17.10.1972
Sameinað þing: 3. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í B-deild Alþingistíðinda. (37)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Hæstv. forsrh. hóf ræðu sína á því að segja: „Stefna ríkisstj. er óbreytt“. Þetta er rétt að einu leyti aðeins. Stefna ríkisstj. í landhelgismálinu er óbreytt. Í því máli er um einingu allra þingflokka að ræða. Þeirri stefnu, sem þar var mótuð af einhuga Alþingi, á að halda óbreyttri. En að öllu öðru leyti er sú yfirlýsing hæstv. forsrh., að stefna ríkisstj. sé óhreytt, röng, Í varnarmálum virðist a.m.k. hluti ríkisstj. hafa breytt um stefnu, þótt enginn viti að vísu á þessari stundu, hvor aðilinn verður ofan á, áður en lýkur. Niðurlagsorð hæstv. forsrh. um utanríkismál og öryggismál voru svo óskýr og loðmulluleg, að sérstaka athygli hlýtur að vekja. Hann sagði, að starfað yrði í þeim anda, sem málefnasamningurinn gerir ráð fyrir, að mynda sér sjálfstæða skoðun á því, sem að höndum ber, og ráða fram úr því á þann hátt, sem bezt hentar sjálfstæðu, en vopnlausu smáríki. Hæstv. forsrh. segir ekki orð um uppsögn varnarsamningsins né brottför varnarliðsins. En eitthvað verður hann að segja. Og hver er þá boðskapurinn? Að lofa að mynda sér sjálfstæða skoðun á því, sem að höndum ber, og ráða fram úr því á þann hátt, er bezt hentar vopnlausu smáríki. Er þjóðinni ætlað að falla í stafi yfir því, að ríkisstj. skuli ætla að mynda sér sjálfstæða skoðun á því, sem að höndum ber, eða er ætlazt til sérstakrar aðdáunar á því, að ráða eigi fram úr því á þann hátt, sem bezt hentar sjálfstæðu, en vopnlausu smáríki? Kannske hæstv. forsrh. sé hér að andmæla samráðh. sínum, hæstv. iðnrh. Magnúsi Kjartanssyni, sem hélt því fram í sambandi við samning ríkisstj. um lengingu flugbrautarinnar á Keflavíkurflugvelli, að sá samningur samrýmdist ekki sjálfstæðri, íslenzkri utanríkisstefnu. Getur það verið, að hæstv. forsrh. telji þannig þau ummæli um utanríkis- og varnarmál nauðsynlegust nú, að íslenzk utanríkisstefna sé sjálfstæð, hvað sem Magnús Kjartansson segi. En hver skyldi þá vera hin sjálfstæða skoðun, sem bezt hentar sjálfstæðu smáríki? Um það fékk þjóðin ekkert að vita í ræðu hæstv. forsrh. Ekki verður sagt, að tekið sé ýkja myndarlega, skörulega eða skýrt á málinu.

Hæstv. forsrh. sagði: Stefna ríkisstj. er óbreytt. Að því er efnahagsmálin snertir hefði hann átt að segja: Ríkisstj, hefur enga stefnu í efnahagsmálum. Það er sannleikurinn á þessari stundu a.m.k. Þegar hæstv. ríkisstj. kom til valda, gaf hún þjóðinni meiri loforð en tíðkazt hefur um ríkisstj. á undanförnum áratug. Líklega hefur hún gert það vegna þess, að hún tók við þjóðarbúinu á traustum grundvelli, sem lagður hafði verið. Mikið fé var til ráðstöfunar innanlands. Þjóðin átti gilda sjóði erlendis. Ekki stóð heldur á því, að tekið væri til höndunum á fyrsta missirinu, sem ríkisstj. var við völd. Öllum stéttum skyldi búin vegleg veizla. Um hitt var minna hugsað, hvað hún kostaði Hæstv. ráðh. voru orðnir svo langeygir eftir áhrifum og völdum, að þeir létu hverjum degi nægja sína gleði og sinn fagnað. Um morgundaginn var ekki hugsað.

En morgundagurinn kom. Hann er löngu kominn. Og nú er veizluvíman runnin af hæstv. ráðh. og helztu stuðningsmönnum þeirra. Nú blasir ekki aðeins við grár hversdagsleiki, heldur kaldranalegur kólguhakki á himni efnahagsmálanna. Í ekki hálfs annars árs sögu þessarar hæstv. ríkisstj. hefur það gerzt sem aldrei áður hefur átt sér stað á Íslandi, að ríkisstj., sem hóf störf við betri skilyrði en nokkur önnur ríkisstj. á öldinni, skuli eftir minna en hálfs annars árs valdaferil standa frammi fyrir geigvænlegum efnahagsvanda, yfirvofandi stöðvun grundvallaratvinnuvega, vaxandi verðbólgu, halla í viðskiptum við útlönd og hættu á kjaraskerðingu almennings, án þess að kunna nokkur ráð við vandanum. Jafn ráðþrota hefur engin ríkisstj. á Íslandi verið á alvörustundu, án þess að játa vanmátt sinn og segja af sér.

