13.04.1973
Efri deild: 93. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3485 í B-deild Alþingistíðinda. (3013)

223. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Mér þykir rétt að segja nokkur orð um þetta mál þegar við 1. umr.

Eins og hæstv. félmrh. lýsti, varðar þetta frv. tvö atriði. Í 1. mgr. 1. gr. frv. er gert ráð fyrir, að hin almennu íbúðarlán byggingarsjóðs ríkisins verði 800 þús. kr. á íbúð og hækki um 200 þús. úr 600 þús. kr. Ég hef fyrr á þessu þingi borið fram þáltill. um, að þessi upphæð verði hækkuð úr 600 þús. kr. í 900 þús. kr., en samkv. gildandi l. hefur húsnæðismálastjórn heimild til slíkrar hækkunar með samþykki félmrh. Þessi þáltill. var borin fram í des. s.l. og hafði þau góðu áhrif, að rétt stjórnvöld fóru að rumska og hækkuðu upphæðina úr 600 þús. kr. í 800 þús. kr., eins og hér er lagt til til staðfestingar. Ég hef bent á áður í sambandi við þessa umgetnu þáltill. mína, að hér sé ekki nóg að gert, vegna þess að raungildi íbúðarlánanna minnki, þ.e.a.s. íbúðarlánin séu eftir þessa hækkun ekki eins mikill hluti af byggingarkostnaði íbúðar og var, þegar 600 þús. kr. voru ákveðnar í maí 1970. Og ég hef haldið því fram, að það ætti að vera hægt að hækka þetta hámark íhúðarlánanna til samræmis við byggingarkostnað án þess að efla tekjustofna byggingarsjóðsins, vegna þess að um leið og byggingarkostnaðurinn hækkar, hækka þær fjárhæðir, sem gildandi tekjustofnar veita byggingarsjóði ríkisins. Ég á þar við launaskattinn og skyldusparnaðarféð. Hæstv. félmrh. hefði því átt að gegna þeirri frumskyldu sinni í fyrsta lagi að gera ráðstafanir til þess, að lánin hækkuðu í samræmi við hækkun byggingarvísitölunnar, eins og gildandi lög gera ráð fyrir. Og fyrst hann hefur látið það farast fyrir, hefði hann átt að sjá sóma sinn í að gera þá bragarbót að leggja það til nú í þessu frv. En hvorugt gerir hæstv. ráðh. Ég geri ráð fyrir því, að hann muni standa hér upp á eftir og segja, að það sé ekki til fjármagn til slíkra ráðstafana, því að ekki skorti hann viljann.

En víkjum þá að spurningunni um fjármagnið. Hæstv. ráðh. var ekki lengi búinn að vera í sinni núverandi stöðu sem æðsti maður húsnæðismálanna, þegar hann fór að lofa því, að hann mundi beita sér fyrir eflingu tekjustofna byggingarsjóðs ríkisins. Hann marglýsti þessu yfir á síðasta Alþ. og sérstaklega á síðustu dögum þingsins, þegar hann kom þá, eins og nú, í þessa hv. d. og ætlaðist til þess, að d. afgreiddi svo veigamikil mál sem húsnæðismálin í einu hendingskasti. Það eru einhver álög á þessum hæstv. ráðh. að koma með hin þýðingarmestu mál í hans málaflokki undir slíkum kringumstæðum. Ég skal ekkert segja, hvað veldur, en það er ástæða til að mótmæla slíkum vinnubrögðum.

En hvað um fjármagnsmöguleika byggingarsjóðs ríkisins? Á síðasta Alþ. lýsti hæstv. félmrh. því yfir, að það væri stórkostleg vá fyrir dyrum í þessum efnum, það vantaði hvorki meira né minna en 500 millj. kr. í byggingarsjóð ríkisins á árinu 1972, til þess að hann gæti staðið við eðlilegar skuldbindingar. Og hæstv. ráðh. átti ekki nægilega stór orð til þess að áfellast viðskilnað viðreisnarstjórnarinnar í þessum efnum. Það mátti til sanns vegar færa, að það væri ekki góður viðskilnaður, ef svo var gengið frá tekjustofnum byggingarsjóðs ríkisins, að slíkar upphæðir vantaði. En á þessu hamraði hæstv. félmrh. og gaf auðvitað loforð á báðar hendur um, að úr þessu yrði bætt. Þetta var á síðasta þingi. Á núv. þingi snýr hæstv. ráðh. algerlega við blaðinu og flytur mikla ræðu um það í Sþ. í febr. s.l., hve vel hann hafi staðið sig í húsnæðismálunum, það hafi verið hægt að fullnægja á árinu 1972 öllum eðlilegum umsóknum á eðlilegum tímum um lán úr byggingarsjóði ríkisins. Og auðvitað vildi hæstv. ráðh., að honum væri þakkað fyrir þetta. En hann gleymdi auðvitað að geta þess eða hugsaði kannske ekkert út í, að það, sem hafði raunverulega verið afrekað á árinu 1972 í þessum efnum, var gert að óbreyttri löggjöf hvað snertir tekjustofna byggingarsjóðs ríkisins, þannig að allt, sem hann hafði sagt á fyrra þingi um viðskilnað viðreisnarstjórnar í þessum efnum, reyndist fleipur eitt, því að staðreyndirnar töluðu sínu máli. Hæstv. ráðh. skýrði frá því á þessu þingi, að með óbreyttum tekjustofnum hefði verið hægt að gegna eðlilegri útlánaskyldu byggingarsjóðs ríkisins.

