31.10.1972
Sameinað þing: 10. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 440 í B-deild Alþingistíðinda. (212)

40. mál, fangelsismál

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég tók eftir því, að því miður gat hæstv. ráðh. ekki upplýst, hversu margir af þeim mönnum, sem bíða eftir því að afplána dóma, hafi á þeim tíma brotið af sér aftur. Ég get vel skilið, að það sé erfitt að afla þessara upplýsinga, en ég vil benda sérstaklega á, að þetta er eitt af alerfiðustu málunum. Menn, sem hafa verið dæmdir, brjóta af sér aftur og aftur, og mér hafa tjáð lögreglumenn, að sömu mennirnir komi aftur og aftur í hendur þeirra og virðist halda áfram afbrotaferli sínum í trausti þess, að þeir þurfi ekki að afplána dómana fyrr en seint og síðar meir.