04.04.1973
Efri deild: 82. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3019 í B-deild Alþingistíðinda. (2395)

222. mál, atvinnuleysistryggingar

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hefja almennar umr. um þetta mál og veit ekki heldur, að hve miklu leyti þess gerist þörf. Þetta frv. er alveg nýlega fram lagt, og þm. hefur naumast gefizt kostur á að lesa það. á þessu stigi málsins er því ekki einu sinni hægt að ræða það efnislega, þó að einhver atriði kunni þar að vera, sem menn vildu breyta. En ástæðan til þess að ég stend hér upp, er í rauninni aðeins ein, og það er nánast til þess að gera fsp. til hæstv. ráðh.

Það er enginn ágreiningur um það, að atvinnuleysistryggingar og atvinnuleysisbætur eru nauðsynjamál fyrir hvert siðmenntað þjóðfélag og nauðsynlegt að tryggja, að þeir, sem ekki hafa atvinnu, búi ekki við neyðarkjör. En því er ekki að leyna, að það eru mjög háværar raddir um, að atvinnuleysisbætur séu misnotaðar. Það er ekkert nýtt, að um það sé talað, en sumt af því á rétt á sér og annað ekki. Ég skal ekki nefna nein dæmi í því sambandi, þess gerist ekki þörf. En það hefur áður komið til umr., hvort hægt væri að koma í veg fyrir þetta og þá með hverjum hætti.

Það er auðvitað ljóst hverjum manni, að það er brýn nauðsyn, að atvinnuleysistryggingar verði ekki til að draga úr framtaki manna og áhuga á vinnu, eins og hæstv. ráð. kom raunar inn á í ræðu sinni. Hygg ég, aðvið séum algerlega sammála um þá skoðun og það geti ekki verið neinn ágreiningur um það. En það eru ýmis atriði, sem geta leitt til misnotkunar þessa eins og margs annars, sem út af fyrir sig er gott og nytsamlegt. Og það er auðvitað hin brýnasta nauðsyn, bæði í þessum tilfellum og öðrum, þar sem um svo mikilvæg hlunnindi er að ræða, að þau séu ekki misnotuð.

Mér er kunnugt um það, að atvinnuleysisbætur hafa beinlínis komið í veg fyrir, að menn vildu vinna verk. Það kann að vera, að með þessu frv. sé girt fyrir þá hættu með einu atriði, ef ég hef skilið það rétt og það er um það, að biðtími sé felldur niður. Ég nefni aðeins sem dæmi, að það hefur gengið erfiðlega á stöðum, þar sem hefur kannske verið nokkurt atvinnuleysi, að fá menn til þess að vinna við skammtímaverkefni, ef þeir hafa með því misst bætur og svo orðið að koma til nýr biðtími eftir bótum. Kann að vera, að þarna sé einmitt spor í jákvæða átt. Ég bið hæstv. ráðh. að leiðrétta mig, ef ég hef misskilið þetta, — því að frv. er lesið með miklum hraða, — en þetta kynni að vera jákvætt í þessa átt, að menn forðuðust t. d. ekki að skipa upp úr skipi. Ég þekki ákveðin dæmi um það, að menn hafi ekki fengizt til þess. Þeir hafa verið á atvinnuleysisbótum, en hafa með þessu kannske fengið tveggja daga vinnu og sagt: Ja, við förum ekki að rjúfa okkar bótarétt með því að fara til slíkrar vinnu. Svona atriði mega auðvitað ekki eiga sér stað.

Ég kem svo loks að fsp. Ég veit, að þetta hefur áður verið til meðferðar í ríkisstj. og viðkomandi rn., einmitt þetta atriði, að koma í veg fyrir misnotkun bótanna. Hafa einhverjar sérstakar ráðstafanir verið gerðar eða eru fyrirhugaðar, til þess að þetta eigi sér ekki stað? Þetta vekur alltaf leiðindi og má ekki eiga sér stað. Ég hygg, að það sé ekki ágreiningur á milli okkar um það, að slík hlunnindi má ekki misnota. Það spillir fyrir hlunnindunum og veldur óánægju, og auk þess fylgir því óheilbrigður hugsunarháttur og annað slíkt, sem aldrei getur verið til góðs.

Það mun, að því er ég hygg, hafa valdið nokkrum misskilningi, þegar verið er að birta mánaðarlega atvinnuleysingjatölur, sem er auðvitað hrein fjarstæða. Það eru engir menn atvinnulausir, sem vilja vinna, nema þá þeir, sem geta ekki unnið af öðrum ástæðum. Mér er að vísu sagt, að þessar tölur merki ekki það, að þetta fólk fái atvinnuleysisbætur, heldur sé það af öðrum ástæðum skráð atvinnulaust. Þetta kann að vera á einstökum stöðum, en þegar jafnvel er verið að birta skrá um atvinnulausa á stöðum, þar sem ekki er hægt að fá mann til nokkurs verks, hljómar það ákaflega ankannalega og veldur misskilningi og í rauninni kurr hjá fólki. Ég segi, að sem betur fer, þegar svona er ástatt, er ekki um neitt atvinnuleysi að ræða.

Að öðru leyti ætla ég ekki að ræða málið. Það fer í n. og kemur þá aftur til athugunar. En ég veit ekki, hvort hæstv. ráðh. vildi á þessu stigi málsins upplýsa, hvaða ráðstafanir eru gerðar til þess að tryggja það, að ekki geti orðið um misnotkun að ræða. Ég þykist alveg viss um, að hæstv. ráðh. hefur frétt af því sjálfur, að það hafi átt sér stað ýmislegt slíkt og að það sé ekki hans vilji, að eins mikilvæg hagsmunalöggjöf og hér um ræðir sé misnotuð. Það væri æskilegt að vita, hvaða ráðstafanir eru gerðar í því efni.