29.11.1972
Efri deild: 18. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 933 í B-deild Alþingistíðinda. (634)

16. mál, Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. sýndist vera mjög þungt í skapi yfir því, að ég hefði verið hér með ómaklegar árásir á hann fyrir það, að hann hefði farið með rangt mál í frumræðu sinni og túlkað ranglega það, sem væri efnisatriði málsins. Til þess að hrekja þetta flutti hann langa ræðu, og ég verð því miður hreinskilinslega að játa það, að ég er litlu nær um það eftir ræðuna, hvað hæstv. ráðh. raunverulega var að fara eða hver væri raunveruleg skoðun hans á málinu, því að hann sló harla mikið úr og í varðandi sjóðinn og notkun hans og eitt og annað í þessu efni. En ég byggði ræðu mína og ummæli um það, að ráðh. hefði farið mjög frjálslega með sannleikann a.m.k., svo að ekki sé meira sagt, í frumræðu sinni, á bréfi frá Landssambandi ísl. útvegsmanna, sem sent var sjútvn. hv. Nd. Hæstv. ráðh. gekk að vísu algerlega fram hjá þessu bréfi, en hann talaði um, að hann hefði átt orðræður við menn um ákvörðun fiskverðs og annað þess konar. En það var í rauninni ekki það, sem var kjarni málsins. Ég hélt því ekki fram, að deila þyrfti um, að fiskverð hefði þurft að hækka, heldur hvernig ákvörðun um fjármagn, sem þurfti til þess að mæta þessum vanda, hefði verið meðhöndluð. Ég vil leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hér stuttan kafla úr bréfi L.Í.Ú., þar sem er að finna efnisástæður fyrir því, að ég leyfði mér að halda því fram, að ráðh. hefði ekki farið með rétt mál í frumræðu sinni. Þessi kafli hljóðar svo:

„Fulltrúar L.Í.Ú. í verðlagsráði sjávarútvegsins áttu viðræður við sjútvrh. 22. sept. að hans beiðni um þau vandamál, sem við blöstu við ákvörðun fiskverðs. Hann lýsti þar þeirri skoðun ríkisstj., að fiskverð þyrfti að hækka, án þess þó að tilgreina hve mikið. Hins vegar taldi hann, að fiskkaupendur gætu ekki staðið undir þeirri hækkun vegna erfiðrar rekstrarstöðu og þyrftu jafnvel á aðstoð að halda. Þar sem ekki voru fyrirhugaðar neinar ráðstafanir af hálfu ríkisstj. fyrir n.k. áramót til lausnar á þessu máli, taldi hann, að það fjármagn, sem þyrfti til að koma til að gera fiskverðshækkun mögulega, yrði að takast úr Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins.“

Þetta er úr bréfi frá L.Í.Ú. og enn fremur segir:

„Fulltrúar L.Í.Ú. mótmæltu þessu og bentu á, að ekki væri ástæða til að taka fé úr verðjöfnunarsjóði, því að ekki væri um neitt verðfall að ræða á fiskafurðum.“

Þetta var sá grundvöllur, sem ég byggði þá skoðun mína á, að þarna færi eitthvað á milli mála, og skaut því að, sem hæstv. ráðh. vék ekki sérlega að í ræðu sinni, hvort L.Í.Ú. og fulltrúar þess væru hér að fara með ósannindi um, hvað fram hefði komið af þeirra hálfu eða ekki. Þessu gekk ráðh. fram hjá. Um bollaleggingar hans um fiskverðsákvörðun er ekki deilt. Það er heldur ekki deilt um, að það hefði orðið að taka þetta fé einhvers staðar. Hann sagði hins vegar sjálfur í ræðu sinni hér áðan, að hann hefði ekki vísað á sjóðinn, ég held, að ég hafi tekið alveg rétt eftir því. (Gripið fram í: Það er rétt.) Já, en L.Í.Ú. segir, að hann hafi vísað á sjóðinn. Einhver segir ósatt. (Gripið fram í.) Já, ég býst við því. Spurningin er þá, hver gerir það. Því verða menn að reyna að komast til botns í, og það var ástæðan til þess, að ég skaut þessu fram hér. (Gripið fram í.) Ég vildi ekki fullyrða neitt um það endilega, en ég byggði það á þessari skoðun, sem hér kemur fram. Hæstv. ráðh. hélt því ekki heldur fram hér í ræðu sinni áðan, að þetta væri ósatt. Það er gott, ef það kemur staðfastlega fram, að hann segi, að L.Í.Ú. fari hér með ósannindi, og skiptir mín skoðun um það efni engu máli. Ég sagði hins vegar áðan, að jafnvel þó að L.Í.Ú. hefði beðið um þetta, hefði ég talið rangt að gera það. Það er allt önnur saga.

