09.04.1973
Neðri deild: 83. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3246 í B-deild Alþingistíðinda. (2723)

169. mál, heilbrigðisþjónusta

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég skal ekki að þessu sinni lengja mikið umr. um það mál, sem hér er á dagskrá. Það þyrfti þó raunar engan að undra, þótt bæði margar og kannske langar ræður væru fluttar hér á hv. Alþ., þegar til umr. er svo veigamikið mál sem hér liggur nú fyrir. Frá því að þetta frv. var lagt fram hér á Alþ. og þar til nú hefur það vissulega tekið miklum breytingum og að því er ég hygg hafa margar orðið til hins betra og sumar verulega. Það er hins vegar öllum ljóst, að þegar rætt er um jafnviðamikið mál og hér er til umr., þ.e.a.s. heilbrigðisþjónustuna í landinu, þarf það vart að koma mönnum á óvart, þó að margar og misjafnar skoðanir komi fram hjá hv. alþm. Þetta frv. hefur, auk þess sem það hefur verið rætt mikið á Alþ., hlotið, að ég hygg, allverulegar umr. í hinum ýmsu héruðum á landsbyggðinni. Ég hygg, að almennt sé það álit manna, þó að ýmislegt sé í þessu frv., sem menn vildu á annan veg, að það væri til mjög mikilla bóta, ef þetta mál næði fram að ganga nú á þessu þingi.

Ég ætla ekki að þessu sinni að fara út í þær mörgu breytingar, sem orðið hafa á frv., frá því að það var hér lagt fram. Það er, að ég hygg, óþarfi. Ég ætla ekki heldur að fara að telja upp ýmislegt það, sem enn er í frv. og ég teldi, að mætti betur fara. Ég tel, að meginatriðið sé það, að grundvallarstefnan, sem í frv. felst, nái fram að ganga og málið geti orðið að lögum nú á þessu þingi.

Það er þó sérstaklega eitt atriði, sem hefur verið allt frá fyrstu tíð allmikill þyrnir í mínum augum í þessu frv., en þar á ég við þann kafla frv., sem fjallar um staðsetningu og búnað sjúkrahúsa. Ég er einn þeirra sennilega mörgu, sem telja óæskilegt, að ráðh. sé fengið í hendur. slíkt vald að ákvarða bæði staðsetningu og búnað sjúkrahúsa víðs vegar um landsbyggðina. Ég segi þetta ekki vegna þess, að ég sé að vantreysta hæstv. núv. heilbrmrh, né öðrum þeim ráðh., sem til kæmu að fjalla um málið, verði það að lögum óbreytt, heldur vegna þess, að ég tel, að það þurfi að búa svo um hnúta allt frá fyrstu hendi, að það sé tryggt alveg ótvírætt, að víðs vegar úti á landsbyggðinni eigi landsmenn kost á því að njóta heilbrigðisþjónustu eins og framast er unnt að veita.

Ég sagði áðan, að þetta atriði hefði verið hvað mest Þrándur í Götu þess, að ég hefði getað fellt mig við frv., eins og það kom fram. Auk þess eru ýmsar aðrar breytingar, sem ég hefði viljað gera á frv. umfram það, sem hv. heilbr.— og trn. hefur nú gert með sínum störfum. Í framhaldi af þessu lagði ég fram brtt. við 2. umr. þessa máls varðandi það atriði, sem ég hef nú getið um, sjúkrahúsin. Þessa till. dró ég að ósk formanns heilbr.– og trn. til baka til 3. umr., og sé ég á brtt. hv. n., að þar hefur verið tekið upp, a.m.k. efnislega, fullkomlega það, sem ég taldi, að inn þyrftu að koma, að vísu er breytt orðalagi, og með tilliti til þessa, að hv. þn. hefur tekið upp í sínum brtt. við frv. efnislega mína brtt., dreg ég mína till. að sjálfsögðu til baka.

Ég sagði áðan, að ég skyldi ekki orðlengja mikið um frv. Ég hef lýst því, að í grundvallaratriðum tel ég, að það stefni í rétta átt, en eins og ég sagði áðan, er ábyggilega svo um marga fleiri en mig, að það er ýmislegt enn í frv., sem menn vildu gjarnan hafa kosið á annan veg en það lítur nú út fyrir að verða. Ég ætla aðeins, áður en ég lýk máli mínu nú, að lýsa sérstakri ánægju minni yfir því, að heilbr.– og trn. hefur tekið inn í sínar brtt. nú á síðasta stigi málsins viðbót við 36. gr., sem er um það, að þau umdæmi, þar sem erfitt er að halda uppi heilsugæzlu, skuli hafa forgang um byggingu heilsugæzlustöðva. Þetta var til umr. hér við 2. umr. málsins, og að vísu lýsti hæstv. heilbrmrh. því yfir þá, að þetta væru hans hugmyndir, og ég fagna því mjög, að það skuli vera undirstrikað í brtt. heilbr.— og trn