07.11.1972
Sameinað þing: 12. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í B-deild Alþingistíðinda. (326)

57. mál, Lánasjóður íslenskra námsmanna

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég vil þakka svör hæstv. ráðh. og þykir vænt um, að hann skuli staðfesta, að nú alveg nýlega hafi lánasjóðnum borizt loforð um 48 millj. kr. viðbótarfé til starfsemi sinnar til viðbótar þeim 12 millj., sem hann hafði til umráða, þegar ég bar fram fsp. mína. Ég vek hins vegar athygli á því, að nú er kominn 7. nóv. og enn hefur engu — ekki einu einasta haustláni verið úthlutað. Það hefur ekki komið fyrir áður, síðan haustlánakerfið var tekið upp, að svona langt hafi liðið á háskólaár og almennt skólaár, án þess að nokkru haustláni hafi verið úthlutað. Lok umsóknarfrests skipta hér engu máli. Frestinum lýkur, þegar ekki er lengur hægt að sækja um lán. Umsóknir eru að berast samkv. venju allt frá því seint á sumri og til loka frestsins. Hingað til hafa umsóknirnar verið afgreiddar nokkurn veginn jafnóðum og þær hafa borizt. Þannig hefur reynslan verið undanfarin haust. Þetta er fyrsta haustið, síðan kerfið var tekið upp, — ég endurtek það og legg á það áherzlu, — sem svona langt er liðið, allt að 7. nóv., án þess að nokkur námsmaður hafi fengið haustláni úthlutað. Það eru þó að sjálfsögðu gleðitíðindi, að nú skuli sjóðurinn hafa til umráða 60 millj. kr. og treysti sér til þess að byrja að einhverju leyti úthlutun lánanna. Hins vegar bendi ég á það, að þörfin fyrir haustlán er fjarri því að vera fullnægt með þessu móti. Þótt ekki væri miðað við annað en þá tölu, sem ríkisstj. sjálf hefur lagt í fjárlagafrv., sem er 273 millj. kr., þá hefur það verið venjan undanfarin ár að úthluta þriðjungi að hausti. Það mundi þýða, að nú þyrfti að úthluta — eða öllu heldur ætti að vera búið að úthluta rúmlega 90 millj. kr. Það vantar um 30 millj. á, að það fé, sem nú er til ráðstöfunar, dugi til þess að gera það eitt að fullnægja lágu tölunni, sem enginn tekur lengur alvarlega, í fjárlagafrv. Ætti að fara eftir óskum stjórnar lánasjóðsins, sem er upp á 493 millj. kr., þyrftu haustlánin að nema 164 millj. kr. eða m.ö.o. 100 millj. kr. hærri upphæð en sjóðurinn hefur núna yfir að ráða. Ég geri ráð fyrir því, að það, sem sjóðurinn fær endanlega til umráða, verði eitthvað á milli 273 millj. kr. í fjárlagafrv. og 493 millj., sem lánasjóðurinn óskar eftir. Ég skal engum getum að því leiða, hvað það verður. En það er alveg auðséð, að verði ekki tekið á málinu með mun meiri myndarskap heldur en hefur verið gert núna, og er ég þó sízt að vanmeta það, sem gert hefur verið s.l. daga, þá gefur auga leið, að haustlánin verða miklu minni í ár heldur en þau hafa verið, síðan kerfinu var komið upp á sínum tíma. rn það hefur reynzt mjög gagnlegt fyrir menn að geta fengið hluta af sínu væntanlega lánsfé, eins og ráðh. sagði, sem fyrirframgreiðslu upp í heildarlánið þegar að haustinu. Ég vil því hvetja ekki aðeins hæstv. menntmrh., heldur ekkert siður hæstv. fjmrh. til að sinna þessu máli mun betur en gert hefur verið hingað til.