ekki. Reynslan er ólygnust, og hver kannast ekki við fjölmörg dæmi um misbresti á slíkri þjónustu? Hver kannast ekki við, að heimilistæki standi ónothæf dögum eða vikum saman vegna skorts á nauðsynlegu viðhaldi eða varahlutaþjónustu — eða bifreiðar og önnur flutningatæki? Sama máli gegnir um hinar ýmsu vélar og tæki, jafnt á heimilum sem í atvinnurekstrinum. Mörg dæmi eru jafnvel um, að fólk stendur uppi með ónýt tæki af þessum sökum og hefur engan lagalegan rétt til að krefjast bóta. Á skrifstofu Neytendasamtakanna hefur mér verið tjáð, að verulegur hluti af þeim kvörtunum, sem þeim berast árlega, sé einmitt þessa efnis, og að dómi flestra, er við neytendamál fást, er talið brýnt, að löggjafinn taki hér í taumana til að vernda sjálfsagðan rétt almennings.

Að lokum vil ég koma fram með nokkrar ábendingar um breytingar á skipulagi innflutningsverzlunarinnar til að gera hana hagkvæmari og ódýrari. Slíkar breytingar þurfa fyrst og fremst að beinast að því að fækka alls kyns milliliðum og kostnaði, sem af þeim hlýzt. Þannig þarf að auka verulega frá því, sem nú er, þátt opinberra og ýmissa hálfopinberra aðila í innflutningsverzluninni.

Eðlilegt er, að slíkir stórir framkvæmdaaðilar annist veruleg innkaup sjálfir á efni og tækjum til eigin þarfa. Athuga þarf möguleika á útboðum í sérstök vöruinnkaup, en til grundvallar slíkum útboðum þurfa að liggja rannsóknir um áætlaða ársneyzlu tiltekinna vörutegunda. Vitaskuld yrðu slík tilboð einkum í þeim vöruflokkum, þar sem um verulegar fjárhæðir væri að ræða og tiltölulega auðvelt væri að spá um neyzlu, svo sem á alls kyns byggingarefni, vélum og tækjum úr járni, svo að eitthvað sé nefnt. Slík útboð á vöruflutningi mundu verka lækkandi á vöruverð, bæði vegna þeirrar hörðu samkeppni, sem upp kæmi, og vegna þess hagkvæmis, sem væri í stórum vörupöntunum. Lækka þarf heildsöluálagningu í því skyni að fækka heildsölufyrirtækjum, en stærri markaður á hvern innflutningsaðila kæmi þá á móti lækkun álagningar. Fylgjast þarf betur með fjárfestingarmálum innflutningsaðila og tryggja, að óhóflegt fjármagn liggi ekki í þessari atvinnugrein. Varðandi skyldur innflytjenda við vörukaupendur þarf að setja fastar reglur um ábyrgð og skyldur þeirra á þeim vörum, sem þeir flytja inn til landsins, en ítrekuð brot á slíkum reglum gætu varðað svipti verzlunarréttinda.

Margt fleira mætti segja um innflutningsverzlunina, en ég læt þetta nægja að sinni, en vona, að þessari þáltill. um könnun þessara mála, — því að það er einungis farið fram á könnun á þessu stigi málsins, — verði vel tekið hér í þingsölum. Og mér kæmi satt að segja á óvart, ef nokkrir þm. væru hér inni, sem vildu leggja stein í götu þessa þarfa máls.