13.04.1973
Neðri deild: 88. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3519 í B-deild Alþingistíðinda. (3050)

241. mál, veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég skal ekki verða mjög langorður, en ég hefði óskað eftir því, að hæstv. sjútvrh. hefði verið við, þegar ég tala, ef þess væri kostur.

Um þetta frv. er það almennt að segja, að það fjallar um skipulag á botnvörpu- og dragnótaveiðum í landhelginni, og það er margt gott um þetta frv. að segja. M. a. er friðunarsjónarmið meginforsenda fiskveiðilaganefndarinnar, sem hefur unnið að þessu frv., og ég vil taka undir þetta friðunarsjónarmið n. Ég tel, að bæði ástand þorskstofnsins og svo líka barátta okkar í landhelgismálinu krefjist þessa. Íslenzki þorskstofninn er nú talinn fullnýttur, ef ekki ofveiddur, og alþjóðanefnd fiskifræðinga hefur lagt til, að sókn á þorskstofna í norðurhöfum verði minnkuð um helming. Þetta er staðreynd, sem við getum ekki horft fram hjá. Ég nefni líka sem ástæðu baráttu okkar í landhelgismálinu. Ég tel, að við verðum að hafa friðunarsjónarmiðið ríkt í huga einmitt þess vegna. Það er undirstrikun á þeirri röksemd okkar fyrir útfærslunni, að friðun fiskimiða sé nauðsynjamál, sem bezt sé komið í höndum strandríkjanna sjálfra. En hvað er þá átt við með friðun? Með friðun er m.a. átt við verndun ungfisksins. Það er átt við það að koma í veg fyrir ofveiði smáfisks, sem er að alast upp og enn er ekki orðinn kynþroska. Við vitum, að seiðadráp og ungfiskadráp í stórum stíl er ægilegt athæfi og stór blettur á þeim, sem standa að nauðsynjalausu, og vísvitandi, fyrir slíku. Ég veit, að fiskveiðilaganefndin hefur viljað gera sitt til þess að koma í veg fyrir, að slíkt gerðist.

Í frv. er gert ráð fyrir því að haga skiptingu milli veiðiskipa í stórum dráttum þannig, að togveiðarnar verði stundaðar á hinum ytri miðum, en smærri bátarnir veiði aftur á innmiðunum. Ég held fyrir mitt leyti, að hér sé stefnt í rétta átt. Það er eðlilegt að ætla bátaflotanum og þá landróðrabátunum veiðisvæði nær landinu. Togararnir eru öflug skip og auðvelt að sækja á þeim langt til hafs, enda eru það útileguskip, og þeir eru gerðir til þess að sækja á hin dýpri mið, þannig að ef við alþm. eigum að hafa einhver afskipti af þessum málum, hljótum við að hafa þetta meginsjónarmið í huga, eins og fiskveiðilaganefndin hefur gert. Ég er þannig sammála þessari meginhugsun, sem liggur á bak við starf nefndarinnar.

Hér hefur í þessum umr. borið á góma heimildir til togveiða fyrir Norðurlandi alveg sérstaklega, og kom það fram í máli þess hv. þm., sem talaði hér á undan mér. Mig langar til þess að víkja aðeins örfáum orðum að þessu atriði.

