09.04.1973
Neðri deild: 83. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3277 í B-deild Alþingistíðinda. (2742)

241. mál, veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég skal nú ekki mikið blanda mér í efnislegar umr. varðandi þetta mál. En að því er lýtur að því síðasta, sem hv. 2. þm. Vestf. sagði hér áðan, að allir flokkar ættu fáa fulltrúa hér inni, þá á nú einn flokkurinn hér 50%, og það væri betur setinn bekkur, ef allir flokkar ættu slíka tölu hér inni. En ég er hissa á því, ef hv. 2. þm. Vestf. hefur ekki verið ljóst, hvaða friðun aðrir landsfjórðungar fengju samkv. till. n., sem reiknað var með að kæmu, því að það var honum, að ég hygg, alveg fullljóst. En ég tek alveg undir það og ég er sama sinnis og hann í sambandi við útfærslu fyrir Vestfjörðum, að ég hefði mjög gjarnan óskað þess, að þar hefði verið fært út í 20 sjómílur. (MB: Er þm. þá farinn að trúa þessu?) Ég er alveg sammála honum um það. Ég veit það, Matthías Bjarnason, að þú vissir um, hvaða till. yrðu gerðar víðs vegar í kringum landið. En það getur vel farið svo, að með þeim ákvæðum, sem sett eru inn í heimildum til ráðh. að ákveða friðunarsvæði og skiptingu veiðisvæða milli veiðarfæra, og það væri betur, að Vestfirðir fengju kannske eins mikla friðun með þeirri aðferð og hinni að færa út í 20 mílur, þó að ég persónulega hefði talið, að það væri miklum mun æskilegra. En það er rétt, eins og hér hefur komið fram, að á þetta var fallizt til samkomulags.

Ég kvaddi mér hér hljóðs aðallega og fyrst og fremst vegna ræðu hv. 10. þm. Reykv., ekki vegna þeirra skoðana, sem hann hafði efnislega til málsins, heldur fyrst og fremst vegna þeirrar herfilegu rangtúlkunar, sem hann hafði í frammi að því er varðaði samskipti n. við hina einstöku þm. hinna einstöku kjördæma. Það er rangt, sem hann sagði hér áðan, að sú n., sem hér um ræðir, hafi ekki haft allnokkurt samband við þm. allra kjördæma í landinu, og það er rangt, sem hann sagði, að þm. Reykv. hafi verið boðaðir á fund með tiltölulega skömmum fyrirvara. Þeir voru boðaðir á fyrri fundinn með nægilegum fyrirvara. En þá komu ýmis atvik í veg fyrir það, að þeir sjálfir gætu mætt, og þeim fundi var frestað að þeirra eigin beiðni og haldinn á þeim tíma, sem þeir óskuðu. Og í öðru lagi sagði hv. þm., — og þau ummæli hans vöktu furðu mína, — að það væri óeðlilegt, hvað þessi hv. n., sem hér um ræðir og hlotið hefur nafnið fiskveiðilaganefnd, virtist hafa hugsað sér víðtækt vald sér sjálfri til handa. Og þar átti hann við það, að frsm. og formaður n. mun hafa lagt til, að málinu væri vísað til þessarar n. til frekari meðferðar. Ég lýsi furðu minni á þessum ummælum þessa hv. þm., vegna þess að á síðari fundinum, sem haldinn var að beiðni Reykjavíkurþm. sjálfra, var þetta einmitt rætt, og þessi hv. þm., 10. þm. Reykv., lýsti því yfir á þessum fundi, að hann teldi þetta mjög skynsamleg vinnubrögð, og ég hygg, að þeir aðrir þm., sem á þessum fundi voru, bæði þm. Reykv., svo og aðrir þm. úr n., muni þessi orð þessa hv. þm., þannig að það hafa furðulega mikil umskipti orðið á hans hugarfari, að því er þetta varðar, frá því er þessi fundur var haldinn.

Ég er ekkert hissa á því, þó að aðrir þm., sem ekki hafa haft nasasjón af því, að þetta mundi kannske verða lagt til, þó að þeir séu kannske undrandi á þessu og lýsi vanþóknun á því. Það er kannske eðlilegasta og þinglegasta meðferðin, að málið fari til sjútvn. En þetta var rætt á þessum fundi með þm. Reykv., og þessi hv. þm. lýsti þessari afstöðu sinni þar. Og þá sagði þessi hv. 10. þm. Reykv. líka, að hann mótmælti því algerlega, að þetta mál yrði ekki sent til umsagnar þeim hagsmunaaðilum, sem ættu kröfu til að fá málið til umsagnar. Ég tel, að þeir hagsmunahópar, sem hér um ræðir, hafi fylgzt með málinu svo að segja frá byrjun. Það voru haldnir fundir í hverju kjördæmi landsins, þar sem þessir hagsmunahópar hafa átt a.m.k. kost á að koma sínum aths. og óskum á framfæri, og það hefur verið rætt við hina ýmsu hagsmunahópa, eftir að málið var komið á síðara stig. (Gripið fram í.) Það er þannig ljóst, að þessi hv. þm. fer hér vísvitandi með ósannindi. (PS: Það ert þú, sem ert að skrökva um annað.) Hann kvartaði líka undan því, að því er mér virtist, að þessi hv. fiskveiðilaganefnd væri andvíg því, að hann og aðrir þm., sem vildu gagnrýna málið, gætu gert það. Það er síður en svo. Það er engin ástæða til þess að hræðast neina gagnrýni, hvorki frá þessum hv. þm. né öðrum þeim, sem svipaðs sinnis eru, að því er varðar þessi mál, því að mergurinn málsins og eins og rauður þráður í gegnum alla ræðu þessa hv. þm. voru sárindi, fyrst og fremst vegna þess, að fiskveiðilaganefndin taldi sér ekki fært að taka undir þær óskir, sem þessi hv. þm. ásamt öðrum fleiri hafði fram borið að því er varðar að opna fyrir togveiði í Faxaflóa. Og ég skal ekkert ásaka þennan hv. þm. fyrir þá skoðun hans. En það á ekki að koma fram í ósannindum, að því er varðar aðra þætti málsins og þau vinnubrögð, sem viðhöfð hafa verið. Þar ætti þessi hv. þm. að sjá sóma sinn í því að segja satt og rétt frá og standa við þau orð, sem hann hefur sagt og margir menn eru heyrnarvottar að.

Eins og ég sagði áðan, ætla ég ekki að fara að ræða efnislega þetta frv. hér. Ég hygg, að a.m.k. allflestir þm. séu betur inni í málinu en hv. 10. þm. Reykv. vildi vera láta. Ég veit, að hann veit betur og hefur fylgzt með málinu betur en hann vill vera láta. Ég skal því ekki fara frekar út í umr., nema tilefni gefist til, en ég taldi nauðsynlegt, að þetta kæmi hér fram, vegna þessara margendurteknu yfirlýsinga þessa hv. þm.