31.10.1972
Sameinað þing: 10. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 449 í B-deild Alþingistíðinda. (227)

269. mál, áfengismál

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svörin. Í þeim kemur greinilega fram, að það er þörf á auknu búsnæði á gæzluvistarhælum og brýn þörf á því að auka skilyrði almennra spítala, auk Kleppsspítala, til hess að veita drykkjumönnum þá móttöku og þann aðbúnað, sem gildandi lög gera ráð fyrir, að þeir hljóti. Að öðru leyti ræði ég ekki svör hæstv. ráðh.

En vegna þess að hann lét í ljós ánægju, mér til mikillar ánægju, yfir því, að ég skyldi nú sýna ýmsum mannúðarmálum sérstakan áhuga, þá skal ég með ánægju gera honum þá ánægju einhvern tíma á næstunni að gera grein fyrir þeim málum, sem Alþfl. hefur beitt sér fyrir á sviði mannréttindamála og annarra félagsmála á þeim 15 árum, sem hann var í ríkisstj. Ég vona, að það komi til með að gleðja hann, þegar hann sér, hvað þau mál eru mörg og hve mikill árangur hefur náðst í þeim efnum, sem Alþfl. beitti sér sérstaklega fyrir á 15 ára stjórnarferli sínum. Annars má hæstv. ráðh. ekki tala eins og við einir, sem nú erum í stjórnarandstöðu, eigum einhverja fortíð hér í þessu þingi. Hann á sannarlega sína fortíð líka og allir þeir, sem nú sitja í ráðherrastólum og styðja hæstv. ríkisstj. Þeir fluttu ekkert smáræði af umbótatill. í þau 12 ár, sem þeir voru í stjórnarandstöðu. Nú er þeim ekkert gert verra en að minna á þessar till. Það má gjarnan gera það við tækifæri. Ég gerði það að gamni mínu, algerlega að gamni mínu, við fjárlagaafgreiðsluna í fyrra að flytja nokkrar till., sem þeir höfðu flutt við fjárlagafrv. árið þar áður. Þeir stóðust ekki reiðari, þeir urðu óðir og uppvægir, hrópuðu fram í fyrir mér, þegar ég var að mæla fyrir till., og höfðu alls konar skrípalæti í frammi. Þeir máttu ekki sjá sínar eigin till. Þeim ofbauð það óskaplega. Og auðvitað voru þær stráfelldar. Ég gerði þetta aðeins til að sýna þeim framan í sjálfa sig, sýna þeim ofboðlitla spegilmynd af sjálfum sér, meðan þeir voru í stjórnarandstöðu. Ég sé, að það er þýðingarlaust, þeir kunna ekki að skammast sín.