06.04.1973
Neðri deild: 79. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3150 í B-deild Alþingistíðinda. (2603)

122. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1973

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Þegar þetta frv. var til umr. í hv. fjh.- og viðskn. þessarar d., var það harðlega gagnrýnt af hálfu okkar stjórnarandstæðinga, að n. væri ætlað að afgreiða frv., sem fjallar um áætlun um 11—12 hundruð millj. kr. opinberar framkvæmdir utan fjárlaga og fjáröflun til þeirra, án þess að fyrir lægju upplýsingar um það, hvaða framkvæmdir sjálf ríkisstj. ætlaði að draga saman samkv. heimild veittri í fjárlögum, og án þess að fyrir lægju upplýsingar um það, hver yrðu útlán opinberra fjárfestingarsjóða og hvernig fjár til þeirra skyldi aflað. Þessa gagnrýni lét meiri hl. n. sem vind um eyru þjóta og vildi afgreiða málið. Við þm. Alþfl. töldum þetta óhæfu, og lýsti ég því yfir fyrir hönd flokksins í nál., að flokkurinn myndi ekki taka þátt í afgreiðslu málsins og sitja hjá við meðferð þess.

Þetta var líka harðlega gagnrýnt af okkur fulltrúum stjórnarandstöðunnar við 2. umræðu málsins. Þá var lítið talað af hálfu hæstv. ríkisstj., en hún hefur þó látið sér nokkuð segjast, og ber að fagna því, svo langt sem það nær. Nú í upphafi 3. umr. lagði hæstv. ríkisstj. fram áætlun um fjárfestingarsjóðina, hver útlán þeirra skuli vera og hvernig fjár til þeirra skuli aflað. M.ö.o. gagnrýni okkar stjórnarandstæðinga í n. og við 2. umr. hefur þó borið þennan árangur. Nú fáum við upplýsingar um það, hvernig fjármagna á hina opinberu fjárfestingarsjóði og hvernig útlánum þeirra á að vera háttað, en um hitt þegir hæstv. ríkisstj. enn, hvernig hún ætlar sér að draga saman útgjöld á fjárlögum. Um það fær þingið enn ekkert að vita. Enn stendur þess vegna, að ósæmilega er staðið að þessu máli af hálfu hæstv. ríkisstj. og þó sérstaklega af hálfu hæstv. fjmrh.

Þar sem ákveðið hefur verið, að umr. ljúki ekki í dag, heldur muni fram haldið á mánudaginn, mun ég ekki gera að umtalsefni þær upplýsingar, sem dreift var meðal þm. nú á þessum fundi, þ.e. um fjárfestingarsjóðina, heldur láta umr. um það bíða til mánudagsins. En ég get ekki stillt mig um það að vekja athygli á því, að í lok ræðu minnar við 2. umr. gerði ég tvö atriði, sem snerta efnahagsmál almennt, að umtalsefni. Ég vakti athygli á tveimur röngum staðhæfingum, sem hampað hefði verið hvað eftir annað, sérstaklega af hálfu tveggja ráðh., hér í d. á undanförnum vikum og jafnvel mánuðum — staðhæfingu um það, að verðbólguvöxtur hafi farið minnkandi í tíð hæstv. ríkisstj. og staðhæfingunni, að lífskjör hefðu aldrei batnað meir á Íslandi en í tíð núv. hæstv. ríkisstj. Þessar staðhæfingar hafa síðan blöð hæstv. ríkisstj. endurtekið í sífellu á undanförnum vikum. Ég sýndi fram á það, að báðar staðhæfingarnar eru rangar. Ef tekið er allt það tímabil, sem núv. stjórnarflokkar voru í stjórnarandstöðu, þ.e. frá 1. jan. 1959 til miðs árs 1971, þá hefur vísitala hækkað á ársgrundvelli að meðaltali um 9,7%. Hæstv. fjmrh. viðurkenndi þessa tölu í ræðu sinni áðan, enda ekki við öðru að búast, þar sem hún er auðvitað rétt. En frá því að ríkisstj. kom til valda um mitt ár 1971 og til 1. febr. s.l. hefur vísitalan hækkað á ársgrundvelli um 10,8%, miðað við 9,7%, meðan þessir flokkar voru í stjórnarandstöðu. Ég skoraði á ritstjóra stjórnarblaðanna, sem hafa haldið hinu öfuga fram, að verðbólguvöxturinn hefði verið minni í tíð núv. ríkisstj. en í tíð fyrrv. ríkisstjórnar, að skýra frá þessum staðreyndum, skýra frá sannleikanum í málinu í staðinn fyrir að halda áfram að hampa ósannindum, eins og þeir hafa gert undanfarnar vikur. Nokkrir dagar eru liðnir síðan. Á þetta hefur ekki verið minnzt í neinu af stuðningsblöðum hæstv. ríkisstj. Þannig er sannleiksástin á bænum þeim.