Svo segir ráðh. um ákvörðun fiskverðsins: Það er auðvitað vandamál fiskkaupenda, ef þeir geta ekki borgað fiskverðið, sem sett er upp, en ekki ríkissjóðs. Ég skil nú ekkert í jafn greindum manni og hæstv. ráðh. að segja þetta, vegna þess að margoft hefur borið við áður, að fiskvinnslan hefur ekki getað borgað það verð, sem fiskseljendur hafa þurft að fá. Á því hefur byggzt, að þurft hefur að grípa til aðstoðar við sjávarútveginn. Ef fiskverð þurfti að hækka meira en fiskiðnaðurinn getur staðið undir, og það var, að því er mér skilst, skoðun hæstv. ráðh. líka, að fiskiðnaðurinn gæti ekki staðið undir þessu, varð auðvitað að bæta úr því með einhverjum hætti. En það var ekki sjálfsagt að bæta það úr Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins. Mig undraði satt að segja, að hann skyldi víkja allhvasslega að mér fyrir það, að ég hefði leyft mér að halda því fram, að hann hefði staðið í vegi fyrir, að það væri gerð aðför að sjóðnum. Mér finnst það nú ekkert slæmt, að hann hafi gert það, þó að hann hafi sagt, að aðförin hafi að vísu ekki verið ýkjastór. En það skiptir ekki efnislega miklu máli. Ég hef skilið fyrri ræðu hans rétt þannig, að hann hafi sagt, að aðilar hafi viljað fá meira úr sjóðnum en hann hafi viljað fallast á. Ég fæ ekki skilið, hvernig ráðh, getur reiðzt yfir þessum orðum mínum eða þau hafi verið hneykslanleg eða ávítur á hann.

Sannleikurinn er sá, að þetta virðist vera eitthvað einkennilegt allt saman. Það er víðar en hjá L.Í.Ú., sem þessi skoðun hefur komið fram, að hér beri á milli varðandi það, hvernig þetta allt hafi til komið um greiðslur úr þessum sjóði. Ég hef hér vitnað í bréf L.Í.Ú. Ráðh. getur e.t.v. sagt, að L.Í.Ú., eða talsmenn þess, fari með ósannindi. Hv. 5. þm. Reykn. upplýsti hér enn fremur, að hann kannaðist með engum hætti við það og við það kannaðist enginn, sem hæstv. ráðh. hélt hér fram áðan, hvernig ákvörðun fiskverðs og aukafiskverðs hefði borið að og hvernig þetta hefði verið ákveðið. Kannske eru þá þessir menn líka að segja ósatt. Segir þá enginn satt nema hæstv. sjútvrh.? Ja, ég spyr. Hvað álíta menn? Þetta voru ekki mín orð. Ég vitna aðeins í það, sem hv. 5. þm. Reykn. upplýsti hér áðan, að það virðist vera úr einkennilega mörgum áttum, sem mönnum ber ekki saman við hæstv. ráðh. af einhverjum ástæðum, þó að hann kunni að vera hinn eini sanni postuli sannleikans í þessum málum. Ég veit það ekki. Um það verða menn að hafa sína skoðun.

