01.03.1973
Neðri deild: 59. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2248 í B-deild Alþingistíðinda. (1762)

169. mál, heilbrigðisþjónusta

Stefán Gunnlaugsson; Herra forseti:

Aðdragandinn að því frv., sem hér er til umr., er sá, að fyrrv. heilbrrh., Eggert G. Þorsteinsson, skipaði n. manna á árinu 1970 með hliðsjón af þál., sem afgreidd var hér á hinu háa Alþ. sama ár, til að gera till. um endurskoðun á gildandi heilbrigðislöggjöf með það fyrir augum, að heilbrigðisþjónustan í landinu yrði bætt. Vissulega var sú ákvörðun tímabær og eðlileg í alla staði. Þörf var orðin á að taka þessi mál til athugunar, ekki hvað sízt út frá því sjónarmiði að reyna að ráða bót á því alvarlega ástandi, sem við var að etja á ýmsum stöðum úti um land, vegna þess að læknar eru illfáanlegir til þess að sinna þar störfum. Það kemur fram í grg. með frv., að þessi n. starfaði frá því í okt. 1970 og þar til í byrjun apríl 1971. Hún mun hafa haft samráð við ýmsa aðila um tillögugerð sína og sendi frá sér álitsgerð og till. í apríl 1971. Núv. hæstv. heilbr.- og trmrh. fékk svo nýrri n. þetta mál í hendur haustið 1971. Í apríl s. l. lagði svo hæstv. heilbr.- og trmrh. till. þessara n. fyrir Alþ. í mynd frv. til l. um heilbrigðisþjónustu. Um málið urðu talsverðar umr., en ekki náði það fram að ganga, enda ekki að því stefnt, að það gæti orðið á því þingi. Var það að mínum dómi í alla staði eðlilegt, svo stórt og viðamikið sem þetta mál er og æskilegt, að reynt sé að ná sem allra mestri og víðtækastri samstöðu um það. Frv. hefur nú aftur verið lagt hér fram, að vísu lítillega breytt frá því, sem áður var.

Ég fagna því, að þetta frv. til l. um breytta skipun heilbrigðisþjónustu er aftur á dagskrá á þessum vettvangi. Er þess að vænta, að úr þessu líði ekki langur tími, þar til unnt verður að hefjast handa um skipulega og samræmda uppbyggingu þess heilbrigðisþjónustukerfis í landinu, sem aðstæður nútímans gera nauðsynlegt. Löggjöf, sem stefnir megindráttum í þá átt, sem frv. gerir ráð fyrir, virðist nauðsynlegur grundvöllur til að byggja á. Það má gera ráð fyrir því, að mikil vinna og störf liggi að baki undirbúnings þeirrar tillögugerðar, sem hér liggur fyrir. Að henni hafa unnið ýmsir mætir menn með reynslu og sérþekkingu á sviði heilbrigðismála. Þeir hafa vafalaust leitað samráðs við fjölmarga aðila, sem þetta mál snertir, til að tryggja, að fyrirhuguð löggjöf geti orðið að því gagni, sem að er stefnt með setningu hennar. En margt orkar tvímælis í okkar heimi, ekki hvað sízt mannanna verk. Og svo finnst sjálfsagt ýmsum um eitt og annað í þessu frv., eins og hefur komið fram í þessum umr., þótt að samningu þess hafi staðið ýmsir hinna hæfustu manna, sem völ er á til þeirra hluta, enda virðist allt þetta mál vera þess eðlis og svo vandasamt úrlausnar, að ekki er þess að vænta, að allir geti orðið á eitt sáttir um allt, sem í væntanlegri löggjöf um heilbrigðisþjónustu kemur til með að standa. Það er vissulega til of mikils mælzt að gera ráð fyrir, að svo geti orðið í slíku máli sem hér um ræðir.

Mér sýnist, að sú tillögugerð, sem felst í frv., miðist einkum að því að leitast við að jafna aðstöðu manna til að fá notið sómasamlegrar heilbrigðisþjónustu. En vitað er, að skilyrði manna í þeim efnum eftir því, hvar þeir eru búsettir eða staddir í landinu, hafa verið ákaflega mismunandi. Hér er því um að ræða jákvætt markmið, sem stefna ber að. Um það hljóta flestir að geta verið sammála. Um hitt, með hvaða hætti hað skuli gert, hvers konar skipulag þurfi að liggja til grundvallar, munu aftur á móti vera skiptar skoðanir, jafnvel meðal þeirra, sem bezt þekkja til.