Ég vek athygli á því, að hæstv. ráðh. hefur viðurkennt þessar tölur. Hann sagðist viðurkenna, að þær væru réttar. Kannske er þá von á því, að eitthvað verði frá þeim sagt í blöðum stjórnarflokkanna og lesendur þeirra blaða fái loks að vita það sanna og rétta í málinu. En hæstv. ráðh. sagði, að fyrri talan gæfi ekki alls kostar rétta mynd, vegna þess að þar er árið 1959 tekið með, en það var stjórnarár minnihlutastjórnar Alþfl. Það er rétt, það er tekið með. Því ekki að taka það með? Ég tala fyrir hönd Alþfl. og auðvitað lýsi ég ástandinu á þeim tíma, sem Alþfl. var í stjórn, frá árslokum 1958 þangað til á miðju ári 1971. Hvað er eðlilegra? Má ekki heildartalan njóta góðs af því, að það var sérstaklega góð stjórn í landi árið 1959? Það er ekki nema sanngjarnt. Jafnvel þótt þessu ári sé sleppt, hafa verið 11,1 % — ég vek athygli á þessu — og bar ekki á móti tölunni 10,8 síðan núv. stjórn tók við völdum og til 1. febr., en 11,1 % áður. Meiri er munurinn ekki. Það er um 11 % á báða kantana. og samt hefur verið haldið fram viku eftir viku hér á Alþ. og í blöðum, að verðbólguvöxturinn sé miklu, miklu minni í tíð hæstv. núv. ríkisstj. Nú kemur sjálfur fjmrh. og segir: Eins og ég hef reiknað þetta, þá var hann 11,1 % í tíð stjórnar Sjálfstfl. og Alþfl., en í sinni tíð viðurkennir hann að verðbólgan sé 10,8%, þ.e. til 1. febr. s.l. Þetta er nú allt og sumt, þetta er grundvöllurinn undir óteljandi staðhæfingum um það, að ríkisstj. hafi ekki bara stöðvað verðbólguhjólið, heldur stórum dregið úr verðbólguvextinum.

Ég gat um það síðan, að þróunin stöðvaðist ekki 1. febr. s.l. Verðbólguvöxturinn hefur verið 10,8% í tíð núv. ríkisstj. Þessi einkunn hennar er miðuð við 1. júlí 1971 og 1. febr. 1973. En nú er kominn apríl og hagstofan hefur áætlað, hversu verðbólguvöxturinn þessar vikurnar sé mikill. Hún er búin að áætla, hver vísitalan verði a.m.k. 1. maí n. k. Hún hefur áætlað, að þá muni hún verða 430 stig, miðað við 336 1. júlí. M.ö.o. ef reiknaður er verðbólguvöxturinn frá 1. júlí til 1. maí af verðlagi 1. júli 1971 og verðlagi, sem við vitum að verður a.m.k. 1. maí 1973, þá er verðbólguvöxturinn á ársgrundvelli 14,4%. Þessu getur enginn á móti mælt, að er rétt miðað við áætlanir hagstofunnar. M.ö.o. þó að ég gefi hæstv. ráðh. það eftir að miða við samstjórn Alþfl.—Sjálfstfl., þá var samkvæmt hans eigin orðum verðbólguvöxturinn ekki meiri en 11,1°%, en hann er nú orðinn hjá núv. ríkisstj. 14,4%. Þá geta menn séð, hvort hægt er að halda áfram að halda því fram, að núv. ríkisstj. hafi stöðvað vöxt verðbólgunnar. Nei, snúningshraðinn er meiri á verðbólguhjólinu nú en hann var, hvort sem miðað er við stjórnartíð Alþfl. og Alþfl.—Sjálfstfl. eða Alþfl.—Sjálfstfl. eingöngu. Þetta eru ómótmælanlegar staðreyndir, og er tími kominn til þess, að þær komist inn í stjórnarblöðin, a.m.k. núna eftir að hæstv. fjmrh. hefur viðurkennt, að þær séu réttar. Það ætti að verða óhætt að skýra frá þessu. Það er einhver sérstök feimni, ef frétt þessi kemst ekki enn til lesenda stjórnarblaðanna. Þá er eitthvað sérstaklega undarlegt á ferðinni.

