17.04.1973
Efri deild: 98. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3695 í B-deild Alþingistíðinda. (3310)

223. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að ræða hér húsnæðismál, en sannast sagna hefur mig furðað á — kannske dáðst að einstakri snilli tveggja hæstv. ráðherra, hæstv fjmrh. í gær og hæstv. félmrh. nú, í því að vefja mál án þess að koma nokkurn tímann að því, sem spurt er að.

Hæstv. fjmrh. var spurður hér í gær varðandi launaskattsfrv., sem sjáanlega er misskilningur í og einhver klaufaskapur, — en sleppum því, það skiptir ekki máli í þessu sambandi, heldur fjármálahliðin, — þá var hann spurður að því sama hér og hæstv. félmrh., varðandi þann tekjumissi, — við skulum segja, að hann sé 25 millj. kr., það skiptir ekki öllu máli, hann er eitthvað nálægt því, — sem húsnæðismálastjórnin verður fyrir í ár, — hann var spurður að því, hvernig ætti að bæta þetta. Og hann svaraði því, að þetta mál yrði til ítarlegrar athugunar og á næsta hausti yrðu gerðar ráðstafanir til þess, ef ég man rétt, að aðskilja þessa tvo þætti málsins. Þetta er hans svar.

Hæstv. félmrh. segir, að það sé áreiðanlega sá velvilji fyrir hendi, að hafi verið misskilningur í sambandi við þetta mál, muni úr því verða bætt með einhvers konar tekjuöflun. Er ómögulegt að fá því svarað, eða hefur hæstv. ríkisstj. ekki gert sér enn þá grein fyrir því, hvort ríkissjóður ætlar að taka á sig þessar 25 millj. kr., sem þessi löggjöf um launaskattinn sviptir húsnæðismálastjórnina, eða ekki? Málið er ákaflega einfalt. Af hverju er ekki hægt að fá þessu svarað? Af hverju þarf alla þessa vafninga? Ætlar ríkissj. í ár að bæta byggingarsj. ríkisins þessar 25 millj. kr. eða ekki? (Félmrh.: Ég er alveg viss um, að það verður gert.) En því þá ekki að segja þetta áðan? (Félmrh.: Af því að ákvörðun hefur ekki verið tekin um það enn þá. Ég fullvissa þig um, að þetta verður gert.) Jæja, það er gott og blessað. En ríkisstj. hefur sem sagt ekkert ákveðið um það enn þá, hvort hún ætli að gera það. Hæstv. félmrh. veit þá ekkert um það annað en . . . . (Gripið fram í.) Já, engu öðru var svarað en að þetta væri komið á hreint. En ég, veit ekki, hvað er hreint í núv. ríkisstj., það er ákaflega erfitt að átta sig á því. En sem sagt, það er þá gott, ef það liggur ljóst fyrir, að það er hugsun einhverra, sennilega hæstv. félmrh., að beita sér fyrir því í ríkisstj., að ríkissjóður leggi fram 25 millj. kr. í ár til Húsnæðismálastofnunarinnar. Það munar náttúrlega ekki um einn pinkil á Skjónu, það hefur annað eins verið gert nú, það liggur ljóst fyrir.