11.04.1973
Neðri deild: 86. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3360 í B-deild Alþingistíðinda. (2900)

240. mál, heimild fyrir ríkisstjórnina til að selja nokkrar eignir ríkissjóðs

Frsm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Fjh.— og viðskn. flytur þetta frv. að ósk fjmrn. Ástæðurnar fyrir því, að þetta frv. er flutt, eru þær, er nú skal greina :

Dánarbú Andrésar Johnsons í Ásbúð í Hafnarfirði, en Þjóðminjasafnið var einkaerfingi hans, hefur aldrei verið gert upp fyllilega, að því leyti, að húseignin Ásbúð, Ásbúðartröð 1, og viðkomandi leigulandi hefur ekki verið ráðstafað eins og ráð var fyrir gert í upphafi. Fyrirhugað hafði verið, að Hafnarfjarðarbær keypti landið, enda þarf hann á því að halda í framtíðinni vegna skipulags í þessum bæjarhluta. Húseignin er mjög hrörleg orðin og bíður aðeins niðurrifs. Þykir eftir atvikum rétt, að Hafnarfjarðarbæ verði boðin eignin til kaups. Þetta er varðandi 1. gr. frv.

Eignin Smiðjuvegur 17, Kópavogi, er eign Landnáms ríkisins og var notuð undir verkstæðisrekstur þeirrar stofnunar. Sá rekstur hefur nú verið sameinaður verkstæðisrekstri Vegagerðar ríkisins, og eru því ekki lengur not fyrir fyrrgreinda eign. Þetta varðar 2. gr.

Eignin Skeljanes 10 var seld ríkissjóði árið 1944, en hefur aldrei verið nýtt. Þykir rétt, að aflað sé heimildar til sölu á henni. Þetta er varðandi 3. gr. frv.

Fjh.— og viðskn. flytur þetta frv., og ég geri a.m.k. ekki till. um, að málinu sé vísað til nefndar.