28.11.1972
Sameinað þing: 22. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 909 í B-deild Alþingistíðinda. (619)

72. mál, afnám vínveitinga á vegum ríkisins

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég tók eftir því, þegar 1. flm. og frsm. fyrir þessari till. gekk í ræðustól áðan, að þá annaðhvort brostu ýmsir eða hristu höfuðið. Það skyldi ekki vera, að einhverjir hv. alþm. teldu, að hér væri um gamanmál að ræða. Það má vel vera, að það hvarfli að einhverjum hv. þm., að við fimmmenningarnir, sem þessa till. flytjum, séum svo fanatískir og kreddufullir, að engu tali taki. Það má vel vera, en ég vona, að ekki sé svo. En hvað um það, hitt veit ég eða a.m.k. vona, að allir bv. alþm. séu mér sammála um, að áfengisbölið í okkar þjóðfélagi er eitthvað það versta, sem við eigum við að stríða nú. Ég þykist mega dæma nokkuð um þetta eftir að hafa starfað að löggæzlumálum á annan áratug. Ég hef orðið vitni að fjöldamörgum dæmum þess, að áfengið hefur orðið þess valdandi, að fjöldi heimíla hefur lagzt í rúst. Ég bið hv. alþm. að hugleiða þetta, þegar þessi mál eru hér á dagskrá.

Hv. frsm. sagði, að að sínu mati væri þessi till. ekki flutt í sparnaðarskyni, og geri ég ráð fyrir, að hann hafi þá átt við sparnað í beinhörðum peningum. En hversu margir eru þeir einstaktingar, sem hafa orðið áfengisbölinu að bráð? Það er að mínu viti sparnaður, ef við gætum á einhvern hátt orðið til aðstoðar í því að koma til liðs við það fólk, sem þannig hefur orðið úti, og fyrirbyggt, að fleiri einstaklingar en þegar er orðið yrðu þessum bölvaldi að bráð.

Ég tek undir það, sem hv. þm. Helgi Seljan sagði hér áðan, að fyllerí í veizlum á vegum einstakra samtaka er hneyksli, og það er hneyksli, að forráðamenn þjóðfélagsins, í þessu tilviki ráðh., bjóði til veizlu, þar sem vínveitingar eru hafðar um hönd. Það er tími til þess komin, að forráðamenn þjóðfélagsins, sem í tíma og ótíma tala um það vandamál, sem hér er um að ræða, spyrni við fótum og hafi fordæmi, því að það skulu menn hafa í huga, að hið forna spakmæli á enn við í þessum efnum sem öðrum, að eftir höfðinu dansa limirnir. Það er tekið tillit til þess og það er tekið eftir því, og skyldi ekki vera, að margur einstaklingurinn tæki fyrsta sopann í veizlu á vegum ríkisins, hjá opinberum aðilum og ráðh.? Ég segi: það er hneyksli, ef forráðamenn ríkisvaldsins, forráðamenn þjóðarinnar hafa frumkvæði um að kynna drykkjusiði á vegum hins opinbera.