Nú finnst mér, þó að ekki væri nema með tilliti til þessa, sem ég hef nú greint frá, að hæstv. ráðh. beri nokkur skylda að gera hv. d. nokkra grein fyrir því, hvernig þessi mál standa nú, og geri grein fyrir því, hvers vegna hann leggur til, að raungildi íbúðarlánanna víki frá því, sem var 1970, þrátt fyrir það að augljóst er, að um leið og byggingarvísitalan hækkar, dýrtíðin vex, afla aðaltekjustofnar byggingarsjóðsins hærri fjárhæða til ráðstöfunar. Mér finnst, að hæstv. ráðh. geti ekki komizt hjá því að gera nokkra grein fyrir þessu máli.

Ég sagði í upphafi máls míns, að ég ætlaði að segja aðeins nokkur orð hér við 1. umr. Ég læt því þetta nægja um þetta atriði. En ég get ekki látið vera að víkja einnig nokkrum orðum að efni 2. mgr. 1. gr. þessa frv. Það er, eins og hæstv. ráðh. gerði grein fyrir, um það, að sveitarfélög verði aðstoðuð við byggingu leiguíbúða, það verði gert með því að veita þeim í því skyni 80% lán miðað við byggingarkostnað og lánin verði til 33 ára og afborgunarlaus fyrstu 3 árin, en endurgreiðist síðan á 30 árum, þ.e.a.s. hér gilda sams konar kjör og um byggingar framkvæmdanefndar byggingaráætlunar ríkisins í Breiðholtinu.

Hæstv. ráðh. sagði hér áðan, að oft hefði verið talað um að greiða fyrir sveitarfélögum um byggingu leiguíbúða. Þetta er rétt. Það hefur oft verið rætt um þetta, og m.a. á Alþ., og hæstv. ráðh. sagði, að í málefnasamningi ríkisstj. væri gert ráð fyrir aðgerðum í þessu efni. En hæstv. ráðh. gleymdi að geta þess, að á síðast Alþ. var samþ. þáltill. þess efnis, að ríkisstj. legði fyrir Alþ. frv. til l. um útvegun fjármagns og útlán þess til sveitarfélaga og annarra þeirra aðila, sem byggja vilja leiguíbúðir. Þetta samþykkti síðasta Alþ. Það var engin tilviljun, að þetta átti ekki einungis við sveitarfélögin, heldur alla aðra aðila, sem höfðu áhuga, vilja eða getu til þess að byggja leiguíbúðir. Það fór fram sérstök atkvgr. í Sþ. um, hvort það væri vilji Alþ., að fyrirhugaðar ráðstafanir væru einungis bundnar við sveitarfélög eða við alla byggingaraðila. Við hv. 1. landsk. þm. bárum fram brtt. við þáltill. um þetta efni, þar eð till. gerði upphaflega ekki ráð fyrir þessu. En það kom fram skýr vilji Alþ. í þessu efni. Það var ekki óeðlilegt, vegna þess að svo sjálfsagt sem það er að aðstoða sveitarfélög í þessu efni, kann að vera, að sveitarfélögunum komi enn betur, að það sé möguleiki fyrir aðra aðila að vinna þetta sama verk. Í sjálfu sér er það ekkert kappsmál fyrir sveitarfélögin sjálf að standa í slíkum framkvæmdum og taka á sig fjárhagslegar skuldbindingar í þessu efni fram yfir það, sem sveitarfélögin þurfa að standa undir. Þess vegna kann það að vera bjarnargreiði við sveitarfélögin að hafa ekki opinn möguleika til þess, að allir aðilar geti notið þessarar aðstoðar, sem hér er lagt til, að verði veitt.

Nú vil ég spyrja hæstv. ráðh.: Er það kannske svo, að honum hafi sézt yfir yfirlýstan vilja Alþ., eins og hann kom fram á síðasta þingi, og þess vegna láðst að bera fram frv. sitt eins og Alþ. lagði fyrir, hvað þetta varðar? Eða er það af ásettu ráði, sem hæstv. ráðh. leyfir sér að hunza svo ákveðinn vilja hv. Alþ., eins og hann kom fram á síðasta þingi? Hvað liggur þá til grundvallar flutningi þessa frv., ef það er svo úr garði gert, að það kann að vera, að það geti verið bjarnargreiði við sveitarfélögin undir vissum kringumstæðum? Hverjum er þá hæstv. félmrh. að þjóna í þessu efni? Mér finnst rétt að spyrja þessara spurninga þegar við 1. umr. En þá kemst ég ekki hjá því að spyrja annarar spurningar vegna þessa þáttar frv. Hefur hæstv. félmrh. fyrirætlanir uppi um að efla tekjustofna byggingarsjóðs ríkisins til þess að mæta hinum auknu þörfum, sem hljóta að fylgja því að samþykkja þessa sérstöku fyrirgreiðslu vegna leiguíbúða? Ef hæstv. ráðh. hefur fyrirætlanir uppi um þetta, hverjar eru þær fyrirætlanir? Ég vil ekki trúa öðru en hann hafi einhverjar fyrirætlanir. Ég vil ekki ganga út frá því, að þetta eigi einungis að vera sýndarfrv., sem í framkvæmd þýði það, að þetta hafi litla sem enga þýðingu fyrir sveitarfélögin í landinu, eða þá að fjármagn í þessu skyni verði tekið af því, sem fyrir er og gangi út yfir aðrar þarfir, sem byggingarsjóðurinn þarf að sinna, finnst mér, að ekki megi minna vera en að hæstv. ráðh. gefi upplýsingar um svo veigamikil atriði sem þessi, sem ég hef núna spurt um. Og ég hef spurt um það nú þegar við 1. umr., til þess að n. sú, sem tekur málið til meðferðar, geti athugað það m.a. í ljósi þeirra upplýsinga, sem hæstv. ráðh. ætti að gefa um þau efni, sem ég hef nú spurt um.