04.04.1973
Neðri deild: 75. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3053 í B-deild Alþingistíðinda. (2455)

223. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég get tekið undir nokkuð af því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði. En það er aðeins í sambandi við það, þegar hann er að tala um, að auka þurfi eignarhúsnæði einstaklinganna. Ég lít svo á, að þetta frv. miði að því. Það verður að vísu til að byrja með háð frumkvæði og samþykki viðkomandi sveitarstjórnar, en í framtíðinni og vonandi eftir tiltölulega stuttan tíma getur þarna verið um sjálfseignarhúsnæði viðkomandi einstaklinga að ræða, og það breytir miklu.

En svo í sambandi við það, sem hæstv. félmrh. sagði um verkamannabústaðakerfið, það er alveg rétt, eins og ég sagði áðan, það er hagkvæmasta byggingarkerfið til þess að byggja eftir. Það er enginn vafi á því. En gallinn er bara sá við það kerfi, eins og það er núna sniðið, að þar ráða ekki einstaklingarnir því, hvort verður byggt eða ekki byggt. Það var með breytingum frá 1970 lagt á herðar viðkomandi sveitarstjórna, sem sennilega, eins og kannske er eðlilegt, hafa mismunandi viðhorf til þessara mála, hvort farið verður út í framkvæmdir eða ekki. Þess vegna er ekki um að ræða, að einstaklingarnir sem slíkir taki ákvörðun um það, hvort þeir byggja eftir því kerfi eða ekki. Það verður fyrst og fremst á valdi sveitarstjórnanna, hvaða viðhorf þær hafa til þessara mála á hverjum tíma. En hitt er rétt, að það kerfi er langhagkvæmast fyrir íbúðabyggjendur. Og ég tek undir það, sem hér hefur komið fram og kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, — en þess hefðu hans flokksbræður mátt minnast fyrr, — að það hefði fyrr mátt taka upp þá stefnu að veita hærri íbúðalán til íbúðabyggjenda úti um landsbyggðina. En það er alveg rétt, það ætti að gera það og hefði fyrir löngu átt að vera búið að því.