26.02.1973
Efri deild: 63. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2095 í B-deild Alþingistíðinda. (1649)

172. mál, vinnslustöðvar á sviði sjávarútvegs

Flm. (Steingrímur Hermannsson) :

Herra forseti. Með stóraukinni þekkingu og tækni á öllum sviðum sjávarútvegsins hefur sóknin aukizt svo mjög í flesta stofna fiska og sjávardýra, að jafnvel er talið, að flestum þessara stofna sé nokkur hætta búin af þessari miklu sókn. Af þessum ástæðum hefur orðið að grípa til ýmiss konar ráðstafana til verndunar stofnum sjávardýra. Við fiskveiðar eru ákveðin svæði, einkum uppeldis- og hrygningarstöðvar, friðuð um lengri eða skemmri tíma. Á þeim sviðum hefur hins vegar ekki þótt rétt eða fært að grípa til neinna annarra takmarkana á aflamagni. Við veiðar á rækju, hörpudiski og humar hafa þess konar aðgerðir ekki reynzt nægilegar. Við þessar veiðar hefur orðið að grípa til beinna takmarkana á aflamagni, en það hefur m. a. verið gert með takmörkun á veiðitíma og einnig með því að takmarka fjölda báta og með beinni takmörkun á hámarksafla, sem leyfður er á hverju svæði. Við þessar ákvarðanir hefur jafnframt orðið að taka tillit til byggðarsjónarmiða, t. d. þannig að heimila aðeins veiðar fyrir báta frá nærliggjandi byggðarlögum.

Ljóst er, að samræma ætti byggingu vinnslustöðva á landi því aflamagni, sem gera má ráð fyrir á viðkomandi svæðum. Á þessu hefur hins vegar orðið töluverður misbrestur. Höfum við í landi okkar fjölmörg dæmi um slíkt og þá jafnframt dæmi um alvarlegar afleiðingar fyrir atvinnulíf í viðkomandi byggðarlögum. Það er skoðun mín, að úr þessu beri að bæta. Því hef ég á þskj. 313 leyft mér að leggja fram frv. til l. um heimild til að setja á fót vinnslustöðvar á sviði sjávarútvegs. Í 1. gr. frv. kemur hins vegar fram, að aðeins er átt við vinnslustöðvar á þeim sviðum, sem háð eru beinum aflatakmörkunum, sem sjútvrn. ákveður, m. ö. o. aðeins við rækju-, humar- og skelfisksvinnslu, eins og nú er ástatt. Það er að vísu rétt, að einnig er nauðsynlegt að samræma byggingu frystihúsa og annarra fiskvinnslustöðva. Hins vegar er þar yfirleitt um svo fjárfrekar framkvæmdir að ræða, að auðvelt ætti að vera að ná slíkri samræmingu með aðstoð lánastofnana, ekki sízt ef tryggt er, að lánastofnanir fylgi þeim áætlunum, þeim byggðaáætlunum og atvinnuvegaáætlunum, sem Framkvæmdastofnun ríkisins vinnur að, og þeim er raunar gert skylt að fylgja samkv. lögum um þá stofnun. Um vinnslustöðvar fyrir rækju, humar og skelfisk gildir nokkuð öðru máli. Slíkum stöðvum má koma á fót með tiltölulega litlu fjármagni, jafnvel með því að fá stórvirkar vélar með lánskjörum, enda er víða svo komið, að gæta verður á þessum sviðum fyllstu varúðar, ef ekki er jafnvel þegar í óefni komið.

T. d. má nefna vinnslu á hörpudiski. Slík vinnsla er að hefjast með stórvirkum vélum. Ein þess háttar vél, amerísk, er komin í Stykkishólm, önnur, smíðuð hér á landi, á Bíldudal og sú þriðja, einnig smíðuð hérlendis, á Langeyri við Ísafjarðardjúp. Þessar vélar og það, sem í kringum þær er, kostar margar millj. kr. Þær þurfa jafnvel nokkur þús. tonn af hörpudiski til þess að vera arðbærar. Ljóst er hins vegar, að hörpudisksmiðin eru mjög takmörkuð og þegar allnálægt flestum gengið, a. m. k. á ofangreindum svæðum. Það er sannfæring mín, að mjög vafasamt sé að setja fleiri slíkar vélar á þessi svæði, a. m. k. án ítarlegrar könnunar. Þetta kom raunar mjög berlega fram í blaðaskrifum um þá vél, sem sett var upp í Stykkishólmi, og vöknuðu ýmsar spurningar um, hvort gætt hefði verið nauðsynlegrar samræmingar á afkastagetu miðanna og vélarinnar.