Hæstv. ríkisstj. hefur lagt fram fjárlagafrv. fyrir næsta ár. Þar er ekki að finna tölu, þar er ekki að finna orð um þann vanda, sem nú blasir við og allir vita, að við er að etja, að ég ekki fali um, að þar sé að finna orð eða tölu um það, til hvaða ráðstafana hæstv. ríkisstj. ætlar að gripa. Og nú heldur hæstv. forsrh. stefnuræðu fyrir hönd ríkisstj. Er það ekki lágmarkskrafa, sem gera verður til forsrh. undir núverandi kringumstæðum, að hann skýri þjóðinni frá því, hver sá vandi sé, sem nú er við að etja, hvernig á honum standi og hvernig ríkisstj. ætlar við honum að bregðast? Heyrði nokkur hæstv. forsrh, lýsa vandanum? Heyrði nokkur hann skýra vandamálið? Eða heyrði kannske einhver, að hann lýsti stefnu ríkisstj. í þessum efnum, að hann gerði grein fyrir því, hvernig ríkisstj. ætlar að tryggja hallalausan rekstur útflutningsatvinnuveganna, hefta verðbólguna, eyða hallanum út á við og tryggja kaupmátt launa? Nei, enginn gat heyrt neitt um þetta af þeirri einföldu ástæðu, að hæstv. forsrh. sagði ekki neitt um það. Hann þagði um hið mikilvægasta, sem hann hefði átt að tala um, hvernig ríkisstj. hyggst hæta úr því, sem úrskeiðis hefur farið á undanförnum mánuðum, hvernig tryggja á áframhaldandi framfarir og hagsbætur.

Ræða hæstv. forsrh. var í raun og veru ekki stefnuræða. Hún var fyrst og fremst kynning á stefnuleysi hæstv. ríkisstj. í efnahagsmálum Íslendinga. Í málefnasamningi hæstv. ríkisstj. frá sumrinu 1971 voru gefin mörg loforð og stór. Það var lofað að efla undirstöðuatvinnuvegina og treysta rekstrargrundvöll þeirra. Það var lofað, að verðbólga skyldi ekki verða hér meiri en í nágrannalöndum, og það var lofað, að kaupmáttur láglaunafólks skyldi aukast um 20% á næstu tveimur árum.

Nú er liðið nokkuð á annað ár, síðan þessi loforð voru gefin. Hvernig skyldu þau hafa verið efnd? Eru undirstöðuatvinnuvegirnir öflugri en þeir voru sumarið 1971? Er rekstrargrundvöllur þeirra traustari?

Hver er sá Íslendingur, sem veit ekki, að bæði hátafloti og botnvörpuskip eru nú rekin með tapi, sem jafnað er með því að ganga á varasjóði þessara atvinnuvega eða með greiðslum úr ríkissjóði? Hver er sá, sem veit ekki, að mikilvægasti útflutningsiðnaður þjóðarinnar, hraðfrystiiðnaðurinn, sá sig knúinn til þess fyrir skömmu að tilkynna, að kæmu ekki til greiðslur af hálfu hins opinbera, yrði frystihúsunum lokað. Undirstöðuatvinnuvegunum er nú m.ö.o. haldið gangandi með greiðslu af almannafé. Þetta er sú efling undirstöðuatvinnuveganna, sem lofað var. Hér er þá sá rekstrargrundvöllur, sem átti að treysta. Hæstv. ríkisstj. hendir í þessu sambandi á minnkandi sjávarafla á þessu ári. Það er því miður rétt, að hann hefur minnkað. En á móti kemur, að verðlag heldur enn áfram að hækka og er nú hærra en nokkru sinni fyrr. Þegar síldarafli brást með öllu á síðasta áratug, fannst þeim mönnum, sem nú stjórna landinu, það skipta litlu máli. Þótt verðl. á útflutningsvörum lækkaði um næstum helming, átti það ekki að þurfa að valda neinum erfiðleikum. Þá var hins vegar brugðizt við erfiðleikunum af kjarki og festu, en um leið réttsýni. Nú eru þessir sömu menn, sem töldu hvorki aflabrest né verðfall þurfa að valda nokkrum vanda, algerlega ráðalausir gagnvart nokkurri aflaminnkun, þótt henni sé samfara hæsta verð, sem um getur. Hæstv. ríkisstj. hefur því miður ekki efnt mikilvægasta loforð sitt að efla undirstöðuatvinnuvegina. Þeir eru þvert á móti á heljarþröm og þurfa gegn vilja sínum að ganga á varasjóði sína.

