31.10.1972
Sameinað þing: 10. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 449 í B-deild Alþingistíðinda. (228)

270. mál, stjórnir, nefndir og ráð ríkisins

Fyrirspyrjandi (Bjarni Guðnason):

Herra forseti. Fyrir skömmu kom út skrá, er nefnist Stjórnir, nefndir og ráð ríkisins. Þessi skrá er mjög fróðleg, í henni kennir ýmissa grasa og við lesturinn vakna ýmsar spurningar. Þessar spurningar, sem vaknað hafa hjá mér, birtast að nokkru leyti í þeim spurningum, sem nú eru bornar fram til hæstv. fjmrh. um stjórnir, nefndir og ráð ríkisins á þskj. 42. Ég vil leyfa mér að lesa þessar fsp.:

„1. Er æskilegt, að fastir starfsmenn í rn. sitji í allt að 16 nefndum, stjórnum og ráðum?

2. Með hliðsjón af því, að vitað er, að meginhluti starfsins í langflestum nefndum hvílir á einum eða tveimur nm. eða jafnvel ritara n. einum, er spurt, hvort nauðsyn nefndarskipunar sé könnuð hverju sinni eða unnt sé að fela verkefnið ákveðnum ríkisstarfsmanni án nefndarskipunar.

3. Er þess gætt, að eðlilegt hlutfall sé á milli tölu nm. og umfangs þess verkefnis, sem þeim er ætlað að vinna?

4. Með hliðsjón af því, að sumir starfsmenn rn. þiggja fjórðung millj. kr. eða meira í þóknun fyrir nefndarstörf, er spurt, hvaða reglum sé fylgt við ákvörðun þóknunar fyrir slík störf, sem vitað er, að hljóta að vera unnin að miklu eða öllu leyti í vinnutíma, sem hlutaðeigandi starfsmaður tekur föst laun fyrir. Hvað er gert til að tryggja, að slíkum reglum sé fylgt, séu þær fyrir hendi?

5. Er ástæða til að launa ríkisstarfsmenn fyrir nefndarstörf, þegar þau falla undir þau verksvið, sem þeim er ætlað að vinna? Hvaða reglur gilda um þetta efni?

6. Ákveður hlutaðeigandi rn. eitt, hvaða þóknun skuli greidd fyrir störf í nefndum, stjórnum og ráðum, eða koma til aðrir aðilar og þá hverjir? Hvað er gert til að tryggja það, að eðlilegt samræmi sé á milli vinnu nm. og þóknunar til þeirra?“