16.11.1972
Sameinað þing: 17. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 766 í B-deild Alþingistíðinda. (496)

50. mál, samstarf Íslendinga, Norðmanna og Færeyinga að fiskveiðum

Flm. (Stefán Jónsson):

Herra forseti. Till. sú til þál., sem hér er lögð fram á þskj. 53, um samstarf Íslendinga, Norðmanna og Færeyinga að fiskveiðum og fisksölu hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að beita sér fyrir viðræðum milli Íslendinga, Færeyinga og Norðmanna um samstarf þessara þjóða að skynsamlegri hagnýtingu fiskimiðanna á Norðaustur-Atlantshafi, verndun fiskistofna og að fisksölumálum. Jafnframt verði athugað, með hvaða hætti Grænlendingar geti orðið aðilar að slíku samstarfi.“

Í grg. okkar meðflm. míns, Jónasar Árnasonar, hv. 5. þm. Vesturl., segir:

„Talið er, að rúmlega 70% af fiskafla Norðaustur-Atlantshafsins komi af fiskimiðum Íslands, Færeyja og Noregs. Með útfærslu fiskveiðilögsögu okkar í 50 sjómílur höfum við Íslendingar fengið vald á því að takmarka sókn í einstaka fiskistofna á landgrunni okkar við þol þeirra. Ljóst má telja, að Færeyingar og Norðmenn muni senn feta í fótspor okkar og færa út fiskveiðilögsögu sína á svipaðan hátt og við höfum gert og fá sams konar tök á fiskistofnum heimamiða sinna.

Fyrir skemmstu svöruðu Lúðvík Jósepsson sjútvrh. Klaus Sunnanna fiskimálastjóri Noregs og Erlendur Pétursson lögþingsmaður í Færeyjum spurningum, sem fyrir þá voru lagðar í Ríkisútvarpinu, um það, hvort þeir teldu samstarf þessara þjóða um nýtingu og vernd fískímiðanna og um markaðsmál æskilegt. Þeir luku upp einum munni um, að náið samstarf um nýtingu fiskistofnanna væri ekki aðeins æskilegt, heldur sjálfsagt. Einnig hlyti að teljast eðlilegt, að Íslendingar, Færeyingar og Norðmenn, sem hafa mundu á hendi svo stóran hluta af fiskafla Vestur-Evrópu, sem að framan greinir, ynnu saman að markaðsmálum — og þá fyrst og fremst í Vestur-Evrópu, en einnig á öðrum mörkuðum.

Ýmsir nytjafiska okkar flakka á milli norskra, færeyskra og íslenzkra fiskimíða með þeim hætti, að friðunaraðgerðir á miðum eins þessara landa koma ekki að fullum notum, nema samsvarandi ráðstafanir séu gerðar á fiskimíðum hinna. Nægir að nefna örlög norsk-íslenzka síldarstofnsins sem dæmi um afhroð, sem sjávarútvegur þessara landa getur beðið samtímis vegna rányrkju á einum fiskistofni.

Er þessar þrjár þjóðir hafa náð valdi, hver um sig, á sókninni á fiskimiðin undan ströndunum, gæti samstarf þeirra um vernd fiskistofnanna einnig leitt til mikilsverðrar samvinnu um nýtingu þeirra.

Vafalaust er, að samkeppni Norðmanna og Íslendinga á fiskimörkuðunum, sem var e.t.v. afsakanleg, meðan þeir héldu, að Norðaustur-Atlantshafið væri þrotlaus nægtabrunnur sjófangs, og tíðum leiddi til undirboða, er fásinna nú, þegar ljóst er, að flestir arðbærustu fiskistofnarnir eru þegar í hættu vegna ofveiði og draga verður úr sókninni í ýmsa þeirra, ef komast skal hjá gjöreyðingu. Á hinn bóginn er ljóst, að Íslendingar, Færeyingar og Norðmenn munu í sameiningu hafa mjög sterka aðstöðu á mörkuðunum við Norður-Atlantshaf og geta með samræmdum markaðsaðgerðum sparað sér stórfé í sölukostnaði og jafnvel afstýrt fjárhagslegum áföllum, sem leiðir af því, þegar draga þarf vegna verndunar á einum fiskistofni úr framboði einnar vöru á fiskimörkuðunum, en bjóða aðra í staðinn.

Sem fyrr segir, eru allar horfur á því, að Norðmenn og Færeyingar muni fyrr en varir færa út fiskveiðilögsögu sína í líkingu við okkar og er ljóst, að málstað okkar væri styrkur að slíkum aðgerðum af þeirra hálfu, eins og nú er ástatt. Má ætla, að gerðar verði tilraunir til þess að beita granna okkar þvingunum af hálfu andstæðinga okkar í landhelgismálinu til þess að koma í veg fyrir útfærslu af þeirra hálfu, og gæti þá verið styrkur í því fyrir þessar þrjár þjóðir, ef ljóst yrði nú þegar, að þær hygðu á mjög náið samstarf varðandi nýtingu og veradun fiskistofna og jafnframt um fisksölumál.