Varðandi hugleiðingar hans um það, að ég þekkti lítið til þessara laga, skal ég ekkert fara í meting um, hvor okkar þekki betur þessi lög. Ég hygg, að ég þekki í grundvallaratriðum lögin það vel, að ég viti, hvað í þeim er. Mér er fullkunnugt um það, að viðmiðunarverði hefur verið breytt og það af þeirri eðlilegu ástæðu, að fiskverð hækkaði geysilega mikið og urðu miklu stærri stökk en menn höfðu raunverur lega séð fyrir. Auðvitað lá í augum uppi, að ekki var hægt að taka sama hlutfall og gert var ráð fyrir af þessu stórhækkaða fiskverði. Það varð að hækka viðmiðunarverðið. Og ég held, að það hafi í raun og veru aldrei verið hugsun neinna, sem að þessu máli stóðu, að það væri aldrei tekið tillit til kostnaðar útgerðarinnar. Ég held, að það sé ekki neinn ágreiningur um það. Viðmiðunarverðið hækkaði auðvitað vegna þess, að tilkostnaður útgerðarinnar jókst, fiskverð hækkaði verulega innanlands og tilkostnaður, þannig að það varð að hækka viðmiðunarverðið. En það breytir engu um það, hvort rétt sé að borga úr sjóðnum. Það er önnur saga.

Greiðslur úr sjóðnum og ákvörðun um það, hvernig eigi að miða árgjöld eða framlög til sjóðsins, eru tvö mismunandi mál. Hér er verið að tala um, hvort rétt sé að hverfa yfir í þá hliðina, sem hér er gert, að fara beinlínis að borga úr sjóðnum. Þar kemur til annað mál.

það er það, sem okkur greinir á um, hvaða mat þurfi þar að koma til. Það er mín skoðun og reyndar fleiri, að það mat hafi ekki verið rétt í þessu tilfelli.

Varðandi það, að það beri í einhverjum grundvallaratriðum milli mín og formanns Sjálfstfl. um það, hvað sagt hafi verið um þetta efni, þá fylgdist ég ekki gerla með ræðu formanns Sjálfstfl. í Nd., en ég sé nú, að það, sem hann hefur sagt um það efni er allt með miklum fyrirvara. Hann hefur orðað það svo: „Ég get að vísu alveg skilið, að það sé ekki óeðlilegt að taka aflabrest og verðbreytingar erlendis að einhverju leyti saman.“ Mér finnst þetta engin grundvallaryfirlýsing um það. að sjálfsagt sé að fara þá leið, sem hæstv. ráðh. virtist í lokin vera kominn inn á hér áðan, að í rauninni væri eðlilegt að taka aflabrestinn líka með. Ég get vel fallizt á, að meta þyrfti, hvort eigi að taka það að einhverju leyti saman. Ég er ekkert viss um, að það sé svo langt frá því, að við séum sammála að vissu leyti. Ég er sammála hæstv. ráðh. eftir atvikum eftir því, hverju hann er að halda fram í það og það skiptið. En ég deili ekki alltaf með honum. Ég er sammála um viss atriði, sem hann heldur fram. En í grundvallaratriðum er ég þeirrar skoðunar, og ég vona, að hæstv. ráðh. sé það líka, að það séu verðbreytingarnar, sem fyrst og fremst eigi að koma til álita, hitt geti kannske komið að einhverju leyti til álita sem aukaatriði. Við getum þá verið sammála, ef hæstv. ráðh. vill fallast á þennan skilning. Þá þurfum við ekki að deila um þetta atriði. En hér liggur heldur ekkert fyrir, sem réttlæti það. Það hafa ekki orðið neinar þær ófarir í íslenzkum sjávarútvegi, hvað aflabresti snertir, þegar heildaraflinn yfir árið er tekinn, sem réttlæta þessa breytingu. Við skulum ekki fara að hefja deilur um það.

Ef það hefur verið alltaf hugsunin, og ef það er skilningur hæstv. ráðh., að 7. gr. l. megi skiljast þannig, að það megi nota þetta í sambandi við þau atvik, sem nú hafa gerzt, þá verður manni náttúrlega að spyrja: Af hverju þurfti þá þessi sérstöku lög, ef hægt var að gera þetta með eðlilegum hætti? Ég hygg, að þetta stafi af því, eins og hæstv. ráðh. sagði í framsöguræðu sinni, að hann telji, að í rauninni hafi þetta ekki getað fallið þarna undir nema með sérstökum lagaákvæðum. Lagagr. ber það greinilega með sér, að það er mat hæstv. ráðh., að hér sé um undantekningaratriði að ræða, sem er algerlega tímabundið. Það sýnir í rauninni greinilega skoðun hans um það, að hann er sammála því, sem ég hef sagt, að þetta er atriði, sem a.m.k. er það sérstætt, að það fellur ekki undir lögin, eins og þau eru úr garði gerð.

