28.11.1972
Sameinað þing: 22. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 912 í B-deild Alþingistíðinda. (623)

81. mál, bætt aðstaða nemenda landsbyggðar sem sækja sérskóla á höfuðborgarsvæðinu

Flm. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 2. þm. Vestf., Matthíasi Bjarnasyni, að flytja till. til þál. á þskj. 88, sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að beita sér fyrir því, að komið verði á fót mötuneytum og heimavistum á vegum hins opinbera, sem ætlaðar verði þeim nemendum af landsbyggðinni, sem sækja verða þá sérskóla í Reykjavík, er ekki starfa annars staðar á landinu. Í þessu sambandi verði m.a. kannað, hvort ekki komi til greina að semja við starfandi hótel um slíkan rekstur“.

Tilefni þessarar till. er fyrst og fremst, að undanfarin 2–3 ár hefur vandi skólafólks af landsbyggðinni, sem sækir framhaldsnám í skólum Reykjavíkur, við öflun húsnæðis og fæðis farið ört vaxandi. Athygli okkar hv. þm. á þessu var vakin í bréfi frá framhaldsskólanemendum og hversu mjög kastar nú tólfunum í þessu efni á yfirstandandi hausti. Hv. 5. þm. Vesturl., Jónas Árnason, lýsti ástandinu á þessu sviði í snjallri ræðu hér á hv. Alþ. við góðar undirtektir viðstaddra, og hef ég litlu við það að bæta, sem hann sagði um það efni. Ég tel þó rétt að greina frá því, að tvær ofureðlilegar ástæður liggja einkum til þess, að nemendum af landsbyggðinni hefur fjölgað hér í höfuðborginni við framhaldsnám á síðustu árum. Hin fyrri er sú, að árgangar framhaldsskólanema hafa farið stækkandi, og þó hygg ég það veigameiri ástæðu, að nemendur, sem sækja vilja skóla utan heimabyggðar sinnar, fá nú nokkurn styrk til þess úr ríkissjóði, en sá háttur var upp tekinn, eins og hv. þm. er eflaust kunnugt, árið 1970. Þessar styrkveitingar hafa án efa auðveldað ýmsum að sækja framhaldsnám utan sinnar heimabyggðar, sem annars hefðu ekki átt þess kost, og þá einnig í Reykjavík, enda er það megintilgangur umræddra styrkja.

Eins og vikið er að í grg., erum við flm. þessarar till. þeirrar skoðunar, að fyrst og fremst beri að leysa þörf nemenda af landsbyggðinni til framhaldsnáms með byggingum og rekstri skóla sem næst heimabyggðum nemendanna. Þá meginstefnu ætti ekki að þurfa að rökstyðja. Á hinn bóginn teljum við, að horfast þurfi í augu við þá staðreynd, að þrátt fyrir slíka meginstefnu í skólamálum muni jafnan vera mikill fjöldi nemenda frá landsbyggðinni, sem sækja þurfa og vilja nám í Reykjavík. Á þessum forsendum og til þess að freista þess að fá aðstöðu þessa fólks bætta, er þáltill. okkar flutt.

Ég hef áður hér á hv. Alþ, vakið athygli á þessu sérstaka vandamáli, sem þáltill. þeirra, sem hér um ræðir, er ætlað að koma á framfæri og stuðla að lausn á. Á síðasta þingi mælti ég fyrir till. um könnun á kostnaði og fjárhagslegri getu æskufólks í strjálbýli til framhaldsnáms. Sú till. fékk ekki formlega afgreiðslu, þar sem meginefni hennar var tekið upp í lög um jöfnun námsaðstöðu, sem samþykkt voru seinna á þinginu. Þegar ég mælti fyrir fyrrgreindri till., komst ég þannig að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Þá er ekki úr vegi að drepa á einn mikilvægan þátt framangreinds máls, og þá hef ég í huga þá spurningu, í hvaða formi eigi að greiða fyrir framhaldsnemendum úr strjálbýli, sem sækja skóla fjarri heimabyggð sinni, þannig að fyrirgreiðslan verði sem eðlilegust og komi að sem mestu gagni. Ég tel engum vafa undirorpið, að sumpart eigi að halda áfram beinum styrkveitingum, eins og verið hefur, bæði í fyrra og á yfirstandandi ári. Það er t.d. augljóst að því er varðar endurgreiðslur ferðakostnaðar. Um dvalarkostnað gæti þó sumpart gengt nokkuð öðru máli. Spyrja mætti, hvort ekki væri skynsamlegt að verja nokkru fé úr ríkissjóði til þess að styrkja starfrækslu mötuneyta eða jafnvel heimavista, t.d. hér í Reykjavík, þar sem hundruð nemenda utan af landi sækja framhaldsskóla í stað þess að veita beina dvalarstyrki til nemenda vegna fæðiskaupa og húsaleigu á eigin vegum. Benda mætti í því sambandi á, að mörg hótelanna í Reykjavík eru illa nýtt yfir vetrarmánuðina. Væri ekki hugsanlegt, að hið opinbera gæti samið við einhver þeirra í þessu skyni og jafnframt greitt þeim beint úr ríkissjóði vegna þjónustunnar í stað þess að greiða nemendum hærri dvalarstyrki.“

Ég held enn, að þetta sé raunhæfasta leiðin til þess að leita lausnar á heimavista- og mötuneytisvanda nemenda landsbyggðarinnar, sem sækja skóla í Reykjavík. Benda má á, hversu hagkvæmt væri á margvíslegan hátt að leigja hótel í þessu skyni. Hótelin sjálf nýttust betur og um leið drægi úr eftirspurn eftir venjulegum íbúðum til leigu, þar sem vitað er, að skólanemar slá sér oft saman og leigja slíkt húsnæði. Með þeirri ráðstöfun að stuðla að bættri nýtingu hótelanna á þann hátt, að hið opinbera leigi hluta þeirra til starfrækslu mötuneyta og heimavista fyrir utanbæjarnemendur í Reykjavík, væri því á fljótvirkastan og auðveldastan hátt unnt að létta að nokkru á þeim þrýstingi, sem nú er á almennum leigumarkaði á höfuðborgarsvæðinu, auk þess sem aðstaða nemenda af landsbyggðinni yrði stórlega bætt. Þótt hér sé fyrst og fremst bent á þessa leið, þá koma að sjálfsögðu ýmsar aðrar til greina.

Á þessu stigi tel ég ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál, svo augljós sem þörfin á úrbótum í þessu efni hlýtur að vera öllum hv. þm.

Ég legg til, herra forseti, að till. verði að lokinni umr. vísað til hv. allshn.