01.03.1973
Neðri deild: 59. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2237 í B-deild Alþingistíðinda. (1755)

146. mál, skólakerfi

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Ég ætlaði alls ekki að tala aftur við 1. umr., en vegna þess að hv. 9 landsk. þm., Ellert Schram, nefndi mig áðan í ræðu sinni, ætla ég að gera stutta aths. Hann notaði ummæli eftir mig í röngu samhengi. Áðan talaði hann um, að þeir, sem héldu áfram til æðra náms í framhaldsskólunum, mundu einangrast frá vinnandi fólki, og nefndi í því sambandi, að ég hefði kallað þessa afstöðu hans rómantíska. Ég notaði orðið rómantískt í ræðu minni í fyrradag í allt öðru samhengi, eins og hann getur síðar lesið um í þingtíðindum. Ég var þá að tala um lengingu árlegs námstíma og kallaði það rómantíska afstöðu, þegar menn héldu því fram í fullri alvöru, að allur þorri íslenzkra barna þéttbýlisins ætti þess enn kost að vinna að sveitastörfum eða taka þátt í framleiðslustörfum. Þetta er liðin tíð, og ég held, að enginn geti í rauninni mótmælt því. Má t. d. benda á viðleitni margra aðila þjóðfélagsins til þess að koma á fót sumarbúðum og öðru slíku, og það er ekki að ástæðulausu, sem sú viðleitni fer fram.