21.11.1972
Sameinað þing: 18. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 802 í B-deild Alþingistíðinda. (532)

276. mál, samningur Íslands við Efnahagsbandalagið

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta svar er því miður algerlega ófullnægjandi. Það byggist á þeim misskilningi, sem ég er mjög hissa á að heyra af vörum hæstv. utanrrh., að fullgilding samningsins sé að einhverju leyti háð fyrirvara Breta varðandi fríðindi fyrir sjávarafurðir. Það getur enginn ágreiningur verið um það í þeirra augum, sem lesa samninginn, að hann getur tekið gildi varðandi viðskipti með iðnaðarvörur 1. jan. 1973, og það er þetta, sem ég tók fram í ræðu minni áðan. Hér er því um að ræða tvímælalausa heimild fyrir íslenzku ríkisstj. til að láta viðskiptasamninginn við Efnahagsbandalagið að því er snertir iðnaðarvörur taka gildi um næstu áramót. Það er eingöngu spurning um það, hvort ríkisstj. vill það eða vill það ekki.