12.03.1973
Efri deild: 68. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2465 í B-deild Alþingistíðinda. (1859)

191. mál, Iðnrekstrarsjóður

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Ég vil þakka þeim tveimur hv. þm., sem hér hafa talað, fyrir stuðning við þá meginhugsun, sem í frv. felst, þótt komið hafi fram miklir fyrirvarar um fyrirkomulag.

Ég held, að það sé varla ástæða til að fara í almenna umr. um iðnþróunarstefnu hæstv. núv. ríkisstj. og þeirrar fyrrv., þó að hv. þm. Geir Hallgrímsson teldi það mér nú helzt til ágætis, að ég hefði haldið fyrri meginstefnu óbreyttri. Hygg ég, að svo muni ekki vera. Hv. þm. sagði hér áðan, að fram færu á vegum rn. viðræður um sölu á orku. Það fara ekki fram neinar viðræður um sölu á orku. Það fara fram viðræður um að stofna fyrirtæki, sem verða að meiri hl. til í eigu Íslendinga, og reynt er að fá erlenda aðila í samvinnu um slík fyrirtæki, sem síðan safni arði, eftir því sem vonir standi til, og sá arður verði að meiri hl. til eftir í landinu, — en ekki bara að selja þeim orku. Einmitt í þessu sjónarmiði koma fram æðiólík grundvallarviðhorf hjá núv. ríkisstj. og fyrrv., án þess að ég ætli að fara að tala lengra mál um það.

Á það hefur verið bent, að ekki sé um að ræða ýkjamikið nýtt fjármagn í sambandi við þetta frv., vegna þess að þarna kemur ekki til framlag ríkissjóðs, eins og upphaflega var áformað og raunar ákveðið, áður en þau vandamál komu upp, sem allir kannast við. Engu að síður er með þessu frv., ef að lögum verður, tryggt mjög aukið fjármagn til notkunar á þessu ári fram yfir það, sem orðið hefði að óbreyttum aðstæðum. Eins og menn vita hefur Iðnþróunarsjóðurinn aðeins veitt takmarkaðar upphæðir í því skyni, sem þarna er fjallað um, þ. e. a. s. til að auka framleiðni og hagkvæmni, og framlög hans hafa einvörðungu verið bundin við atvinnugreinar. Það hafa verið kannaðar sérstakar atvinnugreinar út af fyrir sig í heild, en hann hefur ekki talið verkefni sitt að fara ofan í vandamál einstakra fyrirtækja eða leysa úr vandamálum þeirra á þessu sviði nema þá í sambandi við ákaflega stórar umsóknir. Smærri fyrirtækjum hefur verið vísað til Iðnlánasjóðs, og fjárveitingar hans til framleiðni og bættrar stjórnunar hafa numið ákaflega lágum upphæðum og eins og ég rakti áðan fyrst og fremst verið bundnar við tiltekin vélakaup í því sambandi. Hér er hins vegar um að ræða sjóð, sem á að stuðla að auknum útflutningi iðnaðarvarnings, breyttu skipulagi og aukinni framleiðni með þeim aðferðum, sem raktar eru í 6. gr. frv., og það er enginn annar aðili en þessi sjóður, sem mundi beita sér að slíkum verkefnum. Þarna tel ég vera ekki aðeins um mikilvæg verkefni að ræða, heldur er mjög brýnt, að á þeim verði tekið án tafar.

Ég vék að því hér áðan, að ég hefði átt viðræður við ýmsa forustumenn í útflutningsiðnaði. Það gerðist skömmu eftir að eldgosið hófst í Vestmannaeyjum og þegar sérfræðingar spáðu því, að afleiðingarnar af þeim hamförum gætu leitt til þess, að útflutningsverðmæti okkar minnkuðu um 1–2 milljarða kr. Mér sýndist þá, að sá eini aðili, sem gæti fyllt upp í þetta skarð, væri útflutningsiðnaðurinn, og ég ræddi við þessa forustumenn á þeim forsendum, hvort þeir vildu ekki einbeita sér að því á þessu ári að auka útflutning sinn svo mikið, að bætt yrði eftir megni upp í þetta mikla skarð. Og eins og fram kom hjá mér, hefur reynzt vera mikill áhugi hjá þeim á því að taka á sig þetta verkefni. En til þess að það gæti orðið, verður iðnrn. og sjóður í tengslum við iðnrn. að hafa tiltækt fjármagn á þessu ári til þess að einbeita sér að þessu verkefni.