En hvernig hefur hæstv. ríkisstj. tekizt að sjá svo um, að verðbólga sé hér ekki meiri en í nágrannalöndum? Á fyrstu 12 mánuðunum, sem hæstv. ríkisstj. starfaði, hækkaði vísitala framfærslukostnaðar um 10%. Það er meiri hækkun en í nálægum löndum. Sjálfsagt er hins vegar að láta hæstv, ríkisstj. njóta þess sannmælis, að þessi verðlagshækkun er ekki meiri en hún var á síðasta valdaári fyrrv. ríkisstj. Alvarlegra er hins vegar hitt, að þótt svo eigi að heita, að nú sé í gildi verðstöðvun, hefur verðlag samt haldið áfram að hækka. Síðasta dæmið er fiskverðshækkunin í síðustu viku. Þótt aðrar vörur verði greiddar niður sem henni svarar, er hér auðvitað vottur um vaxandi verðbólgu og versnandi kjör launþega. Niðurgreiðslurnar kosta fé. Það fé greiða skattborgararnir og þá fyrst og fremst launþegarnir. Alvarlegast af öllu er þó það, að meðan verðstöðvunarlögin gilda, út þetta ár, er sífellt verið að fresta verðhækkunum, sem síðar munu dynja yfir með margföldum þunga, þegar verðstöðvunartímabilinu lýkur. Nú er í raun og veru ekki um verðstöðvun að ræða, heldur frestun á verðhækkunum, sem koma munu. Hvernig ætlar hæstv. ríkisstj. að bregðast við þeim? Ætlar hún almenningi að bera þær? Eða ætlar hún að auka enn niðurgreiðslurnar, sem þó eru orðnar óeðlilega mikill hluti af útgjöldum ríkissjóðs, og raska verðkerfinu á varhugaverðan hátt? Og því má ekki gleyma, að þótt verðlagi sé haldið í skefjum með niðurgreiðslum, þá varðveitir það ekki kaupmátt launa. Hann rýrnar sem svarar þeirri auknu skattbyrði, sem niðurgreiðslurnar kalla á. Hæstv. ríkisstj. hefur því ekki tekizt að halda verðbólgu hér á landi í líkingu við það, sem gerist með nálægum þjóðum. Vöxtur hennar er meiri hér, og á eftir að verða miklu meiri. Það á eftir að verða hér verðlagssprenging um næstu áramót, ef svo fer fram sem horfir.

Árið 1970 var svo komið, að greiðsluafgangur var í viðskiptum þjóðarinnar við önnur lönd, þótt miklir erfiðleikar væru að baki. Í fyrra var hins vegar halli í þessum viðskiptum, og enn verður mikill halli á þessu ári. Er hér um hina alvarlegustu þróun að ræða.

En hefur ríkisstj. ekki tekizt að stuðla að því, að kaupmáttur launa hafi vaxið undanfarið? Kaupmáttur vikulauna verkamanna og iðnaðarmanna er nú 11% hærri en hann var, þegar hæstv. ríkisstj. tók við völdum. Auk þess hefur vinnuvikan verið stytt og orlof lengt. Þar er um að ræða hagsbætur, en ekki aukinn kaupmátt hliðstæðan þeim, sem siglir í kjölfar beinnar kauphækkunar. Sé tekið tillit til þessa, er hækkun tímalauna þessara stétta 21%. Sanngjarnt mat á kjarahótum er líklega hér mitt á milli eða um 15%. Þetta er fagnaðarefni. Hitt er auðvitað barnalegt, að tala um þessa kaupmáttaraukningu næstum því eins og fyrstu og einu kaupmáttaraukninguna, sem íslenzkir launþegar hafi notið. Á síðasta starfsári fyrrv. ríkisstj. jókst kaupmáttur þessara sömu stétta einnig um 15% eða jafnmikið og hann hefur aukizt á fyrsta valdaári þessarar ríkisstj.

