18.10.1972
Neðri deild: 4. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í B-deild Alþingistíðinda. (62)

18. mál, Landhelgisgæsla Íslands

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég hafði nú ekki hugsað mér að taka til máls í þessum umr., en þar sem þessar umr. hafa farið að nokkru leyti á við og dreif um landhelgismálið og jafnvel samninga þá, sem staðið hafa yfir út af því, þá vil ég aðeins segja hér nokkur orð.

Ég vil taka undir þær þakkir, sem hæstv. forsrh. bar fram hér áðan til handa starfsmönnum Landhelgisgæzlu í því erfiða hlutverki, sem þeir aðilar hafa átt við að stríða frá því 1. sept. fyrst og fremst. Það er vissulega þörf á að flytja þessum aðilum þakkir, öllu þessu starfsliði og ekki hvað sízt áhöfnum varðskipanna. En ég vil einnig og þá kannske var ferð mín hér í pontuna fyrst og fremst gerð vegna þeirra orða, sem hv. þm. Jónas Árnason talaði hér áðan. Ég vil taka undir það, sem hann sagði. Ég tel það hreint hneyksli, að það skuli geta átt sér stað, að flaggskipum veiðiþjófa þeirra Breta og Vestur-Þjóðverja skuli vera veitt slík fyrirgreiðsla eins og raun ber vitni að undanskildu í slysa- og veikindatilfellum. Ég vil taka það skýrt fram, og ég vil beina þeim eindregnu tilmælum til hæstv. forsrh. og raunar ríkisstj. í heild, að hún hlutist til um það og beini þeim eindregnu tilmælum til viðkomandi bæjaryfirvalda, að slíkt eigi sér ekki stað oftar. Ég tel það reginhneyksli, ef þessir aðilar fá aðra fyrirgreiðslu en þá, sem við kemur sjúkum og slösuðum mönnum. Allt annað á að neita um.

Ég skal svo að síðustu taka undir það, sem forsrh. lét vera sín lokaorð hér áðan. Ég tel, að ef Bretar sýndu þann manndóm að fara út fyrir 50 mílur, meðan samningaviðræður stæðu yfir, þá gæti það greitt fyrir samningum í þessu máli, og ég tel það raunar frumskilyrði til þess, að samningar verði gerðir eða að samningaborði verði setzt með þessum aðilum, að þeir kalli sín skip út fyrir 50 mílur, meðan samningar standa yfir.