Ég er alveg sammála því, sem fram hefur komið, að þetta fyrirkomulag verður áreiðanlega ekki varanlegt. Það verður að finna heildarskipulagningu, sem gerir sjóstarfsemi í þágu iðnaðarins samfelldari en þarna yrði. Þarna er að vísu ekki um mikla breytingarmöguleika að ræða, vegna þess að Iðnþróunarsjóðurinn er sjálfstæð stofnun og honum breytum við ekki. Hins vegar væri hægt að breyta Iðnlánasjóðnum, þannig að það væri þá meira jafnvægi á milli stofnlána annars vegar og hins vegar lána, sem veitt eru í þessum sérstaka tilgangi. En ástæðan til þess, að ríkisstj. leggur til, að þessi sérstaki sjóður verði stofnaður, er, að með því er verið að leggja megináherzlu einmitt á þessi atriði, á aukna ráðgjöf, þjálfun og tækniþjónustu, á aukna framleiðni með meiri sérhæfingu í framleiðslu iðnfyrirtækja og virkari stjórnun þeirra og með því að hvetja til samvinnu og samruna í iðnfyrirtækjum með lánum eða styrkjum. Þetta er ákaflega sérhæft verkefni, en einnig ákaflega brýnt verkefni, og ég hef ekki trú á því, að að þessu yrði unnið á annan hátt en þann að leggja á þetta mjög þunga grundvallaráherzlu þegar á þessu ári og reyna að ná í ár þeim árangri, sem að er stefnt. Ég er alveg sannfærður um, ef þessi árangur næðist, ef okkur tækist að tvöfalda á næstu 12–18 mánuðum útflutning á iðnaðarvarningi, að þá mundu mörg viðhorf breytast mjög ört í okkar þjóðfélagi. Þá er ég sannfærður um, að ýmsir þeir, sem bæði í orði og ekki síður í verki hafa verið vantrúaðir á getu íslenzks iðnaðar, mundu breyta um skoðun, og ég er sannfærður um, að þá yrði auðveldara að afla fjármagns í þessu skyni en nú er. Þess vegna held ég, að með þessum aðgerðum, sem alla vega tryggja, að fjármagn í þessu skyni verði tiltækt á þessu ári langt umfram það, sem ella hefði orðið, sé stuðlað ákaflega jákvætt að þróun iðnaðarins og geti, ef skynsamlega er á haldið, stuðlað að enn örari þróun á þessu sviði.

Hv. þm. Geir Hallgrímsson vék hér dálítið að almennum atriðum og forsendum fyrir iðnþróun á Íslandi. Ég veit ekki, hvort á að fara að vekja miklar umr, um það frekar. Iðnaðurinn hér á Íslandi framleiðir, eins og ég gat um áðan, mestmegnis fyrir innlendan markað. Það eru 90% af iðnaðarframleiðslunni, sem seld eru hér innanlands. Af því leiðir, að framleiðsla í iðnaði er ákaflega háð almennri kaupgetu launafólks á Íslandi. Sú mikla aukning, sem varð eftir 1968 á iðnaðarframleiðslu, var bein afleiðing af þeirri aukningu á kaupgetu, sem þá fór sívaxandi. Iðnaðurinn hefur síðan notið þess, að þessi kaupgeta hefur haldið áfram að vaxa. Jafnvel þótt maður voni, að sú þróun haldi áfram, er þessi markaður svo þröngur, að honum eru óhjákvæmileg takmörk sett, og ef iðnaður okkar ætlar í raun og veru að berjast á þessum stóru mörkuðum, sem við erum nú orðnir tengdir, verður hann að hætta að framleiða einvörðungu fyrir markaðinn við dyrnar hjá sér, hann verður að leggja á sig þann vanda að fara að berjast á erlendum mörkuðum.

Ég á erfitt með að skilja að ástæðan fyrir því, að illa hafi gengið að selja íslenzkar vörur, sé sú, að menn hafi gagnrýnt óeðlilega milliliðastarfsemi. Ég held, að það geti enginn maður verið hlynntur óeðlilegri milliliðastarfsemi. Það þarf auðvitað að stunda sölustarfsemi eins og hvert annað eðlilegt verkefni. Gæta þarf þess vandlega, að engar annarlegar upphæðir fari til annarlegra aðila, heldur skili ágóðinn af iðnaðinum sér til atvinnugreinarinnar sjálfrar.

