14.04.1973
Neðri deild: 89. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3565 í B-deild Alþingistíðinda. (3166)

198. mál, sveitarstjórnarlög

Pétur Pétursson:

Herra forseti. Við, hv. 3. þm. Norðurl. v. og ég, höfum leyft okkur að flytja á þskj. 658 brtt. við frv., sem er um væntanlega 110. gr., en hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ákvæði kafla þessa gilda um landshlutasamtök sveitarfélaga, þ.e. samtök sveitarfélaga í hverju kjördæmi landsins. Heimilt er þeim landshlutasamtökum að hafa sameiginlega fundi og framkvæmdastjórn, álíti þau það hagkvæmt“.

Innihaldið í þessu er í raun og veru það, að við teljum okkur hafa það mikla vissu fyrir áhuga íbúa í Norðurl. v., að þeir vilji athuga það mjög rækilega, og raunar höfum við fengið alveg ákveðnar ábendingar frá vissum sveitarstjórnum þar, að þeir vilja athuga það mjög rækilega, hvort ekki sé hyggilegra, að það séu sérstök landshlutasamtök sveitarfélaga í Norðurl. v. Að vísu gerir hv. meiri hl. félmn. nokkrar breytingar, þar sem talað er um, að landshlutasamtökin skuli ná yfir eitt eða fleiri kjördæmi, en okkur finnst eðlilegra, að þetta sé sett svona ákveðið, enda sé í leiðinni fullkominn möguleiki til þess fyrir 2 kjördæmi, eins og á sér stað á Norðurlandi, að vinna saman eins og þau hafa gert. Ég þarf ekki að endurtaka þau rök, sem ég hafði fyrir þessu við 1. umr. málsins, en mér finnst vera fyllsta ósamræmi í því, að á þessum eina stað séu tvö kjördæmi saman, en alls staðar annars staðar séu kjördæmamörk látin ráða.

Ég er hins vegar algerlega andvígur till. hv. 5. þm. Sunnl., um það að vísa málinu frá. Ég tel, að málið í heild sé mjög gagnlegt, og ég vil festa þessi samtök í miklu fastari skorður en þau hafa verið. Ég tel þess vegna, að frv. sem slíkt sé mikið til bóta, og er því meðmæltur að öðru leyti en þessu.

Ég get satt að segja ekki séð, að þó að þessi till. okkar hv. þm. Björns Pálssonar yrði samþ., væri verið að taka neina afstöðu gegn t.d. Norðurl. v., þar yrðu landshlutasamtök alveg eins og í hinu kjördæminu, og ef það skyldi koma upp að lokum, að þau vildu helzt hafa þetta sameiginlegt, þá er opin leið til að gera það. Sveitarstjórnir í öllum kaupstöðum og kauptúnum kjördæmisins og raunar einhverjum hreppum, að ég ætla, komu saman á fund á síðasta hausti, þar sem það var yfirgnæfandi vilji, að kjördæmið væri sjálfstæð eining; sjálfstæð samtök. Og þó að ég hafi ekki getað af veðurfarsástæðum komizt norður eins og fleiri þm. þennan dag, þá voru flestir þm. úr kjördæminu þarna mættir, og ég veit, að þeir geta vottað þetta með mér, auk þess sem bæjarstjórn Sauðárkróks hefur gert alveg einróma samþykkt í þessa átt, og a.m.k. bæjarráðið á Siglufirði hafði á síðasta sumri einnig samþ. slíkt álit. Ég veit vel, að það eru skiptar skoðanir í þessu efni, og auðvitað verða það heimamenn, sem ráða þessu. En mér finnst þeir nákvæmlega eins geta ráðið því, hvort þeir vinna saman, þó að þessi till. okkar yrði samþ.