07.03.1973
Neðri deild: 61. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2399 í B-deild Alþingistíðinda. (1823)

171. mál, atvinnuleysistryggingar

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Með frv. þessu er lagt til, að bætt verði inn í lög um atvinnuleysistryggingar nýrri gr., þar sem stjórn Atvinnuleysistryggingasj. sé heimilað að veita þátttakendum í viðurkenndum starfsþjálfunarnámskeiðum styrk, sem má nema allt að því jafnhárri upphæð og atvinnuleysisbætur eru samkv. 18. gr. a fyrir hvern þátttakanda í slíkum starfsþjálfunarnámskeiðum að viðbættri þátttöku í ferðakostnaði og öðrum óhjákvæmilegum útgjöldum þátttakenda. Stjórn sjóðsins setur nánari reglur um veitingu slíkra styrkja. Frv. er þannig ætlað að heimila stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs að veita eins konar námsstyrki til verkafólks, sem tekur þátt í viðurkenndum starfsþjálfunarnámskeiðum. Er gert ráð fyrir, að upphæð styrksins geti numið allt að því jafnhárri fjárhæð og bætur atvinnuleysistrygginga á hverjum tíma, auk þess sem sjóðnum er heimilað að taka þátt í ferðakostnaði og öðrum óhjákvæmilegum útgjöldum, sem leiðir af þátttöku í slíkum námskeiðum.

Frv. þetta samdi Hjálmar Vilhjálmsson, formaður stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs, að beiðni minni sem trmrh., og ég vil með örfáum orðum gera grein fyrir því, hvers vegna ég tel eðlilegt að gera þessa breytingu á lögum sjóðsins.

Í grg. með frv. er minnt á, að vaxandi iðnaður og aukin fjölbreytni í atvinnulífi krefjist markvissrar starfsþjálfunar ýmissa starfshópa. Einnig er á það bent, að hér muni í ríkara mæli en hingað til verða þörf á algerri endurmenntun fólks til nýrra starfa. Á undanförnum árum hafa bæði ýmsar tæknistofnanir, iðnskólar og ýmis samtök atvinnuveganna efnt til námskeiða af ýmsu tagi til að bæta úr brýnni þörf. Samtök launamanna og atvinnurekenda hafa upp á síðkastið sótt mjög á um, að hið opinbera hefði meiri forustu um eflingu og samræmingu þessarar starfsemi en verið hefur. Þetta verða að teljast mjög eðlilegar kröfur. Á vegum iðnrn. er nú í samstarfi verkafólks og atvinnurekenda unnið að því að koma á fót starfsþjálfunarnámskeiðum fyrir ýmsa starfshópa. Í samstarfi við iðnskólann í Reykjavík hafa verið haldin námskeið fyrir starfsfólk í fataiðnaði eða í verksmiðjusaum, og nú innan skamms er að hefjast námskeið fyrir stjórnendur þungavinnuvéla, svo að eitthvað sé nefnt.

Ekki mun raunsætt að gera ráð fyrir því, að t. d. fjölskyldufólk almennt, hvort heldur það er atvinnulaust eða í starfi, muni sjá sér fært að setjast á skólabekk um lengri eða skemmri tíma án þess að njóta einhvers fjárstyrks, meðan á námsdvöl stendur. Þetta á vafalaust fyrst og fremst við um fólk utan af landsbyggðinni, sem þarf að sækja slíkt námskeið hingað á þéttbýlissvæðið og e. t. v. þarf — auk þess að vera kauplaus — bæði að greiða ferða- og dvalarkostnað hér eða annars staðar fjarri heimabyggð.

Þetta frv. miðar ekki að því að koma á reglulegu námslaunakerfi fyrir þá, sem þurfa að afla sér viðbótar- eða endurmenntunar. Með því er ekki heldur ætlunin að draga úr því, að fyrirtæki greiði fólki laun, meðan á starfsþjálfun stendur, eins og á sér sem betur fer oftast stað. Með þessari fagabreytingu er fyrst og fremst verið að gera stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs kleift að jafna aðstöðu fólks, atvinnulausra og annarra, til að sækja umrædd námskeið. Eins og fram kemur í grg., er gert ráð fyrir, að sjóðsstjórnin setji sérstakar reglur um veitingu þessara styrkja.