Í frv. eru einnig gerðar till. um byltingu á því skipulagi, sem verið hefur á heilbrigðisþjónustu á þéttbýlissvæðinu, t. d. hér á suðvesturhorni landsins, þar sem þessi mál hafa verið í miklu betra horfi en víðast hvar annars staðar á landinu. Þótt svo hafi verið, er vissulega einnig þörf endurskipulagningar heilbrigðisþjónustunnar í þessum landshluta. Hvort tveggja, heilbrigðisþjónusta í þéttbýli og dreifbýli, er svo samtvinnað og tengt, að rétt og eðlilegt er að skoða þessa þætti í samhengi, eins og gert hefur verið við undirbúning þessa frv.

Að mínum dómi stefnir þetta frv. í rétta átt í höfuðatriðum. Það gerir ráð fyrir því, að heilbrigðisþjónusta taki til heilsugæzlu, heilbrigðiseftirlits, lækningarannsókna, lækninga í sjúkrahúsum og endurhæfingarstarfs. Ég mun ekki að svo stöddu ræða einstök atriði frv. Mér mun gefast tækifæri til þess í heilbr.- og trn., sem væntanlega fær frv. til athugunar og umsagnar. Nokkur atriði, sem ég hef hnotið um og tel, að betur mættu fara eða orka tvímælis, þurfa nánari athugunar við. Möguleikar munu gefast, ef að líkum lætur, til að ræða þau við þá, sem frv. sömdu, þegar málið verður tekið fyrir í n., svo að ég skal ekki lengja þessar umr. með því að ræða þau hér náið.

Meðal þess, sem ég hef í huga í þessu sambandi, er staða heilbrigðiseftirlitsins í væntanlegu heilbrigðisþjónustukerfi. Mér sýnist margt mæla með því, að sú starfsemi ætti að vera til húsa í heilsuverndarstöðvum og rekast í tengslum við annað heilsuverndarstarf, sem þaðan verður rekið.

Þá vil ég minnast á skiptingu landsins í læknishéruð. Sennilegt er, að það hafi reynzt þeim, sem þetta frv. sömdu, eitt af erfiðustu úrlausnarefnunum. Hvað snertir skipan þeirra mála hér á suðvesturhorni landsins samkv. frv., þá eru menn í Reykjaneskjördæmi ekki á eitt sáttir í því efni.

Það vekur athygli, hvernig gert er ráð fyrir í frv., að tekið verði í slík lög sem hér um ræðir ákvæði um námsstyrki, sérstaka fjárhagslega fyrirgreiðslu og ýmiss konar hlunnindi til handa þeim, sem hæst verða settir innan kerfisins og hæstu launin fá. Hygg ég, að fátítt sé og sennilega einsdæmi í sambærilegri löggjöf íslenzkri, að kveðið sé á um og talin upp með þeim hætti, sem þarna er gert, ótal fríðindi, sem vissum starfsmönnum eru boðin. Hér er um að ræða a. m. k. að nokkru leyti fríðindi, sem, venjulega er samið um milli viðkomandi stéttarfélags og vinnuveitenda. Þau hlunnindi, sem hér um ræðir, eru ekki látin ná til láglaunahópa heilbrigðisstarfsmanna, en þeir þurfa einnig á viðhaldsmenntun að halda, námsstyrkjum og fjárhagslegri fyrirgreiðslu til að afla sér aukinnar hæfni í starfi engu síður en þeir, sem hærra eru settir innan væntanlegs heilbrigðiskerfis: Þessi atriði þurfa að mínum dómi nánari athugunar við.

Ég skal ekki lengja þessar umr. með því að telja upp fleiri atriði í frv., sem ég hef við yfirlestur og athugun á frv. staðnæmzt við. En ég lýk máli mínu með því að láta í ljós ánægju yfir því, að þetta frv. er komið hér fram. Vonandi tekst að afgreiða frá Alþ, hið allra fyrsta, lög um heilbrigðisþjónustu, sem í öllum meginatriðum stefna í þá átt, sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Við Alþfl.-menn viljum fyrir okkar leyti stuðla að því, að svo geti orðið.