Það, sem nú skiptir mestu máli í sambandi við kaupmátt launa, er, hvort líklegt sé, að hæstv. ríkisstj. geti staðið við loforð sitt um, að kaupmáttur launa láglaunastétta geti haldið áfram að vaxa og verði eftir tæpt ár orðinn 20% hærri en hann var tveimur árum áður. Í þessu sambandi verður fyrst að geta þess, að undanfarið hefur ýmislegt gerzt, sem rýrt hefur kaupmátt launastétta. Fyrst er að geta breytingar nefskattanna svonefndu, þ.e.a.s. almannatryggingagjaldsins og sjúkrasamlagsgjaldsins, í tekjuskatta. Þessi breyting á sköttum var skynsamleg og réttlát. En það var mjög ranglátt að láta hana verða til þess að lækka kaupgjaldsvísitöluna, eða réttara sagt til hins, að verð á landhúnaðarvörum hækkaði, án þess að það væri bætt með hækkun kaups. Úr þessu ranglæti var að vísu bætt, en ekki fyrr en eftir 9 mánuði og þá ekki að fullu. Þá verður að minna á, að beitt hefur verið brögðum til þess að halda framfærslukostnaði og þar með kaupgjaldi í skefjum. Hinn 1. ágúst s.l. átti kaupgjaldsvísitala og þar með kaupgjald að hækka um 5%. Ríkisstj. kom í veg fyrir þetta með brbl. Fjölskyldubætur voru hækkaðar og niðurgreiðslur auknar. Kaup skyldi haldast óbreytt til áramóta, þótt kaupgjaldsvísitala hækkaði nokkuð. Í síðustu kjarasamningum var skýrt tekið fram, að kaup skuli greiða með fullum vísitölubótum. Á kaupið í dag eru ekki greiddar fullar vísitölubætur. Það hlýtur að vera aðalmál næsta Alþýðusambandsþings að standa traustan vörð um gerða samninga og réttmæta hagsmuni launþega í þessu sambandi.

Á því er enginn vafi, að kaupgjald í dag er ekki greitt samkv. rétt reiknaðri vísitölu. Um það má eflaust deila, hversu munurinn sé mikill. Hitt er þó mikilvægara, að augljóst er, að verðlag hlýtur að fara hækkandi á næstu mánuðum, en einkum og í siðasta lagi eftir næstu áramót. Hvernig á að mæta þeim verðhækkunum? Hver á að bera þær? Ef verðlag á að hækka, án þess að kaupgjald hækki tilsvarandi, verður um augljósa kjaraskerðingu að ræða. Ef auka á niðurgreiðslur enn til þess að mæta verðhækkuninni, verður kjaraskerðingin óhein. Þá ber launþeginn kostnaðinn við niðurgreiðslurnar í einu eða öðru formi. Ekki verður því annað séð en kjaraskerðing hjá launþegum sé fram undan. Hið eina, sem gæti komið í veg fyrir það, væri, að hæstv. ríkisstj. gæti komið í veg fyrir yfirvofandi verðhækkanir án þess að þurfa að auka niðurgreiðslur. En hver, sem til þekkir, trúir því, að hún geti gert slíkt. Geti hún það ekki, rýrnar kaupmáttur launþega á fyrstu mánuðum næsta árs í síðasta lagi, og þá hefur hæstv. ríkisstj. einnig brugðizt loforði sínu um að auka kaupmátt láglaunastétta um 20% á tveimur árum.

Þótt ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar hafi nú enga stefnu í efnahagsmálum þjóðarinnar, getur hún auðvitað ekki komizt hjá því að móta slíka stefnu, ef hún ætlar sér að vera við völd í vetur. Af fjárlagafrv., sem lagt hefur verið fram fyrir nokkrum dögum, verður bókstaflega ekkert um það ráðið, hver þessi stefna kann að verða. Það er líklega einsdæmi, að ríkisstj. standi frammi fyrir stórfelldum efnahagsvanda, sem allir vita, að bregðast þarf við innan fárra vikna, en leggi fram fjárlagafrv., þar sem hvorki er minnzt á, að vandinn sé fyrir hendi, né heldur hvaða ráða eigi að leita gegn honum. Boðað er, að ákvæði brbl. frá í sumar um hækkaðar fjölskyldubætur og auknar niðurgreiðslur í því sambandi eigi að falla niður, en ekkert sagt um það, hvort nokkuð og þá hvað eigi að koma í staðinn. Komi ekkert í staðinn, hækkar framfærslukostnaður stórlega. samt er gert ráð fyrir því, að kaupgjaldsvísitala haldist óbreytt á næsta ári. Það getur því aðeins orðið, að framfærslukostnaður haldist óbreyttur. En hvernig hyggst ríkisstj. ná því marki. Um það er ekki eitt orð í fjárlagafrv. Augljóst er, að það mundi kosta mörg hundruð millj. kr. að halda áfram framkvæmd brbl. Í fjárlagafrv. rekur sig þess vegna eitt á annars horn. Í því er í raun og vera ekki heil brú. Leggi hæstv. ríkisstj. fram einhverjar till. í efnahagsmálunum, hlýtur að verða að endursemja þetta fjárlagafrv. Í grundvallaratriðum. Sem heild skoðað er því frv. nánast ómark.