Varðandi hitt atriðið, að kjarabæturnar hafa aldrei orðið meiri en á tíma þessarar hæstv. ríkisstj. þá hef ég líka leiðrétt það með því að vitna í rit hagrannsóknadeildar Framkvæmdastofnunarinnar, þar sem það kom fram, að ráðstöfunartekjur heimilanna, sem eru rauntekjur almennings, hafi vaxið um 30,8% 1970, en ekki nema um 28% 1972 — 30,8% á síðasta heila ári fráfarandi stjórnar, en ekki nema um 28% á fyrsta heila ári núv. ríkisstj. Þessar tölur viðurkenndi hæstv. ráðh. einnig, enda er ekki hægt annað, þær eru prentaðar eftir sjálfri hagrannsóknadeild Framkvæmdastofnunarinnar, og hún reiknar auðvitað rétt. Það er því mál til komið, að þessi fregn berist líka til lesenda stjórnarblaðanna, eftir að hæstv. fjmrh. hefur viðurkennt, að þessar tölur eru réttar. Það eina, sem hann hafði um þetta að segja, var það, að ekki mætti bera árið 1970 saman við 1972, vegna þess, að árið 1970 hafi verið fyrsta árið eftir atvinnuleysisár, þess vegna væri það ósambærilegt við árið 1972. Með alveg sama hætti mætti þá segja: Það má ekki bera árið 1970 saman við 1972, vegna þess að árið 1972 er mesta verðhækkunarár, sem þjóðin hefur lifað. Ég var ekki að gera neinn fyrirvara í þá átt. Verðlag á íslenzkum afurðum hefur aldrei hækkað eins mikið á einu ári og 1972. Ég var ekkert að draga úr teknahækkuninni af þeim sökum. Hvert ár hefur sín sérkenni, og um það mætti halda langa ræðu, hver hafa verið sérkenni ársins 1970. Ég sleppi því alveg. Ég ber bara saman staðreyndir, óvéfengjanlegar tölur um árin, og þær eru svona, að á árinu 1972 hækkuðu ráðstöfunartekjur heimilanna minna en þær höfðu gert á árinu 1970. Eftir þetta er ómögulegt að halda áfram að halda því fram, ef menn meta sannleikann nokkurs, að kjarabætur hafi aldrei orðið meiri en í tíð núv. ríkisstj. Þær voru m.a. meiri á síðasta árinu, áður en þessi hæstv. ríkisstj. kom til valda. Það er kominn tími til þess að almenningi í landinu sé sagður sannleikurinn um þetta mál, en hann ekki mataður stöðugt á ósönnum yfirlýsingum hæstv. ráðh. um jafnmikilvæg atriði og hér er um að ræða. Þetta vildi ég aðeins segja í þetta skipti í tilefni af ræðu hæstv. fjmrh.

Um þær skýrslur, sem útbýtt var í dag, mun ég ræða nánar á mánudaginn kemur, þegar framhaldsumr. verður um málið.