16.04.1973
Neðri deild: 91. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3608 í B-deild Alþingistíðinda. (3237)

169. mál, heilbrigðisþjónusta

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls hér í d. flutti ég brtt., sem hv. heilbr: og trn. tók svo upp sem sínar við lokaafgreiðslu þessa máls hér við 3. umr. Þessi brtt. var efnislega um það, að tryggt skyldi í reglugerð, að a.m.k. eitt deildaskipt sjúkrahús yrði byggt í hverju læknishéraði. Nú sé ég, að á þessu hefur orðið breyting í hv. Ed., orðalagsbreyting a.m.k., og ég vil því gjarnan spyrja hæstv. ráðh., sem gegnir sennilega störfum fyrir heilbr.- og trmrh., hæstv. viðskrh., hvort álit hans sé það eftir þessa breyt. í hv. Ed., að enn standi efnislega sú afgreiðsla, sem hér var gerð við lokaafgreiðslu 3. umr., að í reglugerð komi ákvæði þess efnis, að skylt verði að byggja a.m.k. eitt deildaskipt sjúkrahús í hverju læknishéraði. Ég vildi mjög gjarnan fá fram, hvaða álit ráðherra hefur á þessu. Sé það svo, að það sé ekki álitið, að þetta standi óbreytt, mun ég freista þess að bera fram brtt. við þessa umr. í hv. deild.