02.04.1973
Neðri deild: 74. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2935 í B-deild Alþingistíðinda. (2325)

219. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Í þessu frv. um breyt. á l. um tekjustofna sveitarfélaga eru tvö efnisatriði. Hið fyrra er afleiðing af því, að breytt hefur verið ákvæðum um innheimtu söluskatts. Hann féll áður í gjalddaga ársfjórðungslega, en er nú innheimtur mánaðarlega. Samkv. l. um jöfnunarsjóð hafa sveitarfélögin fengið 1/5 af söluskattinum og hann féll í gjalddaga ársfjórðungslega, en nú telst rétt, að þetta ákvæði breytist og hann gjaldfalli mánaðarlega.

Hitt ákvæðið er um það, að þau sveitarfélög, sem ljúka ekki reikningsuppgjöri eins og til stendur og afhenda það Hagstofu Íslands á tilskildum tíma, njóti ekki fyrirgreiðslu jöfnunarsjóðs, fyrr en þau hafa kippt þessu í lag. Þetta er lagt til að beiðni Hagstofu Íslands, sem getur ekki framkvæmt eðlilega og nauðsynlega skýrslugerð um skil sveitarfélaganna, nema þau standi í skilum. En nokkur vanhöld eru á því, að sveitarfélögin gangi frá reikningum sínum eins og vera ber, og eru þess dæmi, að nokkur sveitarfélög séu nú með óuppgerða og óendurskoðaða reikninga frá 1971 og jafnvel 1970. Þetta er síðara ákvæðið í frv. og er eingöngu flutt til þess að greiða fyrir eðlilegu starfi Hagstofu Íslands varðandi uppgjör sveitarfélaganna.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta frv. Það er ekkert í því annað en þessi tvö efnisatriði, sem ég nú gerði grein fyrir. Ég legg til, að málinu verði vísað til 2. umr. og félmn.