21.11.1972
Sameinað þing: 18. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 799 í B-deild Alþingistíðinda. (529)

80. mál, afskipti ríkisstjórnarinnar af fjármálum Ríkisútvarpsins

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. fyrir svör hans, en mér þykja þan gefa tilefni til aths., og skal ég víkja að því.

Það er í fyrsta lagi, að hann ræddi um heimild Alþ. til þess að ákvarða um fjárhagsáætlun og ráðh, að ákveða afnotagjöldin. Það var á sama veg greint frá þessu og ég gerði reyndar í ræðu minni, en við komumst að mismunandi niðurstöðu. Hæstv. ráðh. telur, að þó að það standi í lögum, að hann eigi að taka ákvarðanir um afnotagjaldið, þá þurfi hann ekki í neinu að taka tillit til vilja Alþ. í málinu. Ég tel, að þetta sé ekki rétt. Ég tel, að samkv. venjulegum þingræðisreglum beri honum að gera slíkt. Ákvæðið í útvarpsl. um, að ráðh. ákveði afnotagjaldið, hefur sjálfstæða þýðingu fyrir því, því að oft kemur fyrir, að það þarf að ákveða afnotagjaldið hærra en gert hefur verið ráð fyrir, þegar Alþ. gekk frá fjárhagsáætlun. Það er hliðstætt því, þegar þarf að hækka útgjöld ríkisins og leitað er heimilda til þess með fjáraukal. Ég tel, að þegar Alþ. er ótvírætt búið að láta vilja sinn í ljós, eins og það hefur gert í þessu sambandi, beri að virða hann, og þeim mun fremur þar sem það er nauðsynlegt fyrir rekstur stofnunarinnar.

Hæstv. ráðh. sagði, að hann hefði skotið þessu máli til Framkvæmdastofnunarinnar. Jú, það er alveg rétt. En Framkvæmdastofnunin fór yfir till. útvarpsstjóra og komst að þeirri niðurstöðu, að afnotagjaldið ætti ekki að vera eins og ráðh. ákvað, fyrir sjónvarp 3100 kr., heldur 3325 kr. Og Framkvæmdastofnunin komst að þeirri niðurstöðu, og ég vek athygli á þessu, að þessi hækkun Framkvæmdastofnunarinnar hefði, miðað við afnotagjald 1971, leitt til 0.1 kaupgjaldsvísitölustigahækkunar. En hækkunartill. Ríkisútvarpsins sjálfs leiddi samkv. sömu heimildum til hækkunar um 0.17 kaupgjaldsvísitölustig. Allur útreikningur Framkvæmdastofnunarinnar miðar að því, hvernig er hægt að fá útkomu til þess að hafa sem minnst áhrif á vísitöluna. Það er það sjónarmið, sem liggur til grundvallar athugunar Framkvæmdastofnunarinnar, sem hún vinnur fyrir hæstv. ríkisstj. Þetta er tillitið, sem hæstv. menntmrh. og ríkisstj. tekur til rekstrar Ríkisútvarpsins. Það er verið að reyna að koma í veg fyrir einhverja tekjuaukningu launþega í landinu, ef svo skyldi vilja til. að eðlileg afgreiðsla á þessu máli hækkaði vísitöluna.

Hæstv. ráðh. sagði, að auðvitað vildu allar ríkisstj. spara, það hefðu allar ríkisstj. viljað spara. Mér þykir gaman að heyra þetta frá þessari ríkisstj., að hún vilji spara. En það, sem hér er að gerast, er algerlega óraunhæft, því að samkv. útreikningum ríkisútvarpsins mun tapið á rekstri Ríkisútvarpsins á þessu ári nema a.m.k. 40 millj. kr., ef ríkisútvarpið hefði ekkert aðhafzt. En síðan þessi ótíðindi dundu yfir Ríkisútvarpið, að það fær ekki eðlilega hækkun tekna eins og aðrar stofnanir í þjóðfélaginu, þá hefur auðvitað af hálfu Ríkisútvarpsins verið leitazt við allt þetta ár að reyna að spara, þannig að rekstrartapið verður væntanlega miklu mínna en það hefði orðið ef það hefði ekki verið tekið tillit til þessarar ákvörðunar menntmrh. En á þessu ári verður samt stórkostlegt tap á rekstri Ríkisútvarpsins.

Það er engin lausn á þessu máli að segja, að það eigi að spara og það eigi jafnframt að hafa dagskrána sem vandaðasta. Öllum, sem nokkuð vita um þessi mál, er kunnugt um, að það er í algeru lágmarki sá kostnaður, sem er við dagskrárgerð og launagreiðslur í sambandi við dagskrárgerðina sjálfa, þannig að þetta er algerlega óraunhæft. Ég held, að það væri sæmra fyrir núv. ríkisstj. að virða vilja Alþ. í þessu máli, að koma fram sem ábyrgur aðill gagnvart Ríkisútvarpinu, þessu þýðingarmikla menningartæki landsmanna, og taka afleiðingunum af gerðum sínum með því að breyta um stefnu í þessu efni við afgreiðslu næstu fjárlaga.