Rækjuveiðar hafa verið stundaðar af miklu kappi á undanförnum árum, einkum við Vestfirði og á Húnaflóa. Hefur sóknin t. d. á Ísafjarðardjúpi og í Arnarfirði stóraukizt á undanförnum árum. Hefur komið í ljós, að gengið hefur verið mjög nálægt stofnunum. Því hefur reynzt nauðsynlegt að takmarka þessar veiðar í vaxandi mæli. Vonandi ber það tilætlaðan árangur. Til þess benda raunar veiðarnar á Ísafjarðardjúpi nú í vetur.

Vinnslustöðvar hafa risið upp eins og gorkúlur og til þeirra verið keyptar eða leigðar stórvirkar rækjupillunarvélar. Við Ísafjarðardjúp eru starfræktar a. m. k. 7 rækjupillunarvélar og 2 við Arnarfjörð. Hver þessara véla þarf u. þ. b. 700–800 tonn af rækju á ári, til þess að rekstur þeirra sé sæmilega tryggður. Hygg ég, að það sé meira en bæði Ísafjarðardjúpið og Arnarfjörðurinn þola með góðu móti, enda er staðreyndin sú, að afkoma rækjuvinnslustöðvanna hefur yfirleitt verið fremur bágborin síðari árin.

Á Húnaflóa voru rækjuveiðar lengi vel aðeins stundaðar frá Hólmavík og Drangsnesi. Hefur rækjuveiðin algerlega haldið uppi atvinnulífi á þessum stöðum mörg undanfarin ár. Á Hólmavík og Drangsnesi voru samtals tvær litlar vélar og ein stór. S. l. haust bættist við eins stór rækjupillunarvél á Skagaströnd. Um svipað leyti ákvað sjútvrn., að hámark rækjuaflans á Húnaflóasvæðinu skyldi vera 1200 tonn á þessari vertíð. Var þá þegar ljóst, að um algert lágmark var að ræða fyrir þann vélakost, sem til staðar var. Um s. l. áramót kom hins vegar upp ný rækjuvinnslustöð á Hvammstanga með stórri vél. Afleiðingin er sú, að á Húnaflóasvæðinu er nú hafið skefjalaust kapphlaup um þá rækju, sem veiða má. Ef svo heldur fram sem nú horfir, getur aðeins farið á þann veg, að byggðarlögin og þeir, sem reka þessar vinnslustöðvar, bera stórtjón af og atvinnuleysi verður, a. m. k. á Hólmavík og Drangsnesi, þar sem segja má, eins og fyrr segir, að allt atvinnulíf sé á rækjuveiðunum byggt. Eflaust verður þrýst á að fá aflahámarkið aukið.

Þá er jafnframt ekki ólíklegt, að rækjustofnunum sé búinn nokkur voði og geti farið á sömu leið og varð á Ísafjarðardjúpi.

Þarna er um mjög alvarlegt mál að ræða fyrir viðkomandi byggðarlög og ljóst, að stjórnvöld þurfa að grípa í taumana án tafar, þótt raunar megi segja, að það sé þegar orðið nokkuð seint. Komið gat til greina að fela fiskveiðasjóði að tryggja þá samræmingu, sem um ræðir í umræddu frv., milli veiða og vinnslu. Við nánari athugun þótti mér hins vegar eðlilegra, að þeir, sem vilja reisa vinnslustöð á viðkomandi sviði og svæði, leiti sjálfir heimildar hjá sjútvrn., sem ákveður aflamagnið, eins og fyrr er greint frá. Þetta þótti mér eðlilegra, m. a. með tilliti til þess, sem áður segir, að sumar slíkar stöðvar má jafnvel reisa, án þess að lánastofnanir séu til kvaddar.

Ég vil að lokum taka það fram, að mér er viðamikið leyfakerfi ógeðfellt. Ég vil leitast við að leggja sem minnstar kvaðir á heilbrigt framtak einstaklingsins. Á sumum sviðum verður hins vegar ekki hjá því komizt. Við umræddar veiðar er þegar komið á leyfakerfi og aðrar takmarkanir. Ég vona, að af því, sem ég hef rakið, verði hv. þm. ljóst, að í þessu tilfelli er skaðlegast að stíga ekki skrefið til fulls.

Að lokum vil ég leyfa mér að leggja til, að frv. verði visað til 2. umr. og hv. sjútvn