Ekki leikur á því neinn vafi, að brýn nauðsyn er á að koma fræðslustarfsemi þeirri, sem hér um ræðir, í miklu fastara formi en nú á sér stað og ekki sízt að tryggja henni eðlileg tengsl við iðn- og verkmenntun í landinu. Hér er um ákaflega mikilvægt mál að ræða, sem ég ætla ekki að fjölyrða um að þessu sinni, en ég tel eðlilegt, að n. sú, sem nú vinnur að endurskoðun iðnfræðslul., hafi jafnframt í huga, hvernig haga beri verkmenntun óiðnlærðs fólks.

Þess má geta hér til fróðleiks, að ýmsar grannþjóðir okkar hafa komið fastri skipan á hliðstæð starfsþjálfunarnámskeið, bæði hvað snertir tilhögun þeirra og fjárhagslegan stuðning við þátttakendur. Árið 1960 settu Danir t. d. sérstaka löggjöf um menntun sérþjálfaðs verkafólks, og sett var heildarreglugerð við þessi lög árið 1971. Samkv. þessari reglugerð fer starfsfræðslan fram á 1–6 vikna námskeiðum, sem jafnframt opna þátttakendum leið til framhaldsmenntunar. Till. um námsefnið eru gerðar af sameiginlegum fræðslunefndum samtaka launafólks og atvinnurekenda, en síðan fjallar sérstakt fræðsluráð um námsefnið. Ráð þetta er skipað fulltrúum hins opinbera og fulltrúum frá samtökum atvinnurekenda. Námið fer fram í sérskólum víðs vegar í Danmörku, en þeir eru um 35 talsins, og er kennslan ókeypis. Ríkið greiðir 85% af heildarkostnaðinum, en samtök vinnumarkaðarins og sveitarfélög 15%. Fólk, sem hefur einhverja á framfæri sínu, greiðir hvorki fæðis- né húsnæðiskostnað og einhleypir aðeins lítinn hluta. Þátttakendur, sem eru atvinnulausir, og þeir, sem tapa vinnu vegna námsdvalar, njóta styrks úr Atvinnuleysistryggingarsjóði. Lágmarksupphæð styrksins er sú sama og atvinnuleysisbætur, en getur verið allt að 25% hærri eftir ástæðum. Ég er ekki í vafa um, að við getum að ýmsu leyti hagnýtt okkur þá reynslu, sem hæði Danir og Norðmenn búa yfir í þessum efnum.

Með frv. þessu er aðeins tekið á einum af mörkuðum þætti mikils og aðkallandi vandamáls, og eins og ég sagði áðan, er nauðsynlegt að skoða þetta mál í samhengi við væntanlegar breytingar á núverandi skipan verk- og tæknimenntunar í landinu. Í þessu frv. er aðeins um að ræða nýja lagagr. í hin almennu lög um atvinnuleysistryggingar á Íslandi, nýtt verksvið, sem þessum sjóði er ætlað. En mér þykir rétt að geta þess í þessu sambandi og eins í sambandi við frv. til l. um atvinnuleysistryggingar frá hv. þm. Bjarna Guðnasyni, að þessi löggjöf hefur um skeið verið í endurskoðun í heilbr.- og trmrn., og hafði ég gert mér vonir um að geta lagt fram frv. um heildarendurskoðun atvinnuleysistryggingalaganna mun fyrr á þessu þingi. Þetta tókst því miður ekki af ástæðum, sem rn. voru óviðráðanlegar, en einmitt nú er þessari endurskoðun lokið, og ég geri mér vonir um, að frv. um heildarendur skoðun þessara laga, þar sem m. a. sé tekið á atriðum eins og bótaupphæðum, sem eru orðnar algerlega úreltar, og eins tekið mið af lögum um styttingu vinnuvikunnar og gerðar ýmsar aðrar veigamiklar breytingar, — að slíkt frv. geti legið fyrir hér á næstunni. Og ef samstaða tekst um heildarendurskoðun á l. um atvinnuleysistryggingar, bæði út frá þessu stjfrv., sem ég var að gera grein fyrir, og með hliðsjón af frv. hv. þm. Bjarna Guðnasonar, þá væri að sjálfsögðu eðlilegt, að þetta litla frv., sem ég var að gera grein fyrir, yrði fellt inn í þá heildarendurskoðun af þeim þn., sem um þetta mál fjalla.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.