Hv. þm. taldi, að það ætti að breyta skattal., svo að fyrirtæki í iðnaði skiluðu hagnaði í ríkari mæli en verið hefur. Ég held, að þarna þurfi að gera æðimikið meira en það. Staðreyndin er sú, að það, sem háir iðnaði okkar ekki sízt, er þetta, sem ég rakti áðan í framsöguræðu minni, hvað fyrirtækin eru ákaflega mörg á hverju sviði. Þarna er um að ræða á fjölmörgum sviðum ákaflega mikla yfirfjárfestingu. Þessi litlu fyrirtæki búa yfir tækjabúnaði, sem nægir til að framleiða miklu meira en þau gera. Þar er búið að binda ákaflega mikið fjármagn, sem skilar hins vegar ekki nægilegum arði, vegna þess að tækin og eignirnar eru ekki nýttar eins og vert væri að gera. Ef hægt væri að stuðla að verkskiptingu og samvinnu og samruna slíkra fyrirtækja, þá leiddi það af því, að eigin eign þeirra mundi aukast að sama skapi. Og ég held, að þetta sé ekki síður brýnt en að breyta skattal. Það má vel vera, að það sé nauðsynlegt að breyta skattal., en þá yrði það fyrst og fremst að minni hyggju að vera til þess að ýta undir vaxandi útflutning, til þess að menn sæju ástæðu til að einbeita sér að því að auka útflutning á iðnaðarvarningi.

Það hefur einnig verið talað um launakostnað í þessu sambandi. Sú var tíðin, að það var talið hluti af iðnþróunaráformum fyrrv. ríkisstj., að í vissum starfsgreinum gætum við boðið upp á ódýrt vinnuafl. Af þessu var margsinnis vikið í skýrslu, sem dreift var hér á hinu háa Alþ. um iðnþróunaráform í sambandi við inngönguna í EFTA. Ég er ákaflega andvígur iðnþróun af þessu tagi, og ég held, að hún eigi á engan hátt við aðstæður hér á Íslandi. Það má vel vera, að mönnum, sem búa í stórum þjóðfélögum, þar sem fólk er illa menntað til starfa, finnst eðlilegt að útrýma atvinnuleysi með því að gefa fólki kost á að vinna gegn mjög lágu kaupgjaldi. En hér á Íslandi hlýtur það að vera meginverkefni okkar að hafa sem mest af sérmenntuðu vinnuafli, vel verki förnu, og að flytja út verkmenningu, verkkunnáttu, eins og við erum menn til. Það gera þær þjóðir, sem eru forustuþjóðir í iðnaði og hafa náð lengst á því sviði. Þess vegna held ég, að iðnaðurinn eigi ekki að einbeita sér að því að halda vinnuafli sem ódýrustu hjá sér, heldur eigi að reyna að tryggja það, að launafólk í iðnaði hafi sem beztar tekjur, enda verður naumast á annan hátt hryggt, að iðnaðurinn fái þá festu í vinnuafli, sem hann þarf mjög á að halda. Ég held, að það sé ein helzta veilan í iðnaði hér, hvað menn eru þar óstöðugir, hvað innstreymi og útstreymi er mikið á hverju ári, og úr þessu verður ekki bætt, fyrr en laun eru orðin svo góð, að mönnum sé keppikefli að starfa í iðnaði, og auk þess, að menn fái þá sérmenntun, sem þarf til iðjustarfa. Þar er ég ekki að hugsa um iðnnám, heldur hvers konar sérmenntun í sambandi við verksmiðjustarfsemi. Um þetta væri hægt að ræða lengi, en ég ætla ekki að gera það nú.

Hv. þm. Jón Árnason gagnrýndi nokkuð, að því er mér skildist, gengishagnað af iðnaðarvörum nú í fyrsta skipti. Þetta hefur ekki áður verið gert. Það er rétt, þetta hefur ekki áður verið gert. En það er til marks um það, að útflutningur á iðnaðarvarningi er nú orðinn mun meiri hlutfallslega en hann hefur nokkru sinni verið áður. Hann jókst á síðasta ári um það bil þriðjung og hefur haldið áfram að aukast á undanförnum árum. Ég held, að það sé í sjálfu sér metnaðarmál fyrir iðnaðinn, að hann geti borið gjöld af þessu tagi alveg til jafns við sjávarútveginn. Varðandi það að þeir aðilar, sem hafa orðið að borga þennan gengishagnað, hafi orðið illa úti í samanburði við aðra, þá held ég, að það sé ekki hugsað á réttan hátt. Þarna er um að ræða aðila, sem hefðu fengið óeðlilegar tekjur í sambandi við gengislækkunina í samanburði við aðra, og ástæðan til þess, að gengishagnaður er tekinn, er að koma í veg fyrir, að einstakir framleiðendur geti fengið án eigin tilverknaðar tekjur, sem þeir reiknuðu ekki með og fjölmargir aðrir atvinnurekendur fá alls ekki. Ég held, að það sé mjög eðlilegt að taka slíkan gengishagnað og leggja hann í sérstakan sjóð í þágu atvinnugreinarinnar í heild. Hitt er svo annað mál, að ég lít svo á varðandi þá, sem þarna eiga hlut að máli, að það hljóti að verða tekið tillit til þess, hvað þeir hafa greitt til þessa sjóðs, þegar farið verður að veita fjármuni úr honum.