27.11.1972
Efri deild: 17. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 875 í B-deild Alþingistíðinda. (583)

4. mál, Stýrimannaskólinn í Vestmannaeyjum

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Menntmn. hefur athugað þetta frv. um Stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum, og urðu nm. sammála um afgreiðslu málsins.

Stýrimannaskólinn í Vestmanneyjum var stofnaður með lögum frá árinu 1964. Þá var svo ákveðið, að kostnaður við stofnun skólans og rekstur skyldi greiðast úr bæjarsjóði Vestmannaeyja. En það eru nokkur ár síðan með fjárlagaákvæðum var þessu breytt þannig, að skólinn hefur fengið fé árlega veitt í fjárl. Það ákvæði 12. gr. þessa frv., að kostnaður við skólahaldið greiðist úr ríkissjóði, er því í rauninni aðeins staðfesting á því, sem orðið er í þessu efni.

Stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum er ætlað það starfssvið, bæði samkv. lögum, sem nú gilda um stofnunina, og einnig samkv. þessu frv., að veita fullnægjandi menntun á 1. og 2. námsstigi, þannig að hann veitir fullnægjandi menntun til fiskimannaprófs og farmallnaprófs eftir nám á 2. námsstigi. Á þessu verður ekki breyting með þessu frv., þannig að Stýrimannaskólinn í Vestmannaeyjum á að veita alveg sambærilega fræðslu á þessum námsstigum og veitt er í Stýrimannaskólanum í Reykjavík. Hins vegar verður það eftirleiðis eins og verið hefur hingað til, að þeir, sem vilja ljúka prófi til að verða skipstjórar á varðskipum ríkisins, þurfa að stunda nám í Stýrimannaskólanum í Reykjavík.

Á síðasta þingi voru sett ný lög um Stýrimannaskólann í Reykjavík, þar sem námsefni skólans var endurskoðað og að sumu leyti fært í annan búning en verið hafði. Þar sem stýrimannaskólarnir báðir eiga að veita sambærilega fræðslu á fyrsta og öðru námsstigi, ber nauðsyn til þess að samræma l. um Stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum hinni nýsettu löggjöf um Stýrimannaskólann í Reykjavík, og það er aðalefni þessa frv. að færa lagaákvæðin til samræmis við það, sem þegar er orðið um Stýrimannaskólann í Reykjavík.

N. leitaði umsagnar um þetta mál frá 4 aðilum, þ.e. frá Landssambandi ísl. útvegsmanna, Vinnuveitendasambandi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og skólastjóra Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum. Umsagnir Landssambands ísl. útvegsmanna og Vinnuveitendasamband Íslands eru fáorðar, en eindregið jákvæðar, þannig að þessir aðilar mæla með samþykkt frv. En í umsögnum frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og skólastjóra Stýrimannaskólans er að sjálfsögðu mælt með samþykkt frv., en jafnframt gerðar nokkrar bendingar eða tekin fram nokkur atriði, sem talin er ástæða til, að gerð verði breyting á. Þar er þó ekki um nein meiri háttar atriði að ræða. Brtt. þær, sem n. flytur, eru miðaðar við að koma til móts við ábendingar þessara aðila.

Nefndinni var bent á, að eðlilegt mætti teljast, að upptalningin um þær námsgreinar, sem kenna á í skólanum og 4. gr. kveður á um, yrði gerð nokkru fyllri en á frv. segir. N. tók þetta til greina að því leyti, að hún leggur til, að bætt sé inn í þessa upptalningu landafræði og viðskiptafræði. Felst í því, að ákvæðin um námsgreinar verða þá alveg eins orðuð í þessu frv. og þau eru nú í l. um Stýrimannaskólann í Reykjavík. Hins vegar þykir n. ekki ástæða til að ganga lengra á þessari braut, einkum með tilliti til þess, að í 2. mgr. 4. gr. er kveðið svo á, að heimilt sé að bæta við námsgreinum, ef þörf þykir, og kennslumagn í hverri grein skuli ákveðið í reglugerð. Ef tími leyfir, getur skólastjórinn samkv. þessari heimild bætt við námsgreinum frá því, sem ákveðið er í 1. mgr. 4. gr.

Í umsögn skólastjórans í Vestmannaeyjum kom fram, að sá háttur væri nú hafður á námi bæði í þessum skóla og víðar í skólakerfinu, að skipta náminu í námsáfanga eða svonefndar annir, og hann taldi ástæðu til, að ákvæðum frv. væri hagað á þann hátt, að próf mætti halda í lok hvers námsáfanga í vissum greinum. N. þykir rétt að taka þetta upp og leggur því til. að 7. gr. frv. verði breytt á þann hátt, að þetta rúmist innan þessarar lagagr. 3. brtt., við 9. gr. frv., er eiginlega ekki efnisbreyting. Þar er lagfært orðalag, og þykir n. betur fara, að ákvæðið sé orðað eins og í brtt segir.

Ég sé ekki ástæðu til að taka fleira fram um málið, en eins og nál. ber með sér, leggur n til, að frv. verði samþykkt með þeim breytingum, sem ég hef lýst og prentaðar eru á þskj. 108.