04.12.1972
Neðri deild: 20. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 993 í B-deild Alþingistíðinda. (683)

32. mál, loðna til bræðslu

Frsm. meiri hl. (Garðar Sigurðsson):

Herra forseti. Þetta er ekki í fyrsta skipti, sem ég þarf að taka til máls, kannske ekki á þessum vettvangi, til þess að leiðrétta misskilning hjá hv. 3. þm. Sunnl. Ég sagði í framsöguræðu minni, ef ég má nota svo fínt orð um þau orð, sem ég lét falla um frv. áðan, að allar umsagnir, sem n. bárust, hefðu verið á eina lund. Ég gat þess líka, að eitt sambandsfélaganna í Farmanna- og fiskimannasambandinu hefði ekki getað samþykkt frv., og það voru sjómenn úr Vestmannaeyjum. Það er einmitt með tilliti til aths. þeirra og aths., sem komu frá Farmanna- og fiskimannasambandinu, að 3. brtt. er flutt við frv. af hálfu meiri hl. n. Þetta ætla ég að vona, að hv. 3. þm. Sunnl. taki til athugunar. Ég vil einnig gera aths. við það, sem hann sagði, að það væri í rauninni ekkert annað eftir af 2. gr. frv. en upplýsingaþjónustan. Það er ekki alveg rétt. Það er einnig eftir, að n. hefur heimild til að stöðva löndun og að fiskiskipi er óheimilt að leita löndunar í verksmiðju, sem hefur stöðvað löndun. Ég hirði ekki um að segja meira um þetta að sinni, nema sérstakt tilefni gefist til.