Við hv. 5. þm. Reykn. beindum sameiginlega þeirri fsp. til hæstv. ráðh., hvort það mætti ekki ganga út frá því sem öruggu, að hann mundi ekki leysa vandamál þau, sem nú blöstu við sjávarútveginum, með því að vega í sama knérunn og ganga á Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins. Í annan stað spurði ég hann að því, hvort hann gæti gert okkur grein fyrir þeim vanda og hve stór hann væri. Hann vék að vísu ekki að því nú. Það er e.t.v. ekki hægt að ætlast til þess, að hæstv. ráðh., eins og ég áðan sagði, geti á þessu stigi vitað, hver hann er. Það er ekki heldur aðalatriðið, heldur hin spurningin, sem við hv. 5. þm. Reykn, spurðum sameiginlega, hvort ætti að vega aftur í sama knérunn. Þessu svaraði hæstv. ráðh. algerlega út í hött og lýsti hneykslun sinni yfir því, hvað við spyrðum barnalega. Hann sagðist ekki þekkja aðra leið í þessu en þá, að annaðhvort gerðist þetta með eðlilegum hætti, með samkomulagi þeirra aðila, sem eiga sjóðinn, og við deilum ekki um, hver á sjóðinn, eða þá að breyta yrði lögunum hér á Alþ. Þess vegna þyrftum við ekkert um þetta að spyrja og hann gæti engu um þetta svarað. Sannleikurinn er sá, að þriðja leiðin er til, og það er hin leiðin. Það er leiðin, sem hæstv. ráðh. hefur farið. Það er að þvinga aðila sjóðsins til þess að biðja um að fá að nota sitt eigið fé með því að setja þá andpænis þeim vanda, að annaðhvort geri þeir þetta eða þessir atvinnuvegir stöðvist. Þetta er leiðin, sem hæstv. ráðh. fór núna með þessu frv., og sú leið, sem hann gæti ósköp vel farið aftur, þannig að hann þyrfti ekki lög frá Alþ. Það þyrfti alls ekki að vera frjáls vilji þessara aðila, hann kom ekki til núna. Það liggur alveg ljóst fyrir, hvað sem hæstv. ráðh. segir. Það var enginn hrifinn af því að fara þessa leið. En hann getur vitanlega neytt menn til að fara þessa leið, nota sitt eigið fé, ef hann segði, eins og hann sagði við þá, sem komu til hans nú í haust: Það er ekki um neitt fé að ræða, og ríkið hefur ekki þetta fé. Það verður að leysast með öðrum hætti. — Þessa leið er hægt að fara.

Hins vegar hefur hæstv. forsrh., — hann tók að vísu fram, að það væri sín persónulega skoðun, en það er góðra gjalda vert, — hann hefur svarað þessu alveg afdráttarlaust í hv. Nd., sé ég í ræðu, sem ég hef hér fyrir framan mig Hann segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég hef tekið það fram áður sem mína skoðun, persónulega ætti ég kannske að hafa innan sviga, að ég teldi, að vandamál sjávarútvegsins yrðu ekki framvegis leyst með þeim hætti, sem til var gripið til bráðabirgða fyrir áramót. Og ég hef í sjálfu sér engu við það að bæta. Ég álít, að vandamál sjávarútvegsins á næsta ári verði ekki leyst með því að sækja fé í verðjöfnunarsjóðinn á þann hátt, sem gert hefur verið nú“

Þetta var skoðun hæstv. forsrh., og það hefði óneitanlega verið dálítið skemmtilegra, ef hæstv. sjútvrh. hefði svarað jafnákveðið og hér er gert, jafnvel þó að bann hefði bætt því við: Þetta er mín persónulega skoðun. — Það hefur líklega mikið að segja. Það hefði verið skemmtilegra svar en að svara fsp., sem beint var til hans í fullri hógværð af okkur hv. 5. þm. Reykn., fullkomlega að gefnu tilefni og af fullum rökum miðað við það, sem búið er að gera, eins og hann gerði hér áðan, nánast algerlega út í hött.