20.03.1973
Sameinað þing: 60. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2597 í B-deild Alþingistíðinda. (1988)

302. mál, inngönguréttindi kennara í háskólanum

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Svar mitt við fsp. hv. 5. þm. Vesturl. er á þessa leið:

Með lögum nr. 67 1972, um breyt, á l. nr. 84 1970, um Háskóla Íslands, var bætt í lögin nýjum heimildarákvæðum varðandi inntökuskilyrði í háskólann. Ákvæðin eru á þessa leið:

„Háskólaráði er heimilt samkvæmt umsókn og að fengnum tillögum þeirrar deildar, er í hlut á, að leyfa skrásetningu einstaklinga, er lokið hafa öðru fullnaðarprófi frá menntaskóla en stúdentsprófi. Enn fremur er háskólaráði heimilt samkvæmt umsókn að leyfa skrásetningu einstaklinga, er lokið hafa öðru námi hérlendis með þeim árangri, er sú deild, er í hlut á, mælir með, að skapi hæfi til framhaldsnáms innan Háskóla Íslands. Enn fremur skal rektorsembættið vera þessum ráðstöfunum meðmælt, samkv. 3. málsgr. 2. gr. Raungreinadeildarpróf frá Tækniskóla Íslands veitir einnig rétt til skráningar til verkfræðináms með fyrrgreindum skilyrði. Heimilt er að setja í reglugerð ákvæði um, að ákveðin próf frá íslenzkum skólum veiti rétt til skrásetningar í tiltekið nám við háskólann, enda hafi prófin verið metin jafngildi stúdentsprófs til undirbúnings viðkomandi námi.“

Á s. l. sumri sóttu rösklega 30 námsmenn, sem lokið höfðu almennu kennaraprófi, um innritun í Háskóla Íslands. Umsóknunum var synjað af hálfu háskólans, og var í ályktun háskólaráðs um málið lýst þeirri afstöðu, að ekki væri tímabært að hverfa frá þeirri meginreglu fyrir inntöku í háskólann, að umsækjandi hefði lokið stúdentsprófi, enda hefði heildarendurskoðun á inntökuskilyrðum háskólans ekki farið fram. Af þessu tilefni fór stjórn Sambands íslenzkra barnakennara þess á leit við menntmrn. með bréfi, dags. 20. sept. s. l., að það beitti sér fyrir því, að gerður yrði samanburður á kennaraprófi, stúdentsprófi og prófi frá Tækniskóla Íslands, sem metið væri gilt til inntöku í Háskóla Íslands. Ráðuneytið ákvað að verða við þessum tilmælum. Var ákveðið að hafa þann hátt á að leita til forstöðumanna þeirra skóla, sem málin varða, um, að þeir gerðu í sameiningu till. um mann, er falið yrði að vinna umrætt verk. Í því skyni var boðað til fundar í samstarfsnefnd menntaskólastigsins, þar sem sæti eiga forstöðumenn allra þeirra skóla, er hlut eiga að máli, annarra en Háskóla Íslands. En jafnframt var óskað eftir því, að háskólarektor eða fulltrúi hans kæmi á fundinn. Á fundi þessum var samþykkt einróma að leita til Sveinbjörns Björnssonar eðlisfræðings um, að hann tæki að sér þetta samanburðarverkefni, og gert ráð fyrir, að hann starfaði í samráði við forstöðumenn hlutaðeigandi skóla. Sveinbjörn féllst á að hafa forgöngu um verkið, og er nú unnið að því. Stefnt er að því, að niðurstöður samanburðarins liggi fyrir sem fyrst og áður en yfirstandandi skólaári lýkur.

Á fundi þeim, er rætt var um hér að framan, skýrði fulltrúi háskólarektors frá því, að skipuð hefði verið innan Háskóla Íslands nefnd til þess að athuga tengsl háskólans við ýmsa aðra skóla, svo sem Tónlistarskólann í Reykjavík, Kennaraháskóla Íslands, Myndlista- og handíðaskóla Íslands og fleiri skóla, eftir því sem nefndin telur ástæðu til. Samkvæmt erindisbréfi er nefndinni m. a. ætlað að kanna, hvort nám frá tilteknum skólum veiti hæfni til háskólanáms, annaðhvort almenna hæfni eða aðeins til inngöngu í ákveðna háskóladeild eða námsbraut innan hennar, svo og hvort nám í öðrum skólum megi viðurkenna, sem þátt í námi í Háskóla Íslands. Nefndinni er ætlað að ljúka störfum fyrir maílok 1973. Menntmrn. hefur gert ráð fyrir, að álitsgerð Sveinbjörns Björnssonar varðandi kennaraprófið verði kynnt þessari nefnd háskólans.