Í þessu máli ber að taka tillit til hagsmuna Grænlendinga, sem eru hinir sömu og hinna þjóðanna þriggja, og hafa samvinnu við þá, að svo miklu leyti sem pólitísk ataða þeirra leyfir.“

Það væri að bera í bakkafullan lækinn að fara að ræða hér á hv. Alþ. um þýðingu fiskveiða fyrir afkomu þessara þjóða. Ég hygg, að velflestir hv. þm. geri sér ljósa grein fyrir henni, og þeir, sem e.t.v. hafa ekki gert það, hafa a.m.k. komizt upp á svo gott lag með að þykjast gera það, að þar verður litlu um bætt.

Till. sú, er við Jónas Árnason leggjum hér fram um, að hafnar verði viðræður við Færeyinga og Norðmenn um samstarf að skynsamlegri hagnýtingu fiskimiðanna á Norðaustur-Atlantshafi og að fisksölumálum, miðar að því, að við gerum bandalag við Færeyinga, sem líka eiga líf sitt undir því, að fiski verði ekki eytt á norðurslóð, og við Norðmenn, sem einnig eiga hér mikilla hagsmuna að gæta og hafa fyrir skemmstu kjörið sér þa5 hlutskipti að treysta á gæði síns norðlæga lands öðru fremur og lifa af gagni þess. Í till. er einnig gert ráð fyrir því, að leitað verði ráða til þess, að grannar okkar, Grænlendingar, geti fengið eðlilega aðild að því samstarfi, sem hér er reynt að leggja drög að.

Eins og hv. alþm. er kunnugt, hafa Færeyingar sýnt samhug sinn í verki með þeim aðgerðum, sem við höfum gripið til í því skyni að vernda fiskimið okkar fyrir rányrkju og tryggja hag þess fólks, sem lifir af nytjum þeirra. Þarf enda eigi á að líta, að hagsmunir Færeyinga og okkar eru samkynja, og mun létt verk, sé að því unnið, að samræma bæði fiskveiðar og fisksölumál Færeyinga og Íslendinga báðum til mikilla hagsbóta.

Það er vert að minnast þess, að við eigum nú þegar mjög gott samstarf við Færeyinga í fisksölumálum, þar sem Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna annast sölu á hraðfrystum fiski fyrir Færeyinga vestanhafs. Samstarf Færeyinga og Íslendinga að fiskveiðum hefur verið miklu nánara á liðnum áratugum en nokkurs staðar er kveðið á um í lögum eða opinberum milliríkjasamningum. Fyrir austan, þar sem ég ólst upp, voru færeysku sjómennirnir til skamms tíma eins tíðir gestir og sjómenn annarra landsfjórðunga, og þrátt fyrir dálítið annarlegan málhreim, voru þeir ekki útlendingar í augum okkar eystra.

Á árunum eftir stríð hefur íslenzkur sjávarútvegur æ ofan í æ sótt styrk sinn í vinnu færeyskra sjómanna og verkafólks.

Á því leikur heldur enginn efi, að dómur alþjóðar var sá, að ríkisstj. gerði rétt í því að taka sérstakt tillit til Færeyinga umfram alla aðra, þegar fiskveiðilögsagan var færð út í 50 sjómílur, enda kunnu þeir svo sannarlega að þakka kærlega fyrir sig. Raunar get ég ekki stillt mig um að gera þá aths., að óskandi væri, að viðbrögð okkar Íslendinga væru jafneðlileg og náttúrleg og viðbrögð Færeyinga gagnvart þeim þjóðum, sem gert hafa sig berar að fjandskap við okkur síðustu mánuðina.

Það er ljóst, að gagnkvæm réttindi Íslendinga og Færeyinga til fiskveiða samkv. settum reglum geta orðið sjávarútvegi beggja þjóðanna mikil stoð, þegar að því kemur, sem líkur benda til, að verði innan skamms, að Færeyingar færi einnig út fiskveiðilögsögu sína, og þarf tæpast að orðlengja um þau hlunnindi, sem okkur yrðu að síldveiðileyfum á Færeyjabanka og aðstöðu í færeyskum höfnum á Norðursjávarvertíð. Hér er ekki stefnt að því, að við ruglum saman reytum okkar og Færeyinga í sjávarútvegsmálum í einu og öllu, heldur að því, að við eigum frumkvæði að raunhæfu og fastmótuðu samstarfí, sem gæti bætt beggja hag.

