26.10.1972
Sameinað þing: 9. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 377 í B-deild Alþingistíðinda. (166)

17. mál, fiskveiðar og fiskvinnsla í Norðurlandskjördæmi vestra

Flm. (Pétur Pétursson):

Herra forseti. Á ýmsu átti ég nú von, en ekki þessu. Finnst hv. 5. þm. Norðurl. v. eiginlega allt í bezta lagi í kjördæminu okkar? Hefur hann ekkert orðið var við á undanförnum áratug, hvernig atvinnuleysið hefur þjáð þar fjölda fólks? Hann kallar þetta frekju og framhleypni í mér. Mér er nokkurn veginn sama um það. Það eina, sem ég er að reyna að leggja hér til, er, að reynt verði að byggja þar upp atvinnulíf á dálítið myndarlegan máta, en ekki sé alltaf verið að ausa peningum í smáfyrirtæki, sem svo venjulega, þrátt fyrir þetta indæla frjálsa framtak, eru í ofboðslegum vandræðum daginn eftir. Það hjálpar lítið atvinnulífinu þarna, þó að fyrirtæki einkaframtaksins sé á stöðunum, ef það er ekkert að gera þar. Mér finnst nefnilega, að atvinnumálin í þessu kjördæmi séu allt of stórt mál til þess, að þm. úr kjördæminu fari svo að bera öðrum á brýn, að þeir séu með frekju og framhleypni, þegar þeir eru að reyna að gera till. um, hvernig eigi að ráða fram úr málunum. Við skulum þá fá aðrar till. Ég hef aðeins borið þetta fram til umhugsunar fyrir þm. Náttúrlega er ekki nein forskrift í þessari till. um, hvernig þetta eigi að vera. Auðvitað ætlast ég ekki til, að þetta sé gert, ef fyrirtækin heima fyrir vilja ekki, að það sé gert. Ef þau vilja heldur búa við þann kost, sem hefur verið og er, þá auðvitað gera þau það. En það þýðir þá líka, að það verður að krefjast þess, að það sé full atvinna á stöðunum.

Mér fannst hv. þm. vera að gera hálflítið úr því, sem gert var fyrir fyrirtækið Þormóð ramma á Siglufirði. Ég vil ekki gera það. Ég álít, að stjórnvöld hafi tekið þarna mjög myndarlega á mjög erfiðu viðfangsefni, og ég efast auðvitað ekki um, að fyrrv. stjórn hefði gert það líka. En aðalatriðið er það, að ég vildi þá lýsa eftir till. frá hv. þm., og það getur vel verið, að við komumst að samkomulagi um einhvern annan hátt á þessu. En það dugir ekki fyrir þm. þessa kjördæmis eða annarra að horfa á atvinnuleysi, fátækt og eymd í sínu kjördæmi og segja svo bara, þegar till. koma fram: Þetta er frekja.