28.03.1973
Neðri deild: 71. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2849 í B-deild Alþingistíðinda. (2233)

208. mál, sala Hóls í Breiðdalshreppi

Flm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Hér er á ferðinni frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til þess að selja jörðina Hól í Breiðdalshreppi í Suður-Múlasýslu þeim, sem þar eru tilgreindir. Þessi jörð er landlítil, þar eru hús léleg og engin frambúðarhús. Hún hefur verið í eyði í 4 ár og er satt að segja í hálfgerðu reiðileysi og engar líkur taldar á, að jörðin byggist.

Í bréfi oddvita hreppsnefndar kemur fram, að hreppsnefnd er samþykk þeirri ráðstöfun jarðarinnar, sem í frv. felst og þrír tilgreindir bændur í nágrenninu fara fram á. Fyrir því er hér farið fram á heimild Alþ. til þessarar jarðarsölu.

Ég vil leyfa mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til landbn.