Af sömu ástæðum og Færeyingar hafa Norðmenn næstir á eftir þeim sýnt málstað okkar beztan skilning. Er þar fyrst að telja einarðan stuðning norsku æskulýðssamtakanna gegn Efnahagsbandalaginu, flokkssamþykktir Miðflokksins og Sósíalíska þjóðarflokksins og svo stuðningsyfirlýsingar fiskimannasamtakanna í Norður-Noregi. Eigi að síður var norska ríkisstj. undir forustu Trygve Bratteli okkur berlega andsnúin í málinu, en vafalaust má telja, að sú afstaða hafi markazt fyrst og fremst af þeim fyrirætlunum hægri aflanna í Verkamannaflokknum og svo Íhaldsflokksins, að Norðmenn gengju í Efnahagsbandalag Evrópu og afsöluðu sér þar með einkarétti sínum til fiskimiðanna. Nú féll stjórn Brattelis á efnahagsbandalagsmálinu, og er ekki að orðlengja það, að ósigur hægri aflanna í norska Verkamannaflokknum í samstarfi við Íhaldsflokkinn markar tímamót í stjórnmálum Norðurlanda og vita þeir, sem vilja, að einarðleg stefna Íslendinga í fiskveiðilögsögumálinu og útfærslan í 30 sjómílur hafði áhrif á þá stjórnmálabaráttu, sem leiddi til sigurs þessara þjóðlegu, róttæku afla í Noregi. Þeir aðilar, sem nú fara þar með stjórn, hafa allt. annað viðhorf til lögsögu strandríkja yfir fiskimiðum en þeir valdhafar, sem unnu að inngöngu Noregs í Efnahagsbandalag Evrópu. Og nú hefur það skeð með fárra daga millibili, að fiskimannasamtökin í Norður-Noregi hafa krafizt einhliða útfærslu lögsögunnar í 50 sjómílur og Vinstri flokkurinn hefur lýst yfir því í flokkssamþykkt, að hann styðji málstað okkar í landhelgismálinu.

Ljóst er, að fiskveiðilögsögumál Noregs hafa tekið á sig mynd prófmáls um það í norskri pólitík, hvort framfylgt verði þeim þjóðarvilja, sem fram kom í atkvgr. á dögunum, að Norðmenn standi utan Efnahagsbandalagsins eða ekki. Þannig leggja þeir aðilar, sem stóðu að andspyrnuhreyfingunni gegn inngöngu í bandalagið, höfuðáherzlu á það, að alls ekki verði mangað með rétt Norðmanna til útfærslu lögsögunnar í sambandi við viðræður þær, sem nú fara fram óformlega og síðar formlega í janúar í vetur um viðskiptasamning milli Noregs og Efnahagsbandalagsins.

Það liggur í augum uppi, að málstað okkar er mikil stoð í baráttunni, sem þegar er hafin fyrir því, að Norðmenn færi fiskveiðilögsögu sína út hið bráðasta. Útfærsla Norðmanna í 50 sjómílur jafngildir algerum sigri okkar í þessu máli á alþjóðavettvangi, er þar að kemur. Viðræður okkar við Norðmenn nú þegar um samstarf, sem byggðist á þeirri aðstöðu, sem stefnt er að af hálfu Norðmanna, gæti flýtt fyrir því, að tekið yrði mark á heildarhagsmunum strandríkjanna við Norðaustur-Atlantshaf af hálfu Efnahagsbandalagsríkjanna, og stuðlað að því, að Íslendingar, Norðmenn og Færeyingar taki fyrr en ella að mæla einum rómi um þau mál, sem nú lúta að nýtingu fiskimíða þeirra. Fram til þessa hafa norskir fiskimenu fremur sótt á íslenzk fiskimið en íslenzkir á norsk, og liggur í augum uppi, að íslenzkum sjávarútvegi gæti orðið stoð í því að fá samningsbundinn rétt til sóknar á norsk mið í framtíðinni. Samstarf að markaðsmálum er raunverulega orðið aðkallandi nú þegar í beinu samhengi við deiluna um notarétt fiskimiðanna. Ef við stöndum hver um sig einir, Íslendingar, Færeyingar og Norðmenn, er hægt að hóta okkur afarkostum. Ef við stöndum aftur á móti saman og ljóst er, að eitt verði látið ganga yfir alla, hafa meginlandsþjóðirnar beinlínis ekki efni á því að beita okkur þvingunum. Þær mega ekki við því að missa 70% af fiskmeti sínu, og með hverju árinu sem líður mega þær síður við því.

Ég legg svo til, að umr. um þessa till. verði frestað og henni vísað til sjútvn.