27.03.1973
Sameinað þing: 62. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2811 í B-deild Alþingistíðinda. (2186)

305. mál, framleiðslulán til íslensks iðnaðar

Pétur Pétursson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð til þess að þakka hæstv. bankamálaráðh. fyrir þá aðstoð, sem hann hefur nú lýst yfir, að hann muni beita sér fyrir, að iðnaðurinn fái. Það er alveg rétt, sem hann hefur sagt, að útflutningsiðnaðurinn hefur fengið fyrirgreiðslu, a. m. k. í ýmsum tilvikum, svipaða og aðrar atvinnugreinar. En iðnaðurinn þarf almennt aukið rekstrarfé. Eðli iðnaðarins er þannig, hann er rekstrarfjárfrek atvinnugrein. Það er nauðsynlegt, að þessi mál séu tekin föstum tökum, og mér virðist fullur vilji á því hjá hæstv. ráðh. Það ætti þá að vera eftir hans ræðu réttast fyrir iðnaðarfyrirtækin að fara að taka sig saman í andlitinu, koma með vandamálin beint til ráðh., í staðinn fyrir að eyða hálfum eða heilum dögum í bönkum til að reyna að fá peninga. — Ég þakka fyrir boðið og mun koma skilaboðunum áleiðis.