En hverjar skyldu þá till. ríkisstj. verða? Um það er auðvitað erfitt að spá. Hæstv. ríkisstj. er svo ósamstæð, að ógerningur er að ráða í það, hvað ofan á kann að verða innan hennar. Eitt virðist þó augljóst: Hæstv. ríkisstj. hefur þegar tekið upp bótagreiðslur til sjávarútvegsins. Uppbótakerfið frá sjötta áratugnum er í endurfæðingu. Enn sem komið er hafa varasjóðir, sem ætlaðar hafa verið til þess að mæta verðfalli erlendis, einkum verið notaðir til að greiða kostnaðinn, þótt verðlag sé nú hærra en nokkru sinni fyrr. En slíku verður auðvitað ekki haldið áfram. Hvað tekur þá við? Hvernig ætlar ríkisstj. að afla fjár til áframhaldandi og aukinna uppbóta? Hér hlýtur að vera um stórar fjárhæðir að ræða. Ætlar hún að greiða öllum greinum sjávarútvegsins uppbætur eða aðeins sumum? Ætlar hún iðnaðinum að sitja við annað og óæðra borð en sjávarútveginum? Og hvað verður þá um iðnbyltinguna svonefndu? Þetta eru spurningar, sem ríkisstj. ein getur svarað og ætti í raun og veru að vera búin að svara. Það er þó ljóst, að ríkisstj. getur ekki aflað nýrra tekna til upphótakerfis með því að hækka tekjuskatt, eignarskatt eða fasteignagjöld. Sú skattheimta er nú orðin svo gífurleg, að aukning hennar væri hróplegt ranglæti. En hvað ætlar ríkisstj. þá að gera? Ætlar hún að hækka söluskattinn? Eða ætlar hún að leggja á innflutningsgjöld? Um slíkar ráðstafanir hafa hæstv. ráðh. sagt sitt hvað á undanförnum árum.

Þá hefur því heyrzt fleygt, að hæstv. ríkisstj. hafi í hyggju að lögleiða nýjan vísitöluútreikning, þannig að kaupgjald hækki ekki í hlutfalli við aukningu framfærslukostnaðar eftir þeim reglum, sem launþegasamtök hafa nú samninga um, heldur nýjum reglum, sem leiði til minni kauphækkunar. Menn eiga raunar bágt með að trúa slíku. Það er eðlilegt, að mönnum þætti það sagt til næsta bæjar, ef í ljós skyldi koma, að núv. ráðh. og stuðningsflokkar þeirra séu í alvöru að hugleiða að ógilda tiltölulega nýgerða kjarasamninga með lögum og slá þannig stóra, rauðu striki yfir ótal stóryrði sín hér á Alþ. og utan þess í heils áratugs stjórnarandstöðu. En við sjáum hvað setur. Þessi hæstv. ríkisstj. hefur hegðað sér svo undarlega að ótrúlega mörgu leyti, að mörgum finnst þeir geta átt von á hverju sem er.

Þegar ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar tók við völdum fyrir rúmu ári, bundu auðvitað þeir við hana vonir, sem kosið höfðu stjórnarflokkana. Hinir, sem kusu þá ekki, höfðu enga ástæðu til bjartsýni. En vonbrigði þau, sem hæstv. ríkisstj. hefur valdið, hafa orðið miklu meiri en nokkurn gat órað fyrir. Þau taka ekki aðeins til andstæðinga hæstv. ríkisstj., heldur einnig til stuðningsmanna hennar. Þessu veldur ekki aðeins stjórnleysi hennar og stefnuleysi. Því veldur einnig augljós sundrung innan ríkisstj. og óheilindin, sem ráða þar ríkjum. Þessa gætir ekki aðeins á vettvangi innanlandsmála, heldur einnig í meðferð landhelgismálsins, og er þó í engu máli meiri þörf fyrir samstöðu og heilindi en einmitt þar.

Þeim fer nú fækkandi dag frá degi, sem hafa trú á því, að hæstv. ríkisstj. sé vanda sínum vaxin. Þeim mun fyrr sem hæstv. ríkisstj. viðurkennir fyrir sjálfri sér og öðrum, að hún valdi ekki þeim vandamálum, sem hún sjálf ber meginábyrgð á, og dregur af því rétta ályktun, þeim mun betra fyrir íslenzka þjóð.