Eins og frv. er nú úr garði gert, er gert ráð fyrir miklum breytingum hvað snertir togveiðar á Norðurlandsmiðum, miðað við gildandi reglur. Gildandi reglur leyfa togveiði miðað við 8, 6 og jafnvel 4 mílur eftir stærð skipa og árstímum. Frv. gerir ráð fyrir því, að stóru togararnir fiski ekki innan við 12 mílna línu og minni togskipin ekki innan við 9 mílur. Hér er því um að ræða mjög stóra breytingu frá því, sem gildandi reglur gera ráð fyrir. Og spurningin er sú, hvort það sé réttlætanlegt að minnka svona mikið það svæði, sem togararnir hafa möguleika á að veiða á, miðað við það, sem nú gildir. Ég vil svara því á þann veg, að það sé réttlætanlegt og nauðsynlegt að setja skynsamlegar hömlur á togveiði fyrir Norðurlandi og skipta veiðisvæðum eðlilega milli togara og smærri báta. Ég er því í „prinsipinu“ sammála fiskveiðlaganefndinni. Það er réttlætanlegt, að togararnir fiski á hinum ytri miðum, þegar nauðsynlegt er að skipta veiðisvæðum, og gæta friðunarsjónarmiða við þá skiptingu. Við getum ekki horft fram hjá því, hvert eðli hinna norðlenzku fiskimiða er. Það er afar mikið magn af smáfiski, sem þar veiðist, og hann veiðist þar í ölI veiðarfæri meira og minna. Eftir samsetningu aflans að dæma vitum við það, að smáfiskurinn er mjög stór hluti aflans, alveg án tillits til þess, með hvaða veiðarfæri er veitt. Ég held, að það sé ekki hægt að ganga fram hjá þeirri staðreynd, að norðlenzku fiskimiðin eru uppeldisstöð fiska, þó að svo kunni að vera, að smáfiskurinn hafi þar ekki beinlínis lögheimili, svo að notað sé orðalag þess hv. þm., sem hér var að tala áðan. Ég held, að menn verði að gera sér fulla grein fyrir þessu, en jafnframt því, að það er ekki í botnvörpuna eina, sem ungfiskur veiðist, heldur veiðist hann líka í önnur veiðarfæri. En hitt hljótum við að viðurkenna, að veiðarfæri eru mismunandi stórtæk og botnvarpan er stórvirkt veiðarfæri og gerir af þeim sökum meiri usla en önnur, ef um slíkt er að ræða. Og ég held, að við getum ekki heldur lokað augunum fyrir því, að smáfiskadráp togara á Norðurlandsmiðum á við ýmis rök að styðjast. Það eru mýmörg dæmi um það og margir vitnisburðir. Þess vegna er brýnt að fara með gát á Norðurlandsmiðum og hafa alla varúð uppi þar.

Ég minntist á það hér áðan, að togveiðiheimildir fyrir Norðurlandi verða mjög skertar, ef þetta frv. verður að lögum. Það er verið að ýta togurunum utar en var, og togaraútgerðarmenn og skipstjórar hafa lýst óánægju sinni með þetta, eftir að frv. kom fram. Og hvað sem mönnum annars kann að finnast um fyrirkomulag togveiðanna yfirleitt, getum við ekki komizt hjá því að hlusta á rök togaramanna eins og annarra manna. Mér er til efs, að við höfum haft næga þolinmæði til þess að hlusta á raddir togaramanna í þessu mikilvæga máli, og slík óþolinmæði sem óneitanlega hefur verið sýnd að nokkru er ekki afsakanleg.

Það hefur mjög komið fram í þessu máli, að það þurfi að hraða málinu, og það er sjálfsagt og eðlilegt, að það þurfi að hraða því að mörgu leyti. En ég vil segja það sem mína skoðun, að ég sé enga ástæðu til þess að hafa ofhraða á þessu máli. Ég hef látið það álit í ljós áður og komið því á framfæri við fiskveiðilaganefndina, að það sé óþarfi að hafa á þessu ofhraða. Ég taldi í viðtölum við n., að það væri nægilegt, að hin nýju lög tækju gildi 1. jan. n.k. Og þetta vil ég endurtaka hér. Ég held, að það væri rétt og sanngjörn málsmeðferð að gefa tækifæri til umr. um þetta mál í sumar. Ég held, að það verði affarasælast að haga málsmeðferð með þeim hætti að hafa ekki þann mikla hraða á þessu, sem nú er gert ráð fyrir. Ég vil taka fram, að hér er um ábendingu um málsmeðferð að ræða af minni hálfu, en alls ekki um það að ræða, að ég sé að leggja til neinar stórfelldar breytingar á þessu frv. eða þeim reglum, sem fiskveiðilaganefndin hefur hér lagt fram. En ég held, að það væri til hóta, ef sá hraði, sem fyrirhugaður er, yrði ekki eins mikill og gert hefur verið ráð fyrir og hér hefur komið fram, að þurfa þætti. Það er mín meginábending sem sagt, að það verði farið með meiri gát í afgreiðslu þessa máls og okkur vinnist tími til þess að vísa því meira til umsagnar ýmissa aðila og fáum tækifæri til þess að ræða þetta í sumar. Þetta mál gæti þá komið fyrir haustþingið, þannig að þessar reglur geti komið til framkvæmda 1